Amma Hulla og handritin

44Amma Hulla var sjálfstæðismaður. Að vísu kaus hún kratana en það sagði hún ekki nokkrum manni. Ekki fyrr en fimm árum áður en hún dó. Ég mátti ekki segja afa það. Hann var kommi og það hefði klúðrað hinu pólitíska ógnarjafnvægi sem ríkti á heimilinu ef hann hefði rennt í grun að hollusta hennar við íhaldið væri orðum aukin.

Sem sannur sjálfstæðismaður hafði Amma Hulla ímugust á þeirri hugmynd að ríkið ætti að styðja menningu sem var henni ekki að skapi. Hefði einhver í fjölskyldunni fengið listamannalaun hefði hún fagnað manna mest en flestir sem fengu þau voru að hennar mati vitleysingar. Listamenn áttu bara að standa undir sér eins og aðrir, selja sín verk þeim sem vildu þau en ekki láta aðra borga. Þegar ég spurði hana hvort væri þá ekki líka eðlilegt að þeir sem notuðu sjúkrahús og götur borguðu fullt verð fyrir þjónustuna var það einhvernveginn allt annað. Það var ekki sanngjarnt að sá sem ætlaði norður í land borgaði himinháan vegatoll en það var samt eðlilegt að sá sem vildi lesa bók borgaði mánaðarlaun fyrir eintakið. Mema það væri ævisaga áhugaverðrar manneskju.

Ætli það hafi ekki verið 1996 eða 1997 sem kom upp leki í kjallara Þjóðarbókhlöðunnar. Ég var í öngum mínum af tilhugsuninni um að einhver ólesin handrit kynnu að skemmast en eitthvað hafði heyrst um að fjöldi bóka, bréfa og annarra skjala frá 18. öld lægi undir skemmdum. Þegar ég lýsti áhyggjum mínum af þessu svaraði amma; „og til hvers á að geyma þetta gamla rusl? Er ekki löngu búið að setja Íslendingasögurnar í tölvu?“