Afi dálítið utan við sig

Afi Jói gat aldrei munað að Beggi bróðir minn héti Guðbjörn. Hann kallaði hann alltaf Berg. Það var kannski nett pirrandi fyrir Begga en ekkert stórmál. Einu sinni varð gleymska afa Jóa á nöfn þó frekar neyðarleg.

Lena hefur líklega verið svona 9-10 ára. Hún gisti hjá Afa og Ömmu yfir helgi og Afi tók hana með sér í sund á laugardagsmorgni. Nokkru síðar kom hann heim. Einn.

Amma Hulla átti ekki orð yfir það hvað karlinn var orðinn kalkaður.
Ertu að segja mér það, Jóhann Indriðason, að þú hafir gleymt barninu inni í Laugardal? Viltu bara gjöra svo vel...

Hann hringdi korteri seinna.
Heyrðu hérna Hulla mín… Ég sé hana nú ekki hérna svo hún er líklega ennþá ofan í lauginni. Ég þarf að láta kalla hana upp. Hvað heitir hún nú aftur stelpan?