Hverjir eru þessir venjulegu menn?
Við gætum líka búið til mun stærra vandamál og normaliserað ofbeldi með því að neita að gera greinarmun á venjulegum karli og nauðgara.
Vill einhver skilgreina fyrir mig hvað felst í því að vera „venjulegur“ karlmaður. Var það venjulegur karlmaður sem réðist inn til konu í Vesturbænum að næturþeli, ógnaði henni með hníf og nauðgaði henni? Var það venjulegur karlmaður sem tók hrottalegt kynferðisofbeldi gagnvart kærustunni sinni upp á myndband og drap svo vinkonu hennar sem studdi hana í því að kæra hann? Eru það venjulegir menn sem sitja í fangelsi dæmdir fyrir barnanauðganir?
Eða er orðið „kynferðisofbeldi“ orðið gersamlega merkingarlaust, farið að ná yfir ágengni sem fólk með snefil af virðingu fyrir raunverulegum fórnarlömbum flokkar fremur sem dónaskap og uppáþrengjandi framkomu?