Af hverju er það ekki sjúklegt?

Þegar ég var 12 ára fór ég í megrun. Ég var í heimavistarskóla og þekkti sjálfa mig nógu vel til þess að vita að ég myndi ekki standa við nein áform um að fá mér bara einu sinni á diskinn eða sleppa sósunni. Ég er gefin fyrir róttækar aðgerðir og mín lausn varð sú að sleppa því bara algjörlega að borða. Ég komst upp með það í tvo daga. Þá kom skólastjórinn til mín og spurði hvort ég væri veik. Hann var ósköp almennilegur en gerði mér grein fyrir því að hvort sem ég væri of feit eða ekki, liti hann á það sem merki um veikindi ef barn fengist ekki til að nærast og hann myndi því neyðast til að biðja foreldra mína að koma mér undir læknishendur ef ég borðaði ekki.

Á þessum tíma var orðið „átröskun“ ekki notað en engu að síður var það litið alvarlegum augum ef barn tók upp á því að svelta sig. Það var hinsvegar ekki álitið sjúklegt að borða yfir sig. Það gat verið dónalegt. Það gat líka verið óhollt en það átti helst við um ákveðnar fæðutegundir. Maður mátti ekki borða óhóflegt magn af súkkulaðikexi af því að birgðirnar af því áttu að duga fleirum og af því að þá hafði maður ekki pláss fyrir ýsuna en aldrei minnist ég þess að nokkrum manni hafi þótt ég eða nokkurt annað barn borða of mikið af venjulegum heimilismat. Þvert á móti var dyggð að vera „duglegur að borða“. Offita var náttúrulega ekki talin góð en hún var skrifuð á sælgæti og kókómalt frekar en of mikla matarlyst. Kókópöffs var ekki matur. Feitt saltkjöt var matur.

Þegar Darri var lítill varð hann stundum mjög lystarlaus í 2-3 vikur. Ég hafði brjálæðislegar áhyggjur af honum á þessum tímabilum og gerði allt sem ég gat til að koma ofan í hann fæðu. Aldrei hafði ég samt neinar áhyggjur af strákunum mínum ef þeir borðuðu óvenju mikið. Og áhyggjur af vannæringu fólks sem hefur nægan aðgang að mat eru ekki bundnar við nútímasamfélag. Móðir mín var grannt barn; hún var neydd til að drekka rjóma. Í dag eru fleiri börn feit og fleira fólk meðvitað um að það er vel hægt að fitna af fleiru en kökum og sælgæti. Horfellir er ekki vandamál nema þar sem hungursneyð geysar, offita er vandamál, jafnvel í þróunarlöndunum. Engu að síður er miklu líklegra að við lítum á það sem sjúklegt ástand að borða of lítið en að borða of mikið. Hvernig stendur annars á því að í daglegu tali er orðið „átröskun“ notað um anorexíu og lotugræðgi en ekki um það að borða of mikið að staðaldri? Hversvegna tölum við ennþá um að borða „vel“ og borða „illa“ eins og það sé heilbrigðara eða betra að borða mikið?

Þegar fólk borðar of lítið leitum við skýringa strax. Við reynum að finna líkamlega sjúkdóma sem valda lystarleysi eða geðræna sjúkdóma sem valda því að fólk vill vera sjúklega horað. En hversvegna borðar fólk of mikið? Vísindamenn reyna að finna svör við því en miðar hægt og almenningur skrifar það ýmist á persónubresti eins græðgi og leti eða þá á hæga brennslu. „Græðgi og stjórnleysi“ er náttúrulega engin skýring. Flestir þeirra sem ár eftir ár eru grannir, sýna enga sérstaka sjálfsstjórn, þá bara langar ekkert í meira. Af hverju langar sumt fólk í meiri mat en það þarf? Að einhverju leyti getur verið að skýringin felist í því að mikið sykurát setji insúlínið úr skorðum en sumir virðast þá undanþegnir því böli. Ég hef ekki fundið fullnægjandi svar en þigg ábendingar um lesefni með þökkum.

Fólk fitnar einkum af tveimur ástæðum; það langar í meiri mat en það hefur þörf fyrir og það lifir í sjálfsblekkingu um eigið mataræði. Sá feiti virðist hreinlega blokkera minninguna um súkkulaðimolann sem hann stakk upp í sig. Hann gerir sér ekki grein fyrir því að hann smakkaði sósuna 6 sinnum á meðan hann var að elda og fulla teskeið í hvert sinn. Og nei, það er ekki hægt að skrifa offitu á hæga brennslu nema í undantekningartilvikum, myndbandið hér að neðan sýnir að vísu bara eina tilraun en brennsla ólíkra hópa hefur margsinnis verið mæld og það er ekki marktækur munur á brennslu feitra og grannra. Það er hinsvegar algengt að feitt fólk vanmeti neyslu sína.

Af hverju lítum við ekki á ofátið sjálft sem sjúkdóm? Af hverju bíðum við eftir að afleiðingarnar komi í ljós þegar um er að ræða börn sem borða of mikið, en tökum strax í taumana þegar börn borða of lítið? Af hverju er það geðsjúkdómur að hafa ranghugmyndir um útlit sitt en ekki geðsjúkdómur að hafa ranghugmyndir um mataræði sitt? Og hvar passar þessi undarlega áhersla inn í kenninguna um útlitsdýrkandi samfélag sem hatar feita?

5 thoughts on “Af hverju er það ekki sjúklegt?

  1. Þetta er athyglisverð pæling og á örugglega eftir að ná upp á yfirborðið í almennri umræðu. Ég tengi hér í vefsíðu bandaríska þar sem gengið er útfrá því að hægt sé að vera „fíkill“ í mat. Tveir af þessu fólki voru hér í vor og koma að mér skilst af og til til Íslands. Ég sat fyrirlestur hjá Phil og þar komu fram nýjar hugmyndir. Vísindamenn eru líka að rannsaka boðefnaflæðið og segja margt líkt með matarfíkn og spilafíkn, hvað varðar það sem gerist í heilanum.
    Og hér er tengll í 60minutes hvar langafabarn Trotskys rannsakar fíkn.
    http://www.cbsnews.com/video/watch/?id=7406964n&tag=segementExtraScroller%3Bhousing

  2. Takk fyrir innleggið Magga. Vissulega er matarfíkn skilgreind sem sjúkdómur en það sem mér finnst athyglisvert er að það ástand fær oft ekki athygli fyrr en í óefni er komið þar sem fólk virðist aftur á móti almennt meðvitað um sjúkleika þess að borða of lítið. Mér finnst það stórmerkilegt í ljósi þess að offita er miklu algengara vandamál en sjálfvalið svelti.

  3. Takk fyrir þetta. Ég er einn af þessum sem hef aldrei verið með löngun til að borða og matur hefur alltaf verið auka atriði í mínu lífi. Matur fyrir mér hefur alltaf bara verið til að seðja mestu hungurtilfinninguna sem ég fæ einu sinni á dag. Fjölskylda, vinir og vandamenn og svo nátturulega samfélagið hefur alltaf sagt við mig að þessi lífsmáti sé ekki í lagi og hafði ég samviskubit yfir þessu í nokkra áratugi. Núna í dag er ég kominn á fimmtugsaldur er aldrei veikur, hef aldrei lagst á sjúkrahús er enn í góðu líkamlegu formi. Ég hef alltaf stundað mikla útiveru og svona í leiðinni þá hef ég reykt 1.5 pakka á dag í yfir 30 ár og hef ALDREI borðað morgunmat á minni ævi 🙂

  4. Takk fyrir innleggið. Allt mjög grannt fólk sem ég þekki segist oft verða fyrir athugasemdum um að það sé of horað, líka þeir sem eru í neðstu mörkum kjörþyngdar; fólk sem aldrei hefur beinlínis svelt sig eða verið með lystarstol á sjúklegu stigi heldur bara almennt matgrannt. Það þykir af einhverjum ástæðum allt í lagi að sýna grönnu fólki dónaskap vegna útlits síns og ýja að því að það sé haldið alvarlegum geðsjúkdómi.

  5. Relevence is the most important thing.If u have a hyper-super page speed but the conentt of it has no relevence then After u have a conentt rich and relevant site u had to wory about the speed (now that u have more time)

Lokað er á athugasemdir.