Ég veit ekki úr hverskonar morgunkornspökkum starfleyfi danskra lækna eru upprunnin. Var að vísu búin að sjá heimildamynd um læknamafíuna í Danmörku en reiknaði einhvernveginn ekki með að sannreyna það á fyrsta ári.
Hann Darri minn varð fyrir semsagt fyrir fólskulegri líkamsárás á meðan hann var hérna úti. Kinnbeinsbrotnaði, augnbotnsbeinið allt sprungið og margar sprungur í beininu kringum augun.
Hann fór strax á slysó.
Þeir límdu einn skurð en sendu hann svo heim. Þessi mynd er tekin rétt eftir að hann kom út. Þeir sáu ekki ástæðu til að mynda hann og hann fékk ekki einu sinni pandodil. Tveimur dögum síðar var hann viðþolslaus af kvölum og fór til lheimilislæknis í Tinglev. Sú varð eiturfúl út í læknana á slysó, sagði algjölega óforsvaranlegt að senda hann bara heim án frekari rannsóknar og sendi hann í sneiðmyndatöku í Aabenraa. Læknarnir í Aabenraa sendu hann svo í frekari rannsókn hjá háls, nef og eyrnalækni á sjúkrahúsinu í Sönderborg.
Hann var settur á sterk verkjalyf en sagt að það væri ekki hægt að meta nauðsynina á aðgerð fyrr en eftir um mánuð. Hann fór svo til læknis á Íslandi í gær og sá segir að þeir hefðu átt að gera aðgerð á honum strax en það hefði verið tiltöllulega lítil aðgerð. Nú er kinnbeinið gróið skakkt saman og eina leiðin til að laga það er þjáningafull og áhættusöm lýtaaðgerð.
Læknirinn í Sönderborg var líka viss um að tennurnar í honum hefðu sloppið en nokkrum dögum síðar var annar spaðinn orðinn grár. Það er drep í þeirri tönn og bara fyrsti tíminn hjá tannlækninum kostaði 27 þúsund krónur.
Löggan má eiga það að þeir fundu árásarmennina strax (eins gott því þeir eyddu mynd af öðrum þeirra) en eitthvað virðist vera í rugli þar líka því Dana María er búin að fá bréf um að hún eigi að mæta fyrir rétt til að bera vitni í málinu en Darri er ekki einu sinni búinn að fá svar við ósk um að sér verði úthlutað lögfræðingi. Samkvæmt bréfinu til Dönu á að taka málið fyrir þann 6. júlí og þeir vita vel að Darri þarf bæði að fá sig lausan úr vinnu og panta flugfar.
Ég er fokvond yfir þessu. Hann hitti ekki færri en 6 lækna á meðan hann var hérna úti og maður hefði haldið að það ætti að duga til að fá rétta meðferð. Sé fram á langa og leiðinlega baráttu við heilbrigðiskerfið og dómsmálið leggst ekkert sérlega vel í mig heldur.