Æðislegt!

Heyrt í ræktinni í morgun:

-Ég keypti mér skó.
Þeir eru að vísu of litlir en ég keypti þá samt.
Æ, þeir eru bara svo æðislegir.

Ég fékk gæsahúð á bakið. Eitthvað við röddina og tóninn sem var nákvæmlega eins og hjá vinkonu minni sem sagði:
-Hann er að vísu tillitslaus og lokaður en ég elska hann samt.
Æ, hann er bara svo æðislegur.

Hvernig geta skór sem meiða mann og valda varanlegum skaða ef maður notar þá til lengri tíma verið æðislegir? Jú það er auðvitað óðs manns æði að ganga á þeim. Það er líka óðs manns æði að vera ástfangin af manni sem veit ekkert hvað hann vill (eða segir manni það allavega ekki).

Á tímabili hélt ég sjálf að pabbi minn væri síðasta eintak veraldar af virðingarverðum karlmanni en nú þegar ég hef fengið nasasjón af því hvernig það er að vera með manni sem leikur sér við mig en ekki  mér, þá sé ég ennþá betur en áður hvað það er sjúkt að sóa tíma sínum á menn með raunverulega eða ímyndaða skuldbindingarfælni. Stundum finnst mér engu líkara en að kvenkynið hafi sameinast um að bíta það í sig að það sé ekkert annað í boði en að vera stöðugt í geðbólgukasti yfir einhverjum fávita. Síðast í gærkvöld talaði ég við aðra vinkonu sem er einmitt skotin í einhverjum lúða sem er allt í einu og án skýringa, hættur að hafa samband við hana að fyrra bragði.

Enn og aftur; maður sem hegðar sér þannig er:
a) áhugalaus
b) að reyna að taka þig á taugum með því að gefa þér aldrei neina staðfestingu á því hvað er að gerast í hausnum á honum (ekki spyrja mig af hverju flestir karlmenn leika þennan ljóta leik því fæstir myndu falla fyrir taugahrúgu, þetta virðist bara vera eitthvað svona challenge)
c) hrifinn af þér en of mikill heigull til að takast á við praktísku málin (fjármál, börn og búseta) og vill því ekki alvöru samband.
Í öllum tilvikum er góð ástæða til að láta hann róa.

Einu sinni átti ég samtal við glaumgosa sem hélt því fram að konur yrðu strax leiðar á honum ef þær vissu hvar þær hefðu hann. Konur vildu spennu, þær vildu láta halda sér volgum, sagði hann. Reyndar er ákveðinn sannleikskjarni í því. Það er auðvelt að missa áhugann á einhverjum sem kemur með fokdýra gjöf á fyrsta stefnumót, hringir 10 sinnum á dag og skilur fötin sín eftir í óheina tauinu manns eftir tveggja vikna kynni. En það er mikill munur á því að taka eitt skref í einu og að halda annarri manneskju í stöðugri óvissu um framhaldið.

Það er hægt að nota ómerkilegan leikaraskap til að láta hinn aðilann fá fiðrildi í magann og skjálfta í hnén en það er líka hægt að nota mun geðslegri leiki til þess sama. Leik þar sem báðir aðilar vita að leikur er í gangi og markmiðið er ekki það að annar vinni og hinn tapi, heldur að báðir hafi gaman af. Ung kona sem kemur stundum til mín á t.d. kærasta sem heldur henni ekki bara volgri heldur sjóðheitri og talar þó við hana daglega. Hann er ekki nógu ríkur til að gefa henni demanta, gæti ekki ort henni ástarljóð þótt líf hans væri í húfi og afrek hans í eldhúsinu takmarkast við örbylgjupizzur og taco. Þetta kemur þó ekkert í veg fyrir að hann geri hluti sem fá hana til að kikna í hnjánum. Eitt dæmi: Þegar hún kom heim úr vinnunni á afmælinu sínu var rauð pappaör límd á gólfið og frá henni slóð af litlum súkkulaðikossum inn í eldhús, þar var önnur ör og fleiri kossar. Eftir 20 mínútna ratleik, fyrst um íbúðina og svo um alla blokkina, endaði hún heima hjá vinkonu sinni í sömu blokk, þar sem kærastinn var búinn að safna saman nokkrum vinum til að borða taco með þeim við kertaljós. Fiðrildi í magann? Ójá.

Æðislegur karlmaður leikur ekki einhverja skíthælaleiki til að halda þér volgri. Æðislegur karlmaður nærir spennuþörf þína með rómantík og öryggisþörfina með heiðarleika. Og lætur þig róa ef þú sýnir honum ekki ástúð og virðingu á móti. Manneskja með of lítið hjarta er nefnilega nákvæmlega jafn æðisleg og of litlir skór.

One thought on “Æðislegt!

  1. —   —   —

    Óskaplega erum við karlmenn merkileg dýr. Öll þessi orka ,reglur og væntingar sem fara í að hugsa um okkur. Hvernig væri að gera eitthvað konstrúktívt eins og að taka pungapróf í staðinn ?:)

    Posted by: Guðjón Viðar | 10.03.2008 | 14:28:26

    —   —   —

    Guðjón Viðar, ef þú heldur að konur almennt láti tilfinningaflækjur sínar hindra sig í því að gera eitthvað af viti, ert þú vitlausari en ég hélt og hafði ég þó ekki mikið álit þér fyrir.

    Ég reikna með að öllu færri konur en karlar taki pungapróf en bendi þér á að skoða annarsvegar útskriftartölur úr Háskólanum og hinsvegar hlutfall kynjanna í fangelsum og á meðferðarstofnunum til að fá vísbendingu um það hvernig konur verja þeim tíma sem þær eru ekki að dramakastast yfir fávitum.

    Posted by: Eva | 10.03.2008 | 15:26:53

    —   —   —

    Vóóóó….

    Posted by: Hulla | 10.03.2008 | 17:07:19

    —   —   —

    Eva. mér finnst þú frábær.

    Posted by: baun | 10.03.2008 | 18:14:09

    —   —   —

    Hún er æði… Þ.e.a.s Eva.
    Ég er samt pínu hrædd við hana þegar hún er í þessum ham…

    Posted by: Hulla | 10.03.2008 | 20:13:24

    —   —   —

    ég er ekki hrædd – held aftur á móti að við höfum öll gott af svona áminningum.
    einstaklega skemmtileg framsetning spillir auðvitað ekki!

    Posted by: inga hanna | 10.03.2008 | 20:32:06

    —   —   —

    Lítil að sjá og pen, en með nærveru sinni og töfrum yfirgnæfandi stór

    Posted by: Gillimann | 11.03.2008 | 2:14:22

    —   —   —

    Þakka góð komplíment.

    Posted by: Eva | 11.03.2008 | 12:25:47

    —   —   —

    That’s what I’m talking about:) !!! Nota orkuna í eitthvað uppbyggilegt 🙂

    Posted by: Guðjón Viðar | 12.03.2008 | 20:56:18

Lokað er á athugasemdir.