Hann tók mig í fangið og bar mig inn á yfirbyggðan skeiðvöllinn, sposkur að vanda. Ég gróf andlitið ofan í koddann hans, hlustaði á vatnið renna inni á baðherberginu og reyndi að hundsa rausið í Birtu, bak við augnlokin.
Eva: Ég held að ég ætli kannski að prófa það núna. Kannski.
Birta: Er ekki í lagi með þig? Ætluðum við eki að hafa allt fullkomið? Rauðvín og sexý undirföt og frí daginn eftir.
Eva: Er ekki alveg eins hægt að hafa það þannig næst?
Birta: Þú ert nú ekki beinlínis geislandi af öryggi og þokka. Sjáðu sjálfa þig. Liggjandi í hnipri undir sæng í rósóttum bómullarnáttfötum. Hvað kom eiginlega yfir þig? Þú átt nóg af sexý náttfötum. Heldurðu kannski að hann sé með ömmufetish eða hvað? Svo ertu líka orðin allt of feit.
Eva: Hann segir að ég sé grönn.
Birta: Brjóstin á þér eru grönn. Ekki neitt annað.
Eva: Mér er alveg sama. Mig langar samt.
Birta: Gott og vel, þú ferð þá úr þessum ömmubúningi í hvínandi hvelli, við tökum hann með stæl og komum okkur svo út héðan.
Eva: Nei, ég ætla að gista.
Birta: Þú ætlar ekki að gista. Þú ert drifter.
Eva: Ég er enginn drifter, það er bara varnarháttur, bara þú að rugla í mér.
Birta: Kallaðu það varnarhátt eða hvað sem þú vilt. Maðurinn er það sem hann gerir.
Eva: Já en ég er í náttfötum, þá hlýt ég að ætla að gista?
Birta: Þú ætlaðir BARA að gista.
Eva: Ég trúi á réttinn til að skipta um skoðun.
Birta: Við getum alveg kýlt á það og farið svo heim. Hann veit að þú ert drifter svo hann tekur það ekkert nærri sér þótt þú farir.
Eva: Víst tæki hann það nærri sér. Og ég líka. Ég tæki það virkilega nærri mér.
-Ertu viss? spurði hann og strauk hárið á mér ástúðlega frá andlitinu. Ég opnaði augun, horfði beint framan í hann og sagði já.
-Alveg viss?
-Já.
-Þú verður að vera góð við mig.
-Ég verð góð við þig, sagði ég, því maður getur fjandinn hafi það ekki gist hjá einhverjum sem maður er ekki góður við.
-Ég er í náttfötum, bætti ég við. Hann horfði rannsakandi á mig andartak. Ég býst við að hann hafi verið að velta fyrir sér tákngildi þess að vera í náttfötum en hann spurði ekki. Ég ákvað að útskýra það ekki óbeðin. Hann er alveg fær um að hugsa fyrir sig sjálfur og tákn eru yfirleitt margræðari en maður gerir sér grein fyrir.