Ögmundur og fílabrandarinn

Hann situr við eldhússborð í ókunnugu húsi. Hér mun hann dveljast þar til jákvæð niðurstaða fæst en hversu langan tíma það tekur veit enginn. Vinur hans er hjá honum. Hann bendir á hluti í eldhúsinu og nefnir þá á ensku, einn af öðrum og Mouhamed tyggur upp eftir honum. Hann verður að læra ensku ef hann ætlar að geta haldið uppi samskiptum, það var honum löngu orðið ljóst. Vinir hans hafa reyndar rætt möguleikann á að kenna honum íslensku enda markmiðið að hann fái hæli á Íslandi en ef allt fer á versta veg og hann verður sendur til Noregs, á hann ekki annars úrkosta en að reyna að flýja einu sinni enn og hann á þó  einhverja möguleika á að bjarga sér með ensku flestum löndum Evrópu. Íslenska gagnast hvergi annarsstaðar.

Þótt sé útaf fyrir sig fínt að geta sagt blómkál og eldavél á ensku, duga nokkur nafnorð ekki til að halda uppi innihaldsríkum samræðum. Eftir að hafa setið þegjandi drjúga stund, dregur félaginn fram skákborð og spyr Mohammed hvort hann vilji tefla. Telur sig hafa fengið góða hugmynd því skák krefst ekki mikilla samræðna en felur samt í sér samskipti. Mouhamed er sannarlega til í að tefla. Hann stillir taflmönnunum upp og lítur eftirvæntingarfullur á vin sinn.

Vinurinn klórar sér í hausnum. Það er augljóst af uppstillingunni að Mohammed hefur aldrei séð taflborð áður.  „Maður áttar sig ekki á því hvað skák er flókinn leikur fyrr en maður reynir að kenna hana án  tungumáls. Hann hlýtur að hafa haldið að ég væri að svindla,“ segir vinur hans en Mohammed lærði nú samt mannganginn og í dag vinnur hann af og til.

Vinurinn á sér annað líf og eftir allt of stutt stopp kveður hann og við tekur biðin. Endalaus bið. Dagarnir silast áfram, að mestu leyti í einveru. Vinir líta til hans en það er nauðsynlegt að takmarka fjölda þeirra sem vita um dvalarstað hans og stundum líða dagar án þess að neinn komi. Hann kemst sjaldan út úr húsi og ef einhver bankar óvænt upp á fær hann hnút í magann. Alltaf hugsanlegt að yfirvaldið sé komið til að taka hann.

Smátt og smátt eykst færni hans í því að tjá sig á ensku en það er snúið að kenna og læra nýtt tungumál án hjálpartungumáls, hvað þá þegar nemandinn er úr gerólíku málumhverfi og hefur ekki lært eitt einasta málfræðihugtak. Þegar ég kom til landsins, í september, var Mouhamed búinn að tileinka sér  nógu mikinn orðaforða í ensku til þess að halda uppi lágmarks samskiptum en hann hafði mjög lítinn skilning á óhlutstæðum hugtökum og það getur tekið margar mínútur að útskýra eitt hugtak og setja það í samhengi þegar maður hefur ekki hjálpartungumál.

Að ná upp grunnorðaforða er ekkert mál, maður notar myndir, hljóðlíkingar, bendingar og annað látbragð, leikur tilfinningar, myndar setningar án límorða. Gúggull vinur minn á myndir af nánast öllu sem máli skiptir og hefur gagnast okkur vel. Ég bað Mouhamed að segja mér sögu sína og þótt ýmislegt vantaði upp á og annað væri lengi óljóst, tókst honum að gefa mér einhverja mynd af því sem hann hafði upplifað. Hann sagði mér að hann hefði komist til Spánar með bát. Ég fann mynd af ferju en hann aftók með öllu að sú væri í nokkurri líkingu við bátinn sem hann ferðaðist með, við skoðuðum margar bátamyndir og á endanum fundum við mynd sem hann var sáttur við.

Ekki þessi

    heldur þessi

.

Ég vildi heyra frá fyrstu hendi hvort hann ætti raunverulega á hættu að vera geldur svo ég sýndi honum mynd af afskornum kynfærum og sagði: „You go Mauritania, this happen?  True?“ Hann svaraði „not true“. Setti svo úlnliðina saman eins og hann væri bundinn, fann mynd af priki, lagði fingur á borðið og lamdi á hann og benti á þessa mynd af afskornum kynfærum. „Not cut. Beat, beat, beat. You finish. No wife.“ Seinna fengum við túlk og þá fékk ég það staðfest að geldingin færi fram með barsmíðum. Túlkurinn sagði mér að víða í Vestur Afríku væri sú aðferð notuð við að gelda hrúta. Túlkurinn leiðrétti líka ýmiskonar smávægilegan misskilning og  eitt af því sem kom í ljós var að Mouhamed var óvanur okkar skilningi á tíma og vegalengdum. Í dag gerir hann sér grein fyrir því að Vesturlandabúar skynja tíma og rými á annan hátt en hann og leggur sig fram um að vera nákvæmur en fyrst þegar hann kom til Íslands talaði hann ekki um tíma eða vegalengdir af neinni nákvæmni nema hann væri að fást við mjög smáar einingar, tvær vikur eða minna, 500 km eða minna. Allt yfir því var bara „long long time“ eða „long long way“ og ef maður reyndi að fá nákvæmari upplýsingar nefndi hann bara tölu út í loftið. Hann var hreinlega ekki vanur að hugsa um þetta á sama hátt og flest okkar og átti jafn erfitt með að svara spurningum um tíma eins og Eva áttavillta á erfitt með að segja til vegar. Hann er örugglega ekki einn um að að hafa lent í þessum menningarárekstri og ég velti því fyrir mér hversu mikið af meintum lygum flóttamanna um eigin hagi sé til komið af þessum eða svipuðum ástæðum.

Það er ekki bara tungumál og tímaskyn sem Mouhamed þarf að læra. Hann kom hingað ómenntaður í orðsins bókstaflegustu merkingu og þarf að læra svo til allt. Hann hefur góða rökhugsun og gott minni auk þess að vera áhugasamur svo hann ætti að geta lært allt sem hann þarf. Mikið sjálfsnám er þó ekki raunhæft, vegna þess að hann kann engin vinnubrögð og ýmislegt í menningu okkar sem mér finnst svo sjálfsagt að ég hugsa nánast aldrei út í það, er honum svo framandlegt að það er honum hindrun út af fyrir sig. Ég útvegaði honum nokkrar skólabækur fyrir börn og átti von á því að málfræðin og stærðfræðin vefðust fyrir honum. Það hafði hinsvegar ekki hvarflað að mér að myndirnar í bókunum yrðu vandamál.

Ég opnaði fyrstu bókina. Þar voru teiknimyndir af dýrum og fyrsta verkefnið fólst bara í að nefna hluti. „This is a mouse“ sagði ég og benti á músina. Benti svo á næstu mynd sem var af ketti. Ég vissi að hann þekkti orðið köttur. „This is a …..“ sagði ég og gaf honum til kynna að hann ætti að botna. Mouhamed horfði á mig skilningsvana „mouse?“ sagði hann spyrjandi. Þegar ég leiðrétti hann, leit hann fyrst á heimilisköttinn sem lá malandi á gólfinu og svo á myndina. Kötturinn á myndinni var með slaufu í hárinu og gleraugu. Músin var í jakka og gekk upprétt. Honum hafði ekki dottið í hug að þessar fígúrur ættu að tákna dýr. Og þessi brandarahefð okkar, úff! „Hvernig veistu að það er fíll í bakaraofninum? Þú getur ekki lokað honum.“ Mouhamed bara horfði á mig og það leið nokkur stund þar til ég áttaði mig á að hann var að bíða eftir því að ég útskýrði fyrir honum að elephant þýddi líka eitthvað annað en fíll. Honum fannst bara ekkert fyndið við þá hugmynd að það gæti verið fíll í ofninum.

Einn daginn kom ég til hans með púsluspil. Hann er mikið einn og hefur lítið við að vera svo mér datt í hug að hann gæti púslað sér til afþreyingar. Þetta var ekkert erfið mynd, bara 100 stykkja heimskort. Hann hafði greinilega aldrei séð púsluspil áður. Ég rétti honum nokkur stykki sem féllu saman og hann skildi út á hvað leikurinn gekk og gat auðveldlega raðað þeim. Þegar ég kom til hans 2 dögum síðar hafði hann ekkert haldið áfram. Sagði að þetta væri mjög erfið þraut og hann gæti ekki lært þetta. Ég hafði enga trú á því að maður sem hafði lært að tefla mállaus, væri ófær um að læra að púsla, hélt að honum þætti þetta kannski bara leiðinlegt. Svo sá ég á mörgum stykkjum að hann hafði reynt að þvinga þau saman þannig að hann hafði greinilega reynt.

Ég sagði honum að auðveldast væri að raða rammanum saman fyrst. Hann skyldi gera það en ég ætlaði að púsla sjónum. Benti honum á að finna fyrst kantstykkin en geyma öll hin. Og allt í einu varð þetta ekkert mál. Ég sagði honum að púsla Evrópu næst og eftir það tók hann frumkvæðið, hverja álfu fyrir sig og endaði á að púsla sjónum líka. Hann lenti ekki í neinum vandræðum, hann hafði bara hreinlega ekki kunnað að skipta verkefni af þessu tagi niður í viðráðanlegar einingar.

Mouhamed er búinn að læra heilmikið. Þegar hann kom til Íslands skildi hann hvað samlagning og frádráttur ganga út á en hann réði aðeins við hugarreikning, kunni ekki aðferðir eins og að geyma og taka til láns þegar unnið er með stórar tölur. Hann kann það núna. Hann hafði aldrei lært neina margföldun en hefur nú náð tökum á margföldun. Einn daginn þegar ég kom til hans voru mörg deilingardæmi í bókinni hans. Ég spurði hver hefði kennt honum en hann sagði að enginn hefði gert það og hann kynni þetta ekki. Hann hafði bara séð deilingartáknið í símanum sínum, með hinum merkjunum og þar sem hann áttaði sig á því að samband væri á milli samlagningar og frádráttar og samlangingar og margföldunar, þótti honum líklegt að fjórða merkið tengdist hinum. Hann var að reyna að finna samhengið út af sjálfsdáðum. Hann kann nú að margfalda og deila, honum fer stöðugt fram í ensku og hefur öðlast nýjan söguskilning og nýja heimsmynd.

Það sem helst tefur Mouhamed í því að læra og aðlagast vestrænu samfélagi er sú napra staðreynd að hann er í stofufangelsi og hefur því takmörkuð samskipti við fólk. Það er ekki hægt að flokka líf í felum á annan hátt og það er varla hægt að tala um að stofufangelsi hans sé sjálfskipað þegar valið stendur um það eða þau örlög sem bíða hans í Máritaníu. Ég hef heyrt þá skoðun að það sé arfavitlaus ákvörðun að halda þeirri hugmynd að honum að hann eigi ekki að láta sjá sig á almannafæri. Það sé óþarfi að gera líf hans erfiðara með svoleiðis paranoju. Í einhverri frétt kom fram að Útlendingastofnun væri ekki að láta leita að honum svo fólk sem hefur aldrei rekist á ofbeldiseðli yfiravaldsins heldur að það sé ástæðulaust að hafa áhyggjur. M.a.s. lögfræðingurinn hans segist halda að honum sé óhætt. Einmitt það já? Menn hafa nú svosem hlegið að meðlimum grasrótarhreyfinga á borð við Samtök hernaðarandstæðinga sem hafa talið hættu á að símar þeirra væru hleraðir. Líklega hafa flestir haldið að enginn væri að fylgjast með þeim sem urðu fyrir ólöglegum hlerunum á tímaum kalda stríðsins og ætli nokkur lögfræðingur hafi haldið að löggan myndi senda breskan njósnara ofan í svefnpoka hjá liðsmönnum Saving Iceland? Nei, engum sem til þekkir, dettur í hug að treysta því bara að stofnun sem tók Paul Ramses nauðugan frá konu sinni og barni og sendi hann til Ítalíu, stofnun sem lét handtaka Nour Aldin barnungan og senda hann til Grikklands, stofnun sem sendir lögguna til að rífa menn upp úr rúmi og sendir þá burt í skjóli nætur, án þess að skeyta neinu um þau örlög sem bíða þeirra, myndi ekki þiggja aðstoð varðhunda valdsins til þess að hreinsa landið af jafn hræðilegu aðskotadýri og strokuþræl, þrátt fyrir fyrri yfirlýsingar um að hans sé ekki leitað.

Ónei, á meðan Útlendingastofnun gefur ekki afdráttarlaust svar um að mannréttindi  Mouhameds Lo verði virt, er ekki hægt að reikna með að honum sé óhætt. Hann verður þessvegna í felum þangað til jákvæð niðurstaða fæst. Svo virðist sem Útlendingastofnun ætli að reyna að galdra vandamálið burt með þögninni, hafa málið „í athugun“ þar til hann gefst upp, svo ef almenningur sýnir þessu engan áhuga, sér Mouhamed ekki fram á neitt annað en líf í felum. Eina von hans í dag virðist fólgin í hópþrýstingi.

Og enn veldur tungumálið vandræðum. Það er hægt að komast nokkuð langt á myndum og látbragði en málið vandast þegar þarf að skýra muninn á því sem maður vonar og því sem er líklegt að gerist. Ég tala nú ekki um undarlegheit eins og vinnuferli Útlendingastofnunar sem ekki einu sinni Íslendingar botna neitt í. Sá sem hvorki hefur þokkalegan málskilning né þekkir vestræna menningu (eða nokkra aðra menningu en þá sem gildir í örlitlu hirðingjasamfélagi, því þegar Mouhamed flúði hafði hann aðeins þrisvar á ævinni komið til borgar í Máritaníu) hlýtur að hafa aðrar væntingar en þeir sem þekkja kerfið. Hann vissi að ég hefði fengið fund með innanríkisráðherra og þegar ég kom til hans eftir fundinn tók hann á móti mér með blik í augum og stórt bros. „Sagði hann já?“ spurði hann. Hafði haldið að ráðherrann væri svona góður kóngur sem hefði bara ekki vitað að hann hafði ástæðu til að flýja.

Hvernig útskýrir maður fyrir hálfmállausum manni með hans bakgrunn að ráðherra verði að virða leikreglur popúlismans og geti ekki beitt valdi sínu til að fylgja samvisku sinni nema eiga það á hættu að missa völdin sem hann getur hvort sem er ekki beitt til að fylgja samvisku sinni? Hljómar þetta ekki bara eins og fílabrandari í eyrum hans? Eða hreinn og klár uppspuni? Ég sagði honum að ráðherrann þyrfti að tala við marga menn, halda fundi og skrifa bréf og hann hefði mörgu öðru að sinna til viðbótar, þetta gæti tekið langan tíma. Honum fannst það frekar flippað en honum þóttu svosem myndirnar í skólabókunum líka flippaðar, sem og fílabrandarar, svo hann yppti bara öxlum.

Næstu vikur spurði hann 3-4 sinnum í viku hvort ég hefði heyrt frá ráðherranum. Í fyrstu vongóður en síðar í efasemdatón. Nú er hann hættur að spyrja.

One thought on “Ögmundur og fílabrandarinn

  1. Takk fyrir pistlana um Mohammed. Ómanneskjuleg vinnubrögð okkar Íslendinga í þessum málum eru okkur til skammar.

Lokað er á athugasemdir.