Að hitta mann úti í bæ

Þegar ég var lítil var móðir mín haldin kvenlegri sektarkennd yfir félagslegum þörfum sínum. Ef hana langaði að hitta vinkonur sínar eða fara í bæinn án þess að hafa mig í eftirdragi, sagðist hún þurfa að „hitta mann úti í bæ“.

Ég skildi það svo að hún neyddist til þess, þvert gegn vilja sínum, að hitta sköllóttan mann í jakkafötum á skrifstofu og skrifa nafnið sitt á grænt blað. Ég reikna með að það hafi einmitt verið það sem hún ætlaðist til. Kannski hefur hún einhverntíma þurft að taka mig með í atvinnuviðtal, mér til óbærilegra leiðinda. Samt þótti mér ekkert meira spennandi að vera heima hjá pabba en að hanga yfir móður minni á meðan hún „hitti mann úti í bæ“, það var bara svo fráleitt í boði að ég fengi að fara með á slíka fundi að ég kyngdi því. Um leið lærði ég að móðir mín hefði hvorki þörf fyrir, né rétt til að gera nokkuð sér til ánægju, án mín.

Ég spurði strákana mína aldrei álits ef ég fór út án þeirra. Ef ég á annað borð sá ástæðu til að gefa þeim skýringar, sagði ég þeim ekki að það væri „ekki hægt“ að taka þá með, heldur að ég ætlaði að hitta vini mína, drekka bjór, eða fara á bíómynd fyrir fullorðna. Ég minnist þess ekki að þeir hafi tekið því illa.

Þótt þessir fundir móður minnar við „mann úti í bæ“ færu sjaldnast fram á skrifstofutíma, grunaði mig aldrei að tilgangur þeirra væri annar en sá að skiptast á eyðublöðum og tala um eitthvað sem ég skildi ekki. Ég held samt að drengirnir mínir hefðu fengið kvíðahnút í magann ef ég hefði málað mig og farið á háa hæla til að „hitta mann úti í bæ“ og lofað að gera eitthvað fyrir þá á morgun „í staðinn“.

Ég hef líklega verið heimskur krakki.