Af öllum vondum rökum fyrir því að almenningur borgi icesaveskaðann eru þau verstu: af því það er svo leiðinlegt að hafa þetta hangandi yfir sér.
Dag nokkurn bankar Jón stóri upp á hjá pabba þínum til að innheimta skuld. Ríki frændi þinn sveik sko peninga út úr saklausu fólki og getur ekki endurgreitt þá. Ríki frændi er nefnilega ekkert ríkur, heldur bara sukkari með stórmennskuæði, búinn að kaupa dóp fyrir helminginn og fela restina. Jóni stóra er sama hvaðan gott kemur og krefst þess nú að fjölskyldan greiði þýfið. Enginn í fjölskyldunni hefur gengið í ábyrgð fyrir frænda en pabbi hefur alltaf verið frekar meðvirkur með stóra bróður sínum og vill endilega bjarga heiðri fjölskyldunnar. Hann lofar því fyrir þína hönd og hinna systkinanna að þið greiðið skuldina. Ber þér skylda til að borga eða ekki?
Nei auðvitað ekki. Þú segir Jóni stóra að frændi hafi framið lögbrot án þinnar vitundar og að það eigi að meðhöndla sem hvert annað sakamál. Hugsanlega býrðu við hræðilegt dómskerfi þar sem Jón stóri stjórnar í gegnum vini sína. Hugsanlega er ódýara fyrir þig að semja við Jón stóra en að láta reyna á réttlætið fyrir dómstólum. En þú borgar ekki af því að þér beri skylda til þess. Þú borgar heldur ekki bara til að losna við hann.
Ég skil þá sem vilja borga icesave af því að þeir óttast að tapa málinu fyrir dómstólum. Það er aldrei hægt að reikna með því að réttarkerfið sé réttlátt og stundum er ekki áhættunnar virði að standa fast á sínu í nafni stolts og réttlætis. En að borga af því að maður nenni ekki að standa í veseni. Það er ekki í lagi. Því síður er í lagi hneppa afkomendur sína í skuldafjötra, af því að maður nennir ekki að lesa um sama hundleiðinlega málið í fjölmiðlum ár eftir ár.