Ég var í 3ja bekk í grunnskólanum í Njarðvík.
Kennarinn minn, Ester, hélt vinnubók eins drengjanna á lofti og fyrirlitningin skein af henni. Það voru grautarklessur á bókinni.
-Grautarklessur, hafiði vitað annað eins!
Drengurinn sökk lengra og lengra niður á meðan hún flutti fyrirlestur um meðferð bóka og almenna snyrtimennsku og æ síðan hefur mér verið ljóst að þeim verður snarlega úthýst úr himnaríki sem klessa graut á bækur. Aldrei klessi ég graut á bækur. Ég þori ekki einu sinni að skrifa í þær.
Flóran er falleg bók. Einhverjum datt í hug að búa til nýtt listaverk úr henni með því að klína hana út í mat. Það hljómar satt að segja eins og mjög vont listaverk. Allavega hefði hún Ester ekki tekið þá skýringu gilda að nemandinn ósiðlegi hefði verið að fremja listgjörning þegar hann sullaði graut á bókina sína.
En á hinn bóginn; ef er hægt að banna fólki að klína graut á bók opinberlega, er þá ekki líka bannað að fara illa með bækur heima hjá sér? Kemur löggan ef ég sulla graut á vinnubókina mína? Eða þarf það að vera óvenjufalleg bók til að teljast lögbrot? Má sulla graut á ljótar vinnubækur á opinberum vettvangi?
Eru bókabrennur ólöglegar? Má ég setja gömlu vinnubækurnar á áramótabrennu? En aðrar bækur? Ljótar bækur? Hvað með 3ja árgang af Mannlífi? Kemur löggan ef ég kveiki í klámblaði opinberlega? Eða þarf það að vera falleg bók til að teljast glæpur?
Ég má ekki búa til grautarlistaverk úr blómabók, gott og vel, fínt að hafa það á hreinu. En má ég yrkja kvæði um Bjart í Sumarhúsum? Má ég skrifa skopstælingu á þekktu verki? Af hverju eru Spaugstofumenn ekki bak við lás og slá? Má snúa út úr verkum annarra ef útkoman er fyndin en ekki ef hún er subbuleg? Má ég myndskreyta kvæði eftir Einar Ben? Má ég skreyta það með ljótum myndum? Mega myndirnar vera úr graut? Mega leikstjórar staðfæra leikverk og setja gamla atburði í nýtt samhengi? Brýtur maður sæmdarrétt stjórnmálamanns með því að teikna af honum skopmynd og afhjúpa tvískinnung eða heimsku með beinni tilvitnun í bók eða grein eftir hann?
Undarlegar eru kröfur dagsins. Pólitískur húmor skal vera smekklegur takk og listamenn sem byggja á list annarra eða setja hana í nýtt samhengi, skulu ekki dirfast að draga í efa viðteknar hugmyndir um fegurð. Blóm SKULU teljast fögur. Grautarklessur SKULU teljast ljótar og ósmekklegar.
Er virkilega hægt að banna tilraunir til að kollvarpa rótgrónum hugmyndum? Er hægt að banna vonda list?
———————————-
„Listamaðurinn“ er greinilega bjáni – þarna hefði hann getað gert létt grín að þessu, en hann missir síg út í röfl um níðingsverk
Posted by: Guðmundur Ólafsson hagfræðingur | 24.04.2011 | 10:41:14
———————————-
Ætli þessi viðbrögð beri nú ekki frekar vott um að hann sé pínulítið viðkvæmur fyrir verkum sínum en að hann sé bjáni. Það er ósköp normalt að taka það nærri sér ef einhver skemmir það sem maður hefur lagt sál sína í. Hvort sú skiljanlega viðkvæmni á rétt á að setja tilraunum og tjáningu skorður, það er svo allt annað mál.
Posted by: Eva | 24.04.2011 | 11:02:34
———————————-
Ég er viss um að þú mundir gera grín að þeim sem færi svona með bók eftir þig. Spaugið er besta vopnið í svona málum. Hann missti af því vegna hrifningar af sjálfum sér.
Posted by: Guðmundur Ólafsson hagfræðingur | 24.04.2011 | 17:50:19