I feel we should take our relationship to the next level.
Eitthvað í þessa veruna heyrist stundum í amerískum sjónvarpsþáttum en ég hef aldrei áttað mig almennilega á því hvað þetta merkir. Íslendingar hafa ekki tileinkað sér stefnumótahefð í líkingu við þá sem tíðkast vestanhafs og líklega er þessi levelahugmynd eitthvað sem helst í hendur við hana. Ég er að vísu ekkert viss um að mín sambönd séu normið en ef ég tala af eigin reynslu og því sem ég sé í kringum mig, þá eru í mesta lagi þrjú skýr og skilgreind ‘level’ í hverju sambandi og oftar bara tvö. Þegar ég sef hjá einhverjum er hann annaðhvort bólfélagi eða kærasti og ég geri mjög skýran greinarmun á þessu tvennu.
Bólfélagi getur verið indæll og skemmtilegur í smáskömmtum en er ekki efni í langtímafélaga. Bólfélaga hitti ég í allra mesta lagi vikulega, ég gisti ekki hjá honum og býð honum ekki heim til mín. Ég gef honum ekki jólagjöf og kynni hann ekki fyrir fjölskyldu minni og vinum. Ég borða hugsanlega með honum hamborgara í hádeginu en leyfi honum ekki að borga fyrir mig (yfirleitt borga ég fyrir hann, bara til að undirstrika það hver stjórnar :-þ ) og ég elda ekki heima hjá honum, bið hann ekki að gera við bilaða gluggafestingu eða geri neitt annað sem minnir á heimilislíf.
Ef ég hinsvegar á kærasta þá merkir það klárlega að ég vil gjarnan að hann gegni stóru hlutverki í lífi mínu. Ég eyði stórum hluta frítíma míns með honum strax á fyrstu vikunum, tek rómantískum tilburðum með þökkum og kynni hann sem kærasta. Ég hef aldrei fundið fyrir neinum sérstökum stökkum heldur hefur sambandið þróast eins og hver önnur vinátta. Smámsaman erum við farin að tala um einkamál sem maður myndi ekki ræða við bólfélaga og taka afdrifaríkar ákvarðanir í samráði. Maður á engin leyndarmál sem hinn má ekki vita um og þetta endar svo annaðhvort í sambúð eða sambandið slítnar, ég sé allavega engin skýr millistig á milli kærasta og eiginmanns.
Ég hef upplifað undarleg milliþrep milli bólfélaga og kærasta. Það gerist þegar annar aðilinn telur sig vera í ástarsambandi (af því að hinn hegðaði sér eins og þau væru ástfangin) en hinn vill engar skuldbindingar en láðist bara að segja frá því. Og já, ég þekki dæmi þess að bólfélagafyrirkomulag hafi þróast út í kærustusamband en það er ekki alltaf slíkt sem um er að ræða þegar spurningin um næsta ‘level’ kemur upp í amerískum sjónvarpsþáttum; oftast eru það klárlega alvöru sambönd. Samt virðist þetta ‘næsta level’ dæmi ekki vera beinlínis bónorð heldur samkomulag um einhverskonar millistig.
Er mitt kærustusamband á einhverjum sérstökum level? Og hvaða level þá? Level 1 eða 2? Hversu mörg level eru í einu ástarsambandi og hvað einkennir hvert þeirra? Mér finnst mitt samband ekki vera á neitt öðru stigi núna en það var fyrir 4 mánuðum. Það eina sem hefur breyst er að við þekkjumst pínulítið betur. Ekki einu sinni neitt mikið betur. Setjum sem svo að sú flippaða aðstæða kæmi upp að Walter vildi fara með sambandið yfir á ‘næsta level’ (mér skilst að það sé undantekningarlaust konan sem óskar eftir því, þetta virðist eitthvað tengt tíðahringnum) hvern fjandann myndi það merkja? Ætti ég þá að gera eitthvað sérstakt sem ég geri ekki núna? Strauja skyrturnar hans eða eitthvað svoleiðis? Væri hann með þessu að reyna að segja mér að hann vildi fá aðgang að tölvupóstinum mínum eða borga rafmagnsreikninginn minn? Eða að ég mætti breyta skipulaginu í eldhússskápunum hans? Myndi þetta merkja að hann færi að láta mig um að sækja börnin hans í skólann eða að ég ætti að setja háreyðingarkrem á innkaupalistann þegar hann fer út í búð?
Í alvöru talað; hvað í fjandanum þýðir það eiginlega þegar kaninn talar um að fara með sambandið á næsta level?
—————————
búa saman? er það næsta stig?
Posted by: baun | 11.04.2008 | 9:30:42
— — —
Illa dulbúið bónorð? Ef það er rétt þá stenst sú tilgáta að það séu ekki nema tvö greinileg stig í hverju sambandi. Nema fólk geri sérstakan greinarmun á sambúð og hjónabandi.
Posted by: Eva | 11.04.2008 | 9:43:27
— — —
Erda eins og í Pacman ?
Posted by: Guðjón Viðar | 11.04.2008 | 14:07:56
— — —
Ég hef alltaf haldið að þetta næsta level væri einmitt skyrtustraujun. Við erum einmitt föst á level 1, hjónin með börnin tvö, því maðurinn minn gengur ekki í straujuðum skyrtum.
Posted by: Kristín | 12.04.2008 | 6:31:57
— — —
Ég hef ekki hugmynd. Kannski hafa handritshöfundarnir ekki heldur hugmynd?
Posted by: Unnur María | 12.04.2008 | 12:07:16