Rökrétta leiðin til að uppræta einelti

Einelti og annað ofbeldi meðal skólabarna er vandamál sem flestir eru sammála um að eigi að stöðva en það reynist oft æði erfitt. En baráttan er ekki vonlaus. Það er hægt að uppræta einelti….

Einelti í grunnskólum hefur verið vandamál frá því að fyrstu grunnskólar voru stofnaðir og hefur sjálfsagt alltaf fylgt mannkyninu í einhverri mynd. Einelti og annað ofbeldi meðal skólabarna er vandamál sem flestir eru sammála um að eigi að stöðva en það reynist oft æði erfitt. Ofbeldismenn í hópi nemenda virðast alltaf finna nýjar leiðir til að níðast á fórnarlömbum sínum og stundum er jafnvel erfitt að finna forsprakkana sem oft beita áhrifavaldi sínu og vinsældum, jafnvel ægivaldi til að fá aðra nemendur til að hrekkja þá sem minnst mega sín. Jafnvel þegar til þeirra næst er langt frá því að björninn sé unninn því iðulega halda þessir sömu óþekktarormar áfram að fremja ofbeldisverk sín þótt þeir hafi fengið yfirhalningu, þeir kunna að skipta um aðferðir og jafnvel fórnarlömb en ofbeldinu linnir ekki.

En baráttan er ekki vonlaus. Það er hægt að uppræta einelti. Lausin er í rauninni einföld; við förum bara inn í skólana og grýtum öll börnin og starfsfólkið. Með því móti er líklegt að einhver hrekkjusvínanna fái makleg málagjöld, iðrist illgjörða sinna og snúi til betri vegar. Þannig getum við frelsað öll hin börnin frá einelti og ofbeldi og komið á friðsamlegum samskiptum innan skólanna. Þetta er ekki bara rökrétt og handhæg lausn, heldur sennilega eina leiðin sem er mögulegt að beita. Ég skil bara ekkert í því að þetta hafi enn ekki verið gert.

 

One thought on “Rökrétta leiðin til að uppræta einelti

 1. Binni @ 20/03 12.36

  Ég bendi á yfirlýsingu biskups vegna innrásarinnar í Írak:

  Við hörmum að enn skuli gripið til vígtólanna og þau látin skera úr deilumálum. Það er mikill ósigur fyrir mannkynið og vonir okkar um nýja heimsskipan þar sem siðgæðisleg megingildi væru í heiðri höfð: virðing fyrir alþjóðalögum, réttlæti og frelsi, mannúð og mildi.

  —————————————————————-

  Þorkell @ 20/03 12.59

  Eva Skrifar: “Þannig getum við frelsað öll hin börnin frá einelti og ofbeldi”. Það er varla hægt að frelsa “öll hin börnin frá ofbeldi” með því að grýta “öll börnin”…

  —————————————————————-

  Eva @ 21/03 01.14

  Í alvöru Keli??? Er ekki hægt að bjarga börnum frá ofbeldi með því að grýta þau? Segðu Bandaríkjastjórn það. Húsbændur þar á bæ ætla að frelsa Íraka frá ofbeldi Saddams með því að leggja land þeirra í rúst, limlesta þá og drepa. -Æ, nei afsakaðu, hvaða vitleysa er þetta í mér, þeir ætla náttúrulega ekki að drepa óbreytta borgara, ef þeir deyja þá er það bara óheppileg tilviljun.

  —————————————————————-

  Þorkell @ 21/03 11.13

  Er herra runni og hans félagar ekki með svo góðar sprengjur að þeir geta skotið niður flugur án þess að sprengja annað í kring? Svo er mér a.m.k. sagt!!!

  —————————————————————-

  Þorkell @ 21/03 12.25

  Annars gengur þessi samlíkin ekki upp hjá þér Eva mín. Þótt ég sé ekki sáttur við þetta stríð og þótt ég efist um að Saddam sé ógn við önnur ríki þá lít ég á að hann sé ógn við þjóð sína. Mér finnst hann ekki líkjast barni í skóla sem leggur aðra í einelti, heldur er hann fremur eins og skólastjóri sem heldur skólanum í gíslingu (hann leyfir ekki einu sinni frjálsar kosningar).

  Í slíkum tilvikum finnst mér oft réttlætanlegt að fara í stríð, en það hefði átt að gera það fyrir löngu. T.d. þegar hann stráfelldi Kúrdana eftir persaflóastríðið. Hins vegar finnst mér að það hefði ekki átt að ráðast inn án samþykkis Sameinuðu þjóðanna og það er sorglegt að vita til þess að ástæðan fyrir stríði er olía, ekki mannúð, þótt stríðsherrar haldi öðru fram núna. Reyndar breytast ástæðurnar sem þeir gefa upp dag frá degi.

  —————————————————————-

  Eva @ 21/03 15.05

  Það er ekki bara hryllingurinn sem fylgir stríði heldur líka skinhelgin sem fer fyrir brjóstið á mér. Bandaríkjamenn hafa hórast með Hussain í 12 ár og svo þegar þeim hentar að fara í stríð sem í raun snýst um olíu, halda þeir því fram að þeir séu að frelsa írönsku þjóðina frá kúgun og mannréttindabrotum. Forsetinn heldur því fram að þetta ólögmæta stríð sem hefst á helgidegi muslima, sé háð með fullri virðingu fyrir menningu og trúarbrögðum araba! Áhugi Bandaríkjastjórnar á mannréttindum endurspeglast sannarlega í framkomu þeirra við Kúrda og athyglisvert að samúð stórveldis með lítilmagnanum skuli alltaf blossa svona rækilega upp þegar olía er annars vegar. Ég ber enga virðingu fyrir Saddam Hussain en ég held að kannski eigi einhver sprengja óvart eftir að lenda á öðrum en honum. Ég samþykki ekki að til að frelsa fólk frá undirokun, sé réttlætanlegt að grýta saklausa eða leggja líf þeirra í rúst. Má þá einu gilda hvort kúgaranum er líkt við hrekkjusvín eða skólastjóra.

  —————————————————————-

  Carlos @ 08/04 17.50

  Bandaríkjamenn hafa hórast með Hussain í 12 ár og svo þegar þeim hentar að fara í stríð sem í raun snýst um olíu, halda þeir því fram að þeir séu að frelsa írönsku þjóðina frá kúgun og mannréttindabrotum.

  Þeir áttu að bíða lengur, önnur 12 ár ef með hefði þurft …

Lokað er á athugasemdir.