Ljóðasíminn

Ég hef velt talsvert fyrir mér hugmyndinni um gagnvirkar bókmenntir, þ.e.a.s. bókmenntir sem gefa lesandanum færi á að hafa áhrif á útkomuna. Einn möguleikinn væri ljóðasími sem byði upp á valkosti um nokkrar ólíkar útgáfur af sama ljóðinu. Maður hringir í tiltekið númer og nær sambandi við símsvara:

“Þú hefur náð sambandi við ljóðasímann. Veldu 1 fyrir ljóð dagsins, 2 fyrir ljóð vikunnar, 3 fyrir eldri ljóð.”

Setjum sem svo að við veljum ljóð dagsins. Þá kæmu næstu skilaboð:

“Ljóð dagsins heitir………. Veldu 1 fyrir hefðbundna útgáfu ljóðsins. Veldu 2 fyrir moderniskt afbrigði ljóðsins. Veldu 3. fyrir kitsch útgáfu.” (Auðvitað væri hægt að hafa fleiri eða færri valkosti eftir því sem við á)

Gerum nú ráð fyrir að yrkisefnið í ljóði dagsins sé sígilt; “ást í meinum”.

Ef við veljum 1 fyrir hefðbundið ljóð yrði útkoman á þessa leið:

Hæglát læðist hugsun mín
hljóð sem kattarþófi
og engu leyna augu þín;
orð eru best í hófi.

Okkar litla leyndarmál
líkist spenntum boga.
Undir niðri eins og bál
ástríðurnar loga.

(Stundum yrði hægt að velja um nokkra kosti innan hvers flokks. Hér mætti t.d. velja 1 fyrir ferskeytlur, 2 fyrir þríhendur, 3 fyrir sonnettu o.s.frv. en ég nenni nú ekki að snúa þessu í fleiri bragarhætti að sinni.)

Ef maður aftur tæki valkost nr. 2, modern afbrigðið, byði síminn tvo valkosti. 1 fyrir expressioniska afbrigðið og 2. fyrir það surrealiska (í mörgum tilvikum væri hægt að bjóða fleiri kosti)
Sá sem veldi expressionismann fengi ljóðið á þessu formi:

Hugur minn mjúkþófa köttur
þræðir orðleysið í augum þér
og þó.

“Þögnin er eins og þaninn strengur”.
Leikur vængjað barns
að örvum eldbogans.

Þeir sem velja annan kostinn, fá súrrealiskt afbrigði af ljóðinu:

Mjásupjása mjúkum þófum aftur
smogin undir augnlokin
sveiflar rófu, ó guð þinn náðar kraftur
veri vörn
heilakvörn.

Undarlegt hve árans, fjárans kvikindið fer hljótt
eins og ljósið langt og mjótt
hún smýgur,
inn í skeljarinnvolsið
og mígur
utan í heiladingulinn
arma, harma vingulinn
minn, minn,
sama, tama, valda, kvalda staðinn til að merkja
svo mig verki.

Hér má lesandinn taka pásu til að pissa eða sækja sér kaffibolla.

Og bogalogaægiflogaaugun toga lengi
í sprengiþanda tengistrengi
drengs sem aldrei fengist til að hengja
sínar eigin skæðu,
mæðulæðuslæður
út á þvottasnúru.

Þriðji flokkurinn, kitsch gæti skipst í rímað kitsch og órímað. Sá sem velur 1 fyrir rímað kitschfær að heyra eftirfarandi ljóð:

Hugur minn til þín læðist
ætíð á kvöldin er ég afklæðist.
Þú þorir ekkert að segja
kýst því allan daginn bara að þegja.

Ást okkar er eins og ör á boga
sem veldur gjarnan loga
og stundum veiki-floga
er augu þín í mig toga.

Valkostur nr. 2 yrði órímað kitsch sem hljóðar svo:

Ást mín líkist ketti
sem hljóðlaust um húsið læðist
og hið sama heita ástarbál
í augum þínum ég vel sé.

Ást okkar logar
og spennan á milli oss
þöndum boga líkust er.

Mig kvelur sú sorg
að mega þig eigi unna.
Til dauðans þig ég þrái heitt
minn ástkæri vinur
og bið því dauðann skjótt mig að sækja
og stansa þessar sálarangistir
sem veldur ást mín heit.

Ég sé fyrir mér að ljóðasími af þessu tagi gæti orðið skemmtileg tilraun. Við erum jú í rauninni alltaf að yrkja sömu ljóð með ýmsum tilbrigðum, ekki satt?