Reynsla mín af súludansi

Það hefur líklega verið 1997 eða hugsanlega ári fyrr eða seinna.

Ég bjó í þorpi austur á landi (þar sem ég kynntist Spúnkhildi) og var skipuð í þorrablótsnefnd. Birtunni í mér var það þvert um geð enda er hún lítt gefin fyrir mannamót, ennþá minna fyrir nefndastörf með tilheyrandi fundasetum og allra minnst fyrir að láta skipa sér eitt eða neitt. Ég gerði þó þessa þegnskyldu mína og skráði mig í skreytingahópinn af því að ég taldi að það myndi útheimta lágmarks samskipti að setja kerti í stjaka og brjóta servíettur. Á svið ætlaði ég ekki, svo mikið var víst. Ekki af því að ég sé haldin neinum sviðsskrekk, ég ætlaði mér bara ekki að stofna freðýsuorðspori mínu í hættu með þátttöku í dreifbýliskúltúr. Eitt kvöldið þegar við vorum að vinna kallaði einhver á mig og vildi fá álit mitt á orðalagi í annálnum. Það æxlaðist einhvernveginn þannig að ég endurskrifaði annálinn.

Eitt af því sem þótti ástæða til að nefna í annálnum var koma súludansmeyjar austur fyrr um veturinn. Palli taxi hafði átt þar einhvern hlut að máli, ég man ekki hvort hann hafði útvegað dömunni gististað eða tekið að sér að útvega súlu handa henni að staka sér upp við. Koma súludömunnar hafði allavega orðið Einari á Urriðavatni innblástur í skemmtilega vísu þar sem Palli var nefndur. Ég sá strax að vísan féll einkar vel að tónlist þeirri sem jafnan er leikin á slíkum dreifbýlissamkomum, nánar tiltekið að laginu; Hann var sjómaður, dáðadrengur.

Mér fannst tilvalið að gera tónlistar- og dansatriði úr þessu og orti því tvær vísur framan við og bauð mig fram í hlutverk dræsunnar, alveg búin að gleyma þeim ásetningi mínum að forðast þátttöku í íslenskri fyndni og dansiballamenningu. Ég taldi reyndar víst að sveitamenn kynnu lítt að meta híalín svo ég valdi klæðnað sem minnir meira á íslensku sauðkindina sem bændum er svo kær; lopatreyju, föðurland og góða ullarsokka. Ytri spjarirnar tíndi ég af mér og kastaði með tilþrifum út í sal um leið og ég dansaði vals við harmónikkuleik og söng nokkurra sveitunga minna. Ég er að vísu svo ótaktviss að sennilega hefði mín útgáfa af valsi ekki fallið í kramið hjá danskennara en ég treysti á að áhorfendur beindu athyglinni fremur að lostafullum svipbrigðum mínum og leikrænni tjáningu.

Sigurður Aðalsteinsson tók myndirnar

 

Það er langt um liðið og ég er ekki viss um að ég muni vísurnar rétt en þær voru í þessa áttina:

Hún sokkunum af sér svipti
og sviplega pilsum lyfti.
Og bjóðandi og blaut
hún glyrnunum gaut
á hann Palla sem öxlunum yppti.

Hún dró af sér bol og brækur
og brátt varð sá litli sprækur.
Þegar sté hún við staur
villtan vals fyrir aur
því hjá Palla er kvennafar kækur.

Og svo síðasta vísan sem er eftir Einar:

Því nekt veldur næstum báli
í náungum eins og Páli,
þegar mjúkvaxin mær
leggur líf sitt og lær
upp að röri úr ryðfríu stáli.