Þú ert víst miðaldra!

9b4d1260cf5982a0b0174167b45ed1df

Þegar ég var lítil voru ömmur með svuntur. Þær steiktu kleinur og prjónuðu vettlinga og sungu Guttavísur fyrir barnabörnin.  Í dag eru ömmur hinsvegar skvísur. Allar í ræktinni eða útlöndum, og ekki slæðu bunda yfir rúllurnar í hárinu heldur með grænar strípur og tattútveraðan upphandlegg. Ef þær verða þá á annað borð ömmur áður en þær eru komnar með elliglöp því nú er fólk hætt að eignast börn fyrr en rétt undir tíðahvörf. Heimur versnandi fer og mikil er sú mæða og allt það.

En það er alveg sama hversu vel þér tekst að skvísa af þér aldurinn og þótt þú eigir smábörn í stað barnabarna, þú ert samt miðaldra ef eftirtalin atriði eiga við þig:

simigrar

Þú kannt á skífusíma og manst eftir fimm stafa símanúmerum. Á bernskuheimili þínu var sími af þessari gerð, annaðhvort grár eða fölgulur.

Þú vaknar við að einhver ýtir við þér og segir „veistu hvað klukkan er?“ og þú svarar í svefnrofunum „nei, ég veit það ekki, hringdu bara í núll fjóra.“

Þú áttir sunnudagaföt þegar þú varst barn.

Þú skilur hvað orðið „strætógrænn“ merkir.

Þú sérð palmolive sápu og þótt þú vitir betur segir rödd lengst inni í hausnum á þér „palmólæf“ með áherslu á fyrsta atkvæði. Þér finnst tilgerðarlegt að bera bugles fram öðruvísi en „böggleis“.

Þú manst eftir sígarettuauglýsingum í kjörbúðum og grófu, daufgulu hansatjöldunum í mjólkurbúðinni.

Þú manst eftir mjólkurhyrnum og veist hversvegna þér var ekki leyft að hella úr þeim.

mbl131264

Fyrsta myndskreytta verklýsingin sem þú last var fjögurra ramma vinnuteikning á 2ja lítra mjólkurfernu með yfirskriftinni „Þannig á að opna“.

Á bernskuheimili þínu, afa þíns og ömmu eða öðru heimili sem þú dvaldist á var að minnsta kosti eitt af eftirtöldu og sennilega allt: Stórrósótt veggfóður, eitthvert afbrigði af myndinni af drengnum með tárið, jólaplattar Bing & Grøndahl, hansahillur og hringlaga eldhússkollar með þremur fótum.

plattar

Þú manst eftir því þegar þú smakkaðir hnetusmjör í fyrsta sinn.

Þú gerir greinarmun á „eftirmat“ og „desert“. Þú minnist þess að hafa trúað því að ekki þyrfti annað en dálítinn kanelsykur til þess að orðin „hæft til manneldis“ gætu átt við makkarónur mauksoðnar í mjólk og þú veist hvernig heitur rommbúðingur lítur út þegar búið er að hella út á hann berjasaft og hræra dálítið. (Ég lofaði því aldrei að lesendur kæmust í gegnum þennan pistil án þess að gubba.)

Þú hefur drukkið Mírinda og Spur og manst ekki betur en að það hafi verið hinir bestu drykkir þótt þig gruni reyndar að smekkur þinn kunni að hafa breyst.

sanitas

Þú tókst plastbrúsa með „djús“ eða mjólk með þér í skólann og þú hefur drukkið kakó úr flösku klæddri ullarsokk.

Þú getur útskýrt setninguna „grauturinn er sangur“, hvort sem þú hefur borðað sangan graut eður ei og hefur skrifað  málsgreinar á borð við; „Þráinn Ingason hlægi ef hann sæi Kristin hneigja sig fyrir meyjunum við heyskapinn“ án þess að fá hláturskast eða spyrja hver sé að reyna að hafa þig að fífli og hversvegna.

Þú veist hvað kemur á eftir „Sísí segir s-s-s…“

Þér finnst Tinnabækurnar vel geta átt heima á lista yfir merkustu rit 20. aldarinnar.

Þér finnst Andrés önd betri á dönsku en íslensku.

Þú heyrir orðin „ríkisútvarpið sjónvarp“ og fyrstu myndirnar sem koma upp í hugann eru Magnús Bjarnfreðsson um fertugt og svarthvíta stillimyndin.

stillimynd1

Þú heyrir einhverja eldgamla vemmu á borð við „Jón er kominn heim“ eða „Á skíðum skemmti ég mér“ í útvarpinu og áttar þig á því að þú kannt textann utan að þótt þú hafir aldrei þolað lagið.