Það var í sjálfu sér þægilegt en samt afskaplega lítið spennandi að alast upp á tímum kalda stríðsins. Stöðug ógn yfirvofandi en samt ekkert stríð eða önnur áföll til að mótmæla og mynda samstöðu um, enginn sameiginlegur óvinur, í rauninni engin pólitísk afstaða sem ungmenni gátu fylkt sér um og skapað “cult” í kringum. Pönkið var loftbóla, sem náði aðeins til fjöldans í formi hundaóla og hanakamba, afar fáir höfðu minnsta áhuga á anarkisma. Eina póltíska vakningin sem ég man eftir var (að mig minnir) 1983, þegar við þrömmuðum Laugaveginn og kröfðumst framtíðar. Það var máttlaus tilraun og gleymdist fljótt.
Þrátt fyrir þennan doða orti ég þindarlaust um illsku mannanna (sérstaklega stjórnmálamanna), hverfulleik gæfunnar, nálægð heimsendis og tilgangsleysi lífsins. Hefði sennilega verið reiðubúin til að raka af mér allt hárið (og trúið mér það hefði verið mikil fórn í mínum huga) fyrir að hafa ort “Vei vei, yfir hinni föllnu borg”. Opinberun Jóhannesar var mér stöðug uppspretta pólitískra ljóða, sem flæddu í tugatali fram úr blekpennanum mínum, á Mokka, þar sem ég eyddi eftirmiðdeginum, mænandi hundslegum aðdáunaraugum á Illuga Jökulsson, sem aldrei varð það á að líta í áttina til mín og hefur sennilega ekki enn í dag, minnsta grun um hrifningu mína. Þetta voru afskaplega innihaldsrík og djúpsæ ljóð og þó umfram allt löng.
Ég var á 17. ári þegar ég taldi tímabært að lofa alheiminum að njóta hinna stórbrotnu ritverka minna og lagði leið mína til Kristjáns Guðmundssonar listmálara og fyrrum nágranna míns í því skini að fá það mat staðfest. Ég bar talsverða virðingu fyrir Kristjáni sem hafði rekið fordóma mína gagnvart nútímalist öfuga niður í kokið á mér um 13 ára aldurinn, en aukinheldur var hann eina listamannsnefnan sem ég þekkti nógu vel til að þora að banka upp á hjá með hið mikla og glæsilega ljóðasafn mitt. Fjölskyldan sat við matborðið þegar mig bar að garði. Kristján tók mér vel og bauð mér grjónagraut og súrt slátur sem ég afþakkaði á þeirri upplognu forsendu að ég væri nýbúin að borða. Kristján kímdi við og ég fékk svona á tilfinninguna að hann væri fullkomlega meðvitaður um óbeit mína á súru slátri og áliti slíka matvendni merki um fullkominn smáborgarahátt. Að vísu hafði ég aðeins óljósa hugmynd um hvað smáborgaraháttur merkti, en það var allavega ekki heppilegt fyrir listamann að hljóta þann stimpil. Hvað um það, Kristján át sitt súra slátur og kom svo loksins inn í stofu til mín og færði mér kaffibolla sem ég kunni öllu betur að meta.
Kristján var ekkert uppnuminn yfir þeim heiðri að fá að gagnrýna ljóðin mín fyrstur manna. Hann lagði áherslu á að hann væri myndlistarmaður og hefði ekki mikið vit á skáldskap. Ég var aftur á móti komin til að fá álit hans en ekki endilega “vit” og heimtaði að hann læsi herlegheitin og gæfi mér heiðarlegt svar. Hvers vegna í ósköpunum ég þóttist vilja heiðarlegt svar er mér hulin ráðgáta, það var alls ekki það sem ég vildi, ég vildi hrós og mikið af því. En málarinn tók mig á orðinu og eftir á að hyggja hefur það nú sennilega gagnast mér meira en tilefnislausir gullhamrar.
Kristján renndi í snarheitum gegnum hið mikla ritsafn án þess að reka upp svo mikið sem eitt fagnaðaróp. Mér til mikillar undrunar sagði hann ekkert í þá veruna að mér bæri siðferðileg skylda til að fá þessi stórvirki útgefin, heldur tók hann út 12 ljóð (ekki neitt rosalega löng) og sagði „þetta geturðu kannski notað eitthvað, ekki henda þessum“ og tvö til viðbótar sem hann sagði að væru „alveg ágæt“. Ekki þvarr undrun mín, þegar ég fór að skoða hin útvöldu ljóð og komst að raun um að meðal þeirra var ekki eitt einasta af þeim nístandi heimsósóma og ádeiluljóðum sem andinn hafði blásið mér í brjóst sumarið áður. Að undanskildu einu örstuttu ástarljóði sem ég hafði skrifað með Illuga Jökulsson í huga (en tileinkað þáverandi kærasta í hræsnisfullri viðleitni til að ljúga því að sjálfri mér að ég væri bæði heilsteyptur karakter og góð stelpa) og tveimur nýlegum náttúrustemmingarljóðum, voru öll ljóðin sem Kristján taldi þess virði að geyma þau gömul. Sum meira að segja eldgömul á mælikvarða þess sem er næstum 17 ára.
Andartak trúði ég varla mínum eigin augum. En ég var fljót að sjá samhengið. Ljóðin sem Kristján valdi voru að vísu fremur snauð af boðskap og merkingu en þau voru myndræn. Hann, myndlistarmaðurinn hafði auðvitað sáralítið vit á skáldskap og valdi eðlilega þau ljóð sem voru hvað líkust hans sérsviði. Ég benti honum á þetta, vitanlega eins kurteisislega og ég hafði kunnáttu til. Málarinn kinkaði kolli. „Það er rétt hjá þér, það eru þessi ljóð sem sýna að þú getur dregið upp góðar myndir“ sagði hann, horfði svo hljóður í augu mín litla stund og bætti við; „en þú verður aldrei skáld, ef þú getur ekki étið súrt slátur.“
„Ég skil“ sagði ég og skildi ekki rassgat. Það var ekki fyrr en tveimur árum síðar, þegar ég loksins fleygði megninu af ljóðasafninu í flutningum, sem rann skyndilega upp fyrir mér að hann hafði alltso EKKI átt við að sannir listamenn þurfi alltaf að gera ráð fyrir blankheitum.