Ljóð handa hvunndagshetjum

… og skuggar hnipra sig saman
þegar morgunskíman
vomir ógnandi yfir

matarleifum gærdagsins
á eldhússborðinu
dagatali fyrra árs
sem enn hangir á veggnum
og bunka af ógreiddum reikningum

barn í götóttum sokk
togar sængina niður á gólf
og skjannahvítur morgunn
heltekur
vansvefta mjaðmir

að 5 börnum fæddum
hreyfir líkaminn mótmælum;
fyrir undna tusku
eymsli í öxlum
og stingur í mjóbak og mjöðm
við hvert moppudrag yfir gólfið

bjúgur dagsins
fyrir heimilisreksti
brjósklos næturinnar
fyrir uppsöfnuðum vanda
dugar ekki til

og bankinn
kinkar kolli samúðarfullur
og skrifar læknisvottorð;
sólarrhing
með 3 vinnustundum til viðbótar

og skuggarnir anda léttar
og breiða úr sér
yfir rúminu.

Share to Facebook