Áætlun 1

Enga höll hef ég ennþá reist mér fyrir austan sól,
aðeins lítið hús fyrir austan fjall
og garðurinn í óttalegri órækt.

Enga sigurför hef ég farið á hvítum hesti á enda veraldar,
tel það nokkuð gott að aka út í Kaupfélag,
hef ekki einu sinni rænu á að þrífa bílinn.

En dag nokkurn mun ég að standa upp
og axla bakpoka áhættunnar.
Leggja leið mína yfir fjöllin sjö
þangað sem nornir sitja ennþá og spinna mér örlagaþráð.

Og ég mun hrifsa þann þráð úr höndum þeirra
og setja upp minn eigin vef
og slá hann af krafti,
til hallarbygginga og sigurfara,
sjálf.

Þegar ég er búin að koma garðinum í þokkalegt stand
og bóna bílinn.