Þetta verður allt í lagi
sagði ég sannfærandi
og lét sem ég tæki ekki eftir efanum
sem seytlaði niður í hálsmálið
og rann í köldum taum niður bakið.
Þetta bjargast áreiðanlega
sagði ég ákveðin
og þóttist ekki finna hvernig ég kipptist til
þegar kvíðinn skreið upp í buxnaskálmina
og nartaði í hnéð.
Allt fer þetta víst einhvernveginn
tautaði ég
og bauð hættunni heim
á meðan uggurinn gróf sig undir hörundið
og bjóst til vetursetu.
Og þegar allt fór á versta veg
og angistin skaut rótum
á bak við þindina
sá ég ekki ástæðu til að líta í spegilinn.
Allt fór þetta jú einhvernveginn
og ég varð ég ekki einu sinni hissa.