Þegar Gillz sendi mótmælendur heim til fólks – eða ekki

Haustið 2009 tók ég þátt í mótmælum við heimili Rögnu Árnadóttur. Það var vond hugmynd. Ekki af því að það sé ósiðlegt í sjálfu sér heldur af því að eftir á að hyggja var það ekki til þess fallið að hafa nein jákvæð áhrif auk þess sem það veldur saklausum ótta og það er ljótt. Þar fyrir utan skapa mótmæli alltaf ákveðna hættu á múgæsingi og þegar fólk er orðið brjálað er hættulegt að beina reiði sinni að manneskjum. Þarna var þó enginn brjálaður, þetta var fámennur hópur og enginn fór inn á lóðina hjá henni (ég veit ekki hvort það gerðist í eitthvert annað skipti en a.m.k. ekki í þetta sinn.) 

Hugmynd mín með þátttöku í þessum mótmælum var sú að persónugera vandann. Benda á að það var fólk með nöfn og heimilisföng, en ekki eitthvert andlitslaust bákn sem rak Noordin Alazawi, 19 ára pilt sem missti föður sinn í stríðinu í Írak, og aðra menn sem ég veit engin deili á, til Grikklands. Það var nefnilega Ragna sem undirritaði þá ákvörðun með eigin hendi. Hún hélt á pennanum, ekki hið óræða „ráðuneyti“. Hún bar ábyrgð á því að einn af okkar minnstu bræðrum var rekinn úr landi og neitað um að skipta íslensku krónunum sínum í nothæfa mynt. Það var hún, persónulega, sem kom í veg fyrir að Birgitta Jónsdóttir fengi að koma til hans síma.

En þegar ég stóð á gangstéttinni við heimili Rögnu og hrópaði: „Noordin er manneskja“ þá sá Ragna ekki fyrir sér ungmenni að leita skjóls bak við ruslagám í Aþenu. Hún sá bara brjálaðan skríl sem af einhverjum óskiljanlegum ástæðum taldi að HENNI kæmi þetta eitthvað við. Nú, átta árum síðar, hefur Ragna enn ekki áttað sig á því um hvað þetta snerist. Vandamálið sem hún sér er ekki það að hún persónulega rak fjölda manns út í óvissuna og í flestum tilvikum veit enginn hvað varð um það fólk. Vandamálið sem hún sér er það að hún var óttaslegin og niðurlægð og börnin og nágrannarnir urðu fyrir ónæði.

Það er þessvegna sem ég mun ekki framar mótmæla við heimili valdafólks. Það virðst nefnilega sem völd valdi einhverjum undarlegum heilaskaða eða persónuleikatruflun. Að þegar fólk öðlast völd þá trúi það því í fullri einlægni að fulltrúi valdsins sé einhver allt annar karakter. Og kannski á þetta ekkert bara við um valdafólk. Kannski hafa mótmæli bara þessi áhrif á alla. Var kannski eitthvað svipað sem gerðist í kollinum á Agli Einarssyni þegar hann sagðist hafa skrifað mest lesnu bloggfærslu Íslandssögunnar sem Gillzenegger?

Auðvitað ber Egill ábyrgð á skrifum sínum. Þessi alræmda bloggfærsla var fyrir neðan allar hellur og hann er reyndar margbúinn að viðurkenna það. En internetið fyrirgefur ekki og fjölmiðlar kóa með. Nú er Steinunn Valdís, sem árið 2010 kenndi Birgittu Jónsdóttur um mótmæli við heimili hennar, búin að finna hinn raunverulega sökudólg. Gillz!

Einmitt það já. Gillzenegger, sem er svo gersamlega firrtur pólitískri vitund að hann heldur að femínismi sé bara venjulegt nöldur sem stafi af kynferðislegri ófullnægju, er semsagt ábyrgur fyrir mótmælum sem áttu sér stað þremur árum síðar. Og þeir sem voru að mótmæla ætluðu að nauðga Steinunni, væntanlega í boði Gillz! Eða var það Birgitta sem átti þá hugmynd? Eða Geiri Goldfinger? Kannski var þetta samsæri þeirra þriggja.

Í öllu þessu #metoo fári sem hefur tröllriðið umræðunni undanfarið birta fjölmiðlar svo eina ferðina enn þessa 10 ára gömlu bloggfærslu. Ofsóttasti maður Íslandssögunnar er enn og aftur dreginn til ábyrgðar, ekki bara fyrir gömul sóðaskrif, heldur fyrir allt ofbeldi karla gegn konum, og núna fyrir mótmæli líka! Með fullri virðingu fyrir þeim konum sem þarna voru teknar fyrir þá er ástandið kannski ekki eins hræðilegt og ætla mætti ef þetta er það versta sem birst hefur á opinberum vettvangi í heilan áratug. Sama dag birtir ríkisútvarpið svo viðtal við Rögnu Árnadóttur þar sem hún er í hlutverki fórnarlambs vondra mótmælenda. Ekki orð um ábyrgð hennar á örlögum allra þeirra manna sem hún henti á gríska sorphauga eins og hverjum öðrum úrgangi.

Það er greinilega ekki sama hver málstaðurinn er. Valdakona sem eyðileggur líf flóttafólks er fórnarlamb vondra mótmælenda, asni sem móðgar femínista er ábyrgur fyrir mótmælum sem áttu sér stað 3 árum síðar. Þetta rugl verður seint toppað.

Share to Facebook