Þarf þetta ekkert að vinna?

Þegar Þórunn Gréta ákvað að fara sem skiptinemi til Þýskalands, undirbjó hún sig vel. Ekki bara með því að læra þýsku heldur gerði hún líka ráð fyrir tekjumissi og auka útgjöldum. Hún vann mikið og eyddi litlu og þegar hún fór út átti hún peninga til ferðarinnar. Hugsanlega hafa afar og ömmur gaukað að henni nokkrum mörkum en ég veit að það var ekki mulið undir hana og að mamma hennar var ákaflega stolt af því hvað hún sýndi mikinn sjálfsaga. Mér fannst Þórunn Gréta vera dugleg stelpa og reikna með að allir sem þekkja hana taki undir það.

Þegar Maggi frændi ákvað að fara í margra mánaða ferðalag um Suður-Ameríku tók hann svipaðan pól í hæðina. Safnaði fyrir ferðinni, þefaði uppi ódýrustu gistiplássin og hagstæðasta ferðamátann og lét sig hafa það að ganga í sömu sokkunum lengur en hann hafði vanist. Mér fannst Maggi vera sniðugur strákur og það er almennt álit þeirra sem þekkja hann.

Þegar Haukur sonur minn ákvað að taka sér hálfs árs frí frá skóla og vinnu til að taka þátt í aðgerðum umhverfisaktivista og mannréttindasamtaka, var hann þegar búinn að venja sig á lífstíl sem er ekki algengur hér á landi. Auk þess átti hann pening því hann hefur aldrei tileinkað sér neyslumynstur meðalungmennis eða vorkennt sér fyrir að vinna með skólanum. Ég verð að játa að ég skil ekki alltaf gildismat sonar míns. Mér finnst nægjusemi gott mál en ég þyfti að vera mjög svöng til að líta á dósabaunir, kraminn banana og gamla kleinu sem best væri nothæf sem barefli, sem ásættanlega máltíð. Ég skil heldur ekki fólk sem velur sér að hýrast í trjáhýsi á Bretlandseyjum um miðjan janúar þegar það á ágætis rúm heima hjá sér. Einu sinni spurði ég hann hvort honum yrði virkilega ekkert kalt. Svarið var „jújú en hundi verður líka kalt þegar hann eltir spýtu úr í sjó, hann er bara ekkert að væla yfir því. Hann valdi það nefnilega sjálfur.“

Þótt flestir hafi fullan skilning á því að ungmenni sem fara í interrailferðir eða dvelja sem skiptinemar í útlöndum geti ekki líka verið í fullri vinnu rétt á meðan, virðast allt önnur viðhorf ríkja gagnvart þeim sem taka þátt í störfum grasrótahreyfinga. Viðkvæði þeirra sem sárnar að heyra að tilgangur lífsins á jörðinni sé ekki sá að mylja undir gengdarlausa grægði þeirra er á þessa leið „þarf þetta ekkert að vinna?“ Atvinnumótmælandi er skammaryrði, þar sem aftur atvinnufyrirsætan og atvinnuíþróttamaðurinn njóta virðingar. Væntanlega fyrir það mikla gagn sem þau gera heiminum.

Reyndar eru atvinnumótmælendur næsta sjaldgæft fyrirbæri, ef það er þá til. Fólk fær nefnilega greitt fyrir atvinnu en það eru engin stórfyrirtæki eða digrir sjóðir sem greiða því fólki sem oft er vísað til sem atvinnumótmælenda, laun fyrir að halda uppi friðsamlegum (ekki endilega löglegum) mótmælaaðgerðum. Sjóðir samtaka sem vekja athygli á náttúruspjöllum, mannréttindabrotum og annarri óhæfu duga sjaldnast fyrir meiru en kynningarkostnaði og eru aðallega fjármagnaðir af stúdentum og ömmum þeirra. Hugmyndir almennings um auðævi þessara sjóða eru þó á tíðum svo ævintýralegar að þær eru helst sambærilega við þjóðsögur af útilegumönnum og álfum. Um daginn var einn félagi Hauks spurður að því hvort starfsemi aktivista væri ekki fjármögnuð með dópsölu og vændi. Ekki veit ég frá hvaða plánetu sú mannvitsbrekka er upprunnin sem ímyndar sér að mannréttindabaráttan eigi upptök sín í klám- og kynlífsiðnaðinum en það er allavega ekki hægt að segja annað en að viðkomandi hafi hæfileika til að hugsa út fyrir rammann. Vissulega líta sumir aktivistar út eins og hassneytendur en þeir sem hafa auðgast af fíkniefnasölu eru sjaldnast þekktir fyrir ástríðufulla baráttu gegn náttúruspjöllum og ofbeldi. Æ og dópneyslu hvað, meiri hluti þessa fólks er sennilega reglusamara en meðalstúdentinn ef eitthvað er.

Sannleikurinn er sá að aktivistar framfleyta sér á sama hátt og skiptinemar og ferðalangar, með dugnaði, sparnaði og útsjónarsemi. Annar sannleikur er sá að það er ekkert rosalega dýrt að lifa ef maður er tilbúinn til að slíta fötunum sínum í bókstaflegri merkingu, hafna matvendni, sofa í tjöldum og trjáhýsum eða leigja afdrep í híbýlum sem einkennast af vatnsleka, rafmagnsleysi og rottugangi, fara í bað þegar og ef ódýr sundlaug er í nágrenninu, ganga mikið og ferðast lengri vegalengdir á puttanum og með flutningabílum.

Mér finnst þessir krakkar vera bæði duglegir og sniðugir en við lifum í frjálsu landi, er mér sagt, svo jakkafatafastisinn hefur auðvitað fullan rétt til þess að hneykslast á því að til sé fólk sem þarf ekkert að vinna, á meðan hann sjálfur pantar flugfar á Saga Class og hendir í ruslið morgunkorni með áletruninni „best fyrir júní 2007“ og vikubirgðum af kjöti og grænmeti, af því að hann keypti svo miklu meira en hann komst yfir að troða í sig.

Share to Facebook

One thought on “Þarf þetta ekkert að vinna?

Lokað er á athugasemdir.