Of seint að dömpa Sveinbjörgu

Sveinbjörg

Ég skil mæta vel að Hallur Magnússon vilji að Sveinbjörg Birna víki úr oddvitasætinu á framboðslista Framsóknar og flugvallavina en það er bara ekkert í boði.

Frestur til að skila inn framboðslistum er löngu útrunninn og kosningalög heimila ekki að listanum sé breytt eftir að yfirkjörstjórn samþykkir hann. Þeir sem skipa neðri sæti lista geta orðið varamenn í sveitarstjórn eftir kosningar en þótt kunni að virðast rökrétt að það sama gildi um framboðslista þá stenst sú hugmynd ekki bókstaf laganna.

Lögin kveða á um að enginn vafi megi leika á um það hverjir séu í kjöri og að frambjóðandi geti dregið framboð sitt til baka fram til þess dags sem frestur til að skila framboðum rennur út. Þau gera ekki ráð fyrir því að fólk hætti við eftir að listinn hefur verið samþykktur, og heldur ekki að annar maður á lista sé varamaður oddvitans á framboðslista eða að listanum sé breytt á nokkurn annan hátt. Eina undantekningin sem nefnd er í lögunum er andlát frambjóðanda en meira að segja í því tilfelli þarf helmingur meðmælenda listans að krefjast þess að nýr maður verði settur á listann.

Hreiðar Eiríksson, héraðsdómslögmaður og fimmti maður á lista Framsóknar og flugvallavina, hefur lýst því yfir að hann styðji framboðið ekki lengur. Engu að síður getur hann ekki dregið framboð sitt til baka. Hreiðar segir meðal annars í pistli á Facebooksíðu sinni, þar sem hann skýrir afstöðu sína:

Nafn mitt verður áfram á listanum, því ómögulegt er að fjarlægja það eftir að framboðsfrestur rann út. Ég hef hins vegar óskað eftir því að myndir af mér verði fjarlægðar af kosningaskrifstofum framboðsins.

Lögin heimila þannig Sveinbjörgu Birnu ekki að draga sig út núna jafnvel þótt hún vildi það sjálf. Eina von Halls Magnússonar til að losna við hana héðan af er sú að kæra úrskurð yfirkjörstjórnar til sveitarstjórnar en það er svo undir geðþótta sveitarstjórnar komið hvort hún tekur við kæru þegar svo stutt er til kosninga.  Ekkert framboð hefur ennþá kært úrskurð yfirkjörstjórnar svo líklega sitja Framsóknarmenn uppi með Sveinbjörgu. Og það er frekar súrt fyrir Framsóknarflokkinn því þar sem framboð Sveinbjargar Birnu er ólöglegt, verða kosningarnar vafalaust kærðar ef svo ólíklega fer að Framsókn komi inn manni.

Share to Facebook