Mótmælandi bara til að vera á móti?

Eiríkur Harðarson skrifar tjásu við færslu sem ég birti í gær. Athugasemdin er svohljóðandi

Samkvæmt höfundarboxlýsingu þinni, kemur fátt annað upp í hugann en að þú hreinlega sért mótmælandi til að geta verið á MÓTI. þeim mun meira sem ég kynni mér málin, þá sækir æ fastar á huga minn að fólk“ekki allir“ telji það vera svo COOL.

Eiríkur er ekki sá fyrsti sem viðrar þetta viðhorf til svokallaðra mótmælenda, og finnst mér við hæfi að gefa greinargott svar.

Eiríkur, maður gerist ekki mótmælandi til þess að vera á móti, heldur er maður mótmælandi vegna þess að maður er ósáttur við eitthvað og vill andmæla því. Á sama hátt ertu faðir vegna þess að þú átt barn en eignast ekki barn til þess að geta orðið faðir.

Mig grunar að þú sért að velta því fyrir þér hversvegna svo margir sem rísa gegn einu máli, t.d. stóriðju, virðast finna hjá sér hvöt til að mótmæla öllum fjandanum öðrum. Sú spurning á vissulega rétt á sér og ég vil gjarnan svara henni. Það eru einkum þrjár ástæður fyrir því að þeir sem mótmæla ákveðnu máli virðast sýnilegir allsstaðar þar sem mótmæli fara fram.

1) Valdníðsla er keðjuverkandi og þ.a.l. verður andspyrnan það líka. Mjög mörg hagsmunamál tengjast innbyrðis. Það er t.d. ekkert vit í því að berjast gegn mannréttindabrotum en samþykkja stóriðju. Það er heldur ekki rökrétt að mótmæla stóriðju á forsendum náttúruverndar en samþykkja botnvörpuveiðar. Þegar maður einu sinni hefur tekið einarða afstöðu gegn einhverjum ósóma, rekur maður sig á hvert ojið á fætur öðru og eftir því sem maður kynnir sér málin betur því sakbitnari verður maður yfir því að láta óréttlætið viðgangast.

2) Yfirleitt eru það stjórnvöld eða mjög fjársterk og voldug fyrirtæki sem sem við er að etja. Þessir aðilar hafa greiðan aðgang að fjármagni og fjölmiðlum og geta unnið að sínum einkahagsmunum og gæluverkefnum án þess að almenningur skynji það sem baráttu. Ef ég er á móti virkjunum í Þjórsá þarf ég að beita hávaða til að koma sjónarmiði mínu á framfæri því bréf lendir bara í möppu eða ruslinu. Ég kem fram sem reiður mótmælandi og fæ það orð á mig að vera á móti því bara til að vera á móti. Ef Friðrik Zophusson hinsvegar er á móti því að einhver bóndi við Þjórsá fái að búa á jörðinni sinni í friði og að börn framtíðarinnar fái að njóta íslenskrar náttúru, þá hlýtur hann að hafa góða ástæðu. Hann er nefnilega í fínni stöðu, hefur tök á að spreða almannafé í áróður fyrir málstað sinn, fær nóg tækifæri til að ljúga því í fjölmiðlum að mikil sátt ríki um málið og er réttu megin í pólitík.

3) Þeir sem fá á sig það orð að þeir mótmæli bara til að mótmæla, eru oft sterkir karakterar sem einkennast af mikilli réttlætiskennd, sannfæringarkrafti, rökfestu og baráttuhug. Þessir sömu eiginleikar einkenna marga stjórnmálamenn. Það er skammt á milli baráttuhugs og óbilgirni og þessvegna finnst mörgum það yfirþyrmandi reynsla að standa uppi í hárinu á okkur. Það er einfaldara að afgreiða okkur með sleggjudómum um að skoðanir okkar séu lítilsverðar, og að við höfum í raun ekkert til málanna að leggja,heldur tilheyrum bara einhverskonar mótmælakölti.

Ég vil ekki nota orðið kúl um mótmælendur, því ég tengi það orð fremur við yfirvegað  skeytingarleysi en þá tilfinningaólgu sem jafnan einkennir andspyrnuhreyfingar. Hinsvegar finnst mér mun virðingarverðara að mynda sér sjálfstæðar skoðanir og sýna hugrekki og dug til að halda þeim á lofti en að taka gagnrýnislaust við öllum ákvörðunum valdhafa. Ég hef mótmælt mannréttindabrotum, umhverfisspjöllum og annarri valdníðslu og mér líkar betur við sjálfa mig fyrir vikið. Ég er semsagt ekki mótmælandi af því að það sé flott en það að ég sé mótmælandi gerir mig að flottari konu en ég væri ella.

Share to Facebook

One thought on “Mótmælandi bara til að vera á móti?

  1.  ——————————-

    Flott hjá þér Eva

    Lilja Kjerúlf, 29.7.2008 kl. 23:50

    ——————————

    já, flott!

    Takk fyrir bloggvinskapinn.

    alva (IP-tala skráð) 30.7.2008 kl. 02:22

Lokað er á athugasemdir.