Mín skoðun er rétt

agreeÉg hef dálítið gaman af bókum sem snúast um sjálfsstyrkingu og samskiptatækni. Þessar bækur eru oft kallaðar „sjálfshjálparbækur“ rétt eins og þær séu fyrst og fremst ætlaðar fólki sem á voðalega bágt og þarfnast hjálpar. Sjálf kýs ég að tala um sjálfsræktarbækur því margar þeirra búa yfir ráðum sem koma að ágætum notum þótt allt leiki í lyndi og gera lífið bara ennþá ánægjulegra.

Kjánaleg spurning

Í mörgum þessara bóka eru viðhorfapróf (gjarnan krossapróf) sem eru til þess ætluð að lesandinn kynnist sjálfum sér betur og átti sig á eigin fordómum og skapgerðargöllum. Algeng spurning í slíkum prófum er t.d. „mín skoðun er rétt“ og svarmöguleikarnir geta verið já og nei eða oftast, stundum o.s.frv. Mér hefur alltaf þótt þetta merkileg spurning einkum í ljósi þess að ef maður svarar henni játandi heldur höfundurinn því gjarnan fram að það sé merki um að maður sé einstrengingslegur og þröngsýnn.

Það er nokkuð augljóst að eitthvað hlýtur að vera bogið við viðhorf þess sem telur útilokað að hann hafi nokkurn tíma rangt fyrir sér enda eru þeir sjálfsagt fáir sem svara þessari spurningu játandi. Á hinn bóginn þá merkir orðið skoðun ekkert annað en það viðhorf til málsins sem maður telur réttast hverju sinni og því er ekki hægt að svara spurningunni öðruvísi en játandi nema maður sé af hreinni og klárri sjálfsblekkingu að þykjast vera umbuðarlyndari en maður er.

Smekkur er ekki það sama og viðhorf til málefnis

Það er að vísu hægt að hafa þá „skoðun“ að Björk Guðmundsdóttir sé fallegust í rauðu en segja um leið, „það er auðvitað bara mín skoðun, þú hefur alveg jafn rétt fyrir þér þótt þú segir að gult fari henni betur.“ Þarna er strangt til tekið ekki um skoðun að ræða heldur smekk. Björk getur tekið sig prýðilega út hvort sem hún klæðist rauðum kjól eða gulum plastpoka. Hún getur klæðst annarri flíkinni um morguninn og hinni um kvöldið og samt verið sjálfri sér samkvæm.

Sá sem telur skoðun sína ekki rétta er ómarktækur

Ef ég segði aftur á móti „ég er þeirrar skoðunar að nauðsynlegt sé að banna rjúpnaveiðar á Íslandi en líklega hef ég rangt fyrir mér“ tæki enginn mark á mér. Slík málsgrein felur í sér þversögn og lýsir helst hugmynd þess sem hefur alls ekki myndað sér skoðun á málinu.

Umhverfisráðherra vaknar ekki á morgnana og tilkynnir þinginu að hann sé eiginlega ekki í skapi til að hleypa rjúpnaskyttum upp á fjöll í augnablikinu en sé til í að endurskoða það eftir hádegið. Sé það skoðun mín að rjúpnaveiðibannið sé nauðsynlegt þá merkir það að ég vilji láta banna rjúpnaveiðar, ekki að fólk megi bara ráða því sjálft hvort það skýtur rjúpur eða ekki þar sem allir hafi jafn rétt fyrir sér. Ef ég kemst að þeirri niðurstöðu að mér skjátlist þá hlýt ég um leið að skipta um skoðun. Þannig hlýt ég alltaf að telja mína skoðun rétta, annars væri hún alls ekki skoðun mín.

Að vera opinn fyrir möguleikanum á að manni skjátlist

Ég get ekki annað en svarað spurningunni játandi „mín skoðun er rétt.“ Ekki ef ég er heiðarleg og sjálfri mér samkvæm. Á hinn bóginn ætti víðsýnt og sanngjarnt fólk að vera opið fyrir þeim möguleika að því hafi yfirsést eithvað, að til sé hlið á málinu sem það þekkir ekki nógu vel til að taka endanlega afstöðu og að forsendur geti breyst. Þannig er víðsýnt og sanngjarnt fólk tilbúið til að endurskoða afstöðu sína og skipta um skoðun ef svo ber undir. En skoðun mín (svo framarlega sem ekki er um að ræða smekksatriði sem litlu máli skiptir) hlýtur alltaf að vera það sem ég álít réttast og best, allavega í augnablikinu.

Og ég er sannarlega þeirrar skoðunar að það sé lítil sjálfshjálp eða sjálfsrækt í því fólgin að sleppa því að mynda sér skoðanir.

 

Share to Facebook

One thought on “Mín skoðun er rétt

  1. ———————

    Þorkell @ 26/04 20.15

    Væri ekki eðlilegra að svarmöguleikarnir væru:


    Líklega stundum
    Líklega oftast
    Alltaf

    ?

    ———————

    Jón Kjartan Ingólfsson @ 26/04 23.49

    Gleður mig mikið að sjá að þú ert, eftir allt of langt hlé, aftur tekinn til við að birta bráðskemmtilegar pælingar þínar og pistla.
    Lifðu sem heilust,
    Jón Kjartan.

    ———————

    Torfi Stefánsson @ 27/04 11.03

    Undir þetta tekur annar aðdáandi þinn! Þú ert stórfín. Sérstaklega góð var greinin um konuna sem fórnarlamb. Sú grein mætti vel birtast víðar. Þá byrja bónorð vonda kynstofnsins, okkar karlanna, að steyma inn til þín í ríkum mæli! En það er kannski ekkert eftirsóknarvert?

    ———————

    eva @ 28/04 15.11

    Jú ég vil endilega sem flest bónorð. Þótt ég sé reyndar í hinni ágætustu sambúð kitlar það hégómagirnd mína en eins og allir vita stjórnast konur af hégómagirnd og karlar af einhverri allt annarri girnd.

    ———————

    Torfi Stefánsson @ 28/04 16.09

    Þetta eru grátlegar fréttir, þ.e. að þú sért í hinni ágætustu sambúð. Hvernig ætli standi á því að bestu konurnar eru allar í sambúð, en bestu karlarnir allir á lausu?

    ———————

    eva @ 28/04 17.00

    Hmmm… ég var á lausu í 10 ár og varð þess hreint ekki vör að bestu karlarnir væru á lausu. Þvert á móti virtust þeir sem voru á lausu ýmist vera alkóhólistar, þunglyndissjúklingar eða atvinnulausir að eðlisfari. Oft þetta allt í bland.

    ———————

    Torfi Stefánsson @ 28/04 19.05

    Þú fannst hann samt! Var hann kannski atvinnulaus, þunglyndur alkóhólisti? Skemmtilegri er skýringin að holdlega girndin spilli fyrir “okkur”, en hégómagirndin sé “ykkur” til framdráttar.

    ———————

    Ólöf I. Davíðsdóttir @ 29/04 00.09

    Ég er svolítið hrifin af þessari lýsingu, að vera “atvinnulaus að eðlisfari”.

    ———————

    Sigga @ 29/04 08.36

    Tek undir það Finnst þetta líka gott með girndirnar… hef tekið eftir þessu en aldrei dottið í hug samhengið. Ég var líka á lausu í mörg herrans ár og þeir karlmenn sem slefuðu ofan í hálsmálið á mér voru einmitt flestir svona mannleysur og andhetjur. Nema hvað… ég finn þennan fína gullmola innan um grjótið. Um leið og ég er komin í sambúð spretta svo upp alls kyns ágætis menn á lausu í kringum mig. Merkilegt!

    ———————

    Torfi Stefánsson @ 29/04 09.46

    Takk Sigga, þarna fékk ég smá uppreisn æru! Þetta eru annars merkilegar pælingar. Ég hef upplifað svipað. Ef ég hefur ekki vit á því að segjast vera í sambúð þá líta lausu konurnar á mig sem eitthvert viðrinni sem engin kona vill, en ef ég lýg upp á mig sambúð þá fæ ég ekki frið!

    ———————
    eva @ 29/04 10.22

    Neinei minn er ekki í aumingjadeildinni en þess ber náttúrulega að geta að ég fann hann ekki á “markaðnum”. Stundum liggja nefnilega gullmolarnir beint fyrir framan nefið á manni mánuðum og árum saman án þess að maður taki eftir þeim. Reyndar held ég að “góðu gæjarnir” séu síst finnanlegir á öldurhúsum borgarinnar og líklega á það sama við um konur. Kannski Torfi ætti frekar að prófa að ganga á milli blokka, hringja á dyrabjöllur og spyrja hvort góð einhleyp kona í leit að almennilegum manni búi hér. (Kannski það sé annars út að svona hugmyndum sem ég var á lausu í 10 ár svo þú ættir kannski að leita álits víðar áður en þú reynir þetta.)

    ———————

    Torfi Stefánsson @ 29/04 10.49

    Merkilegt, mér hefur nefnilega dottið þetta sjálfum í hug, reyndar úti í Lundi fyrir nokkrum árum. Þá var ég á rölti að kvöldlagi um Íslendingabyggðir á Norra-Fälladen, leitandi að ákveðnum aðila, og kíkti á aðgengilegar upplýsingar um íbúa. Þar var fjöldinn allur af íslenskum kvenmannsnöfnum án nokkurra karlmannsnafna við hliðina. Svo mig langaði að prófa en þorði ekki. Það er nefnilega eitthvað til sem heitir áreitni (trekassering á sænsku), og var mikið í umræðunni hér ytra á þeim árum – og er enn. Sú bölvuð umræða hefur komið í veg fyrir margar tilraunirnar! Það er nefnilega ekki bara þið konurnar sem eru viðkvæmar fyrir illu umtali

    ———————

    Sigga @ 29/04 11.19

    hehehe… já blessuð öldurhúsin eru ekki geðslegur markaður. Ég hef heldur aldrei sótt þau mikið. Meðan ég var á lausu dreymdi mig alltaf um að hitta einhvern skemmtilegan sem færi að tala við mig úti í búð… helst við ávaxtaborðið… þú ættir kannski að prófa það :)Vinkonur mínar héldu því fram að ég myndi aldrei ná mér í mann… þar sem ég hitti aðallega börn í vinnunni… æfði í Baðhúsinu innan um tómar kellingar… og vildi ekki fara á skemmtistaðina. En kraftaverkin gerast enn

    ———————

    Torfi Stefánsson @ 29/04 19.36

    Öldurhúsin já, þau eru kapituli út af fyrir sig. Þá er ávaxtarborðið betra, sbr hina forboðnu ávexti, eða jafnvel kjötborðið. Að standa við það og virða fyrir sér safaríkar steikurnar – og sjá við hlið sér laglega snót með sömu þrá í andlitinu. Þá er auðvitað tilvalið tækifæri að spyrja hana hvernig best sé að elda blóðugt nautakjötið – og leiða síðan talið að einhverju öðru skemmtilegra – draumi sérhverrar einveru!

    ———————

    Sigga @ 30/04 08.53

    Þarna sérðu… ég er viss um að þetta virkar

    ———————

    gunný @ 01/05 00.10

    Þunglyndir og atvinnulausir alkóhólistar eru fólk og aldrei að vita hvað er orsök og afleiðing í þeim efnum nema kannski þá að fólk skuldbindi sig í faglega meðferð og þar með eru leyndardómarnir á bakvið allt af þessu þrennu leystir upp ef vel tekst til, og geymdir þeim sem skilja.

    Var einmitt spurð í morgun, af uppáhaldssálinni minni, hvort ég væri að taka þátt í vorinu og hormónastarfseminni. Gat ekki svarað því að neinu leyti öðru en því að ég væri að þykjast vera með augun opin…þegar í raun réttu ég veit orðið upp á hár hvern ég vil. En hann er auðvitað bannvara eins og velflestir þeirra sem ég vil:-)

    Þessa dílemmu er í raun hægt að leysa aðeins á einn veg. Abstinence….eins og það heitir á ensku og snúa sér að fegurð lífsins í allri sinni dýrð. Það gengur best upp á þessum bæ:-)

    En ég vona samt að ávaxtaborðin færi Torfa lukku mikla og öðrum ástleitnum sálum djúpa gleði:-)

    ———————

    Torfi @ 01/05 15.19

    Takk fyrir þetta Gunný. Það er gaman eins og er hjá mér, hvort ég sé þunglyndur, alkóhóliseraður atvinnuleysingi “að eðlisfari” eða ekki! Í dag, fyrsta maí, hélt Íslendingakórinn í Lundi tónleika og í kvöld bíða tónleikar með David Byrne (Talking heads) á Vega í Köbenhavn. Svo kannski verður engin þörf á ávaxtaborði í bráð…
    Ég ráðlegg þér Gunný að hætta að dreyma um bannvöruna, fara út í vorið og njóta ástleitninnar

    ———————

    Óskar @ 02/05 18.24

    Aðdáendur Evu eru fleiri og mun ég vera einn þeirra. Orð fá varla lýst gleði minni yfir því að hún skuli hafa snúið aftur úr þessu langa fríi. Próflestrartíma mínum er vel varið þegar maður les pistla eftir svona snilldarpenna.

    Smá innlegg í umræðuna:
    Væri ekki ráð að opna markað fyrir einhleypa sem seldi vörur eins og Bachelor Chow. Konur í karlmannsleit gætu haldið þangað, tekið einmana karlmenn upp á arma sína og hjálpað þeim að kaupa í matinn. Kvöldinu yrði síðan varið yfir rómantískum kvöldverð sem þau elduðu saman á heimili annars þeirra.

    ———————

    gunný @ 03/05 01.00

    Nei, er mjög lítið að láta mig dreyma um bannvörur, sem mér finnst allt í einu afleitt orð um fagra sál….en hvað um það eins og ég segi og er meira fyrir að nasa uppi gleði lífsins. Nægir mér ágætlega þar til annað kemur í ljós.

    Gaman að sjá hvað Eva á marga aðdáendur úr karlahóp! Það er vel af sér vikið og ég skil raunar hvað þeir meina! Ekki bara augljóslega góður penni á ferð heldur lifandi hugur.

Lokað er á athugasemdir.