Löggan sem beitti kylfunni

Cartoon-PoliceEinu sinni vann ég við öryggisgæslu. Hluti af starfinu fólst í því að taka skýrslur af þeim sem voru grunaðir um þjófnað, skemmdarverk eða önnur smáafbrot og vísa fólki af svæðinu ef það var drukkið eða með óspektir. Á þeim tíma var mikill áhugi fyrir því meðal ungra öryggisvarða að fá að ganga vopnaðir enda þyrftu þeir einatt að eiga við drukkið fólk og hættulegt.

Ég sá ekki þessa miklu þörf á því að vopnvæða öryggisgæsluna. Ég lenti aðeins einu sinni í því sjálf að geta ekki talað einn ódáminn til og þá lét ég nú bara lögregluna um það, enda er hún einmitt til þess. Mér fannst líka nokkuð athyglisvert að einu öryggisverðirnir sem lentu í útistöðum við þetta fulla og hættulega fólk, virtust líta svo á að tilgangurinn væri ekki sá að koma vandræðafólki burt eða í hendur lögreglu, heldur að koma því í skilning um hver réði. Þeir virtust hreinlega fá kikk út úr slagsmálum og nálguðust fyllirafta, þjófa og yfirgangssama unglinga gjarnan með valdsmannslegu fasi. Af einhverjum stórdularfullum ástæðum virtist síður koma til átaka hjá þeim sem útskýrðu vingjarnlega að því miður væri meðferð áfengis bönnuð í byggingunni og buðust til að panta leigubíl fyrir viðkomandi ef hann var drukkinn, og tóku skýrslur æsingarlaust og án þess að láta álit sitt á verknaðinum í ljós ef um afbrot var að ræða.

Einhverju sinni var haldinn fundur með öryggisvörðum og lögreglunni saman, til að bæta samstarfið og fara yfir nokkur öryggisatriði. Þar kom fram maður sem hafði þá unnið við löggæslu í 22 ár, að mig minnir, og lengst af haft mikil afskipti af fíklum og öðru vandræðafólki. Hann sagði okkur að allan þennan tíma hefði hann einu sinni beitt kylfu. Ekki til að berja mann og annan, heldur til að hreinsa rúðubrot úr glugga. Ég hef einhvernveginn á tilfinningunni að þessi maður hefði ráðið við óþekka unglinga án þess að beita bareflum.

Ég legg til að til þess að fá vinnu hjá löggunni, þurfi menn að gangast undir próf sem skeri úr, bæði um hæfni þeirra til að takast á við erfitt fólk og aðstæður án þess að beita ofbeldi og eins hversu líklegir þeir séu til þess að misnota vald. Slík próf þyrfti að taka upp, áður en íslenskir lögreglumenn á páerflippi, lenda í samskonar voða og hvað eftir annað hefur hent dönsku lögregluna síðan hún vopnaðist, með litlum eða engum undirbúningi og með allt of veikum rökum.

Share to Facebook