Kórónuveikin er ekki „vægur sjúkdómur á borð við flensu“

Unnið að töku fjöldagrafa á Hart Island

Þann 21. apríl birti Kvennablaðið samantekt á rökum sóttvarnaráðgjafa sænskra stjórnvalda fyrir því að viðbrögð Svía við kórónufaraldrinum séu hin réttu.

Ég hef þegar skrifað tvo pistla þar sem ég skoða rök ráðgjafans, Johans Giesecke. Fyrst þau að viðbrögð annarra ríkja séu ekki vísindaleg, og svo þau að rétta leiðin sé sú að vernda áhættuhópa. Í dag ætla ég að skoða eftirfarandi rök:

  • Covid-19 er mildur sjúkdómur, svipaður flensu, fólk varð óttaslegið vegna þess að sjúkdómurinn var óþekktur
  • Andlátstíðni af völdum sjúkdómsins er um 0.1%

Þegar Giesecke talar um mildan sjúkdóm á hann við að fáir veikist alvarlega. En stenst sú fullyrðing skoðun? Staðreyndin er sú að það eru ekki nema 5 mánuðir frá því að veiran uppgötvaðist. Við vitum ekki ennþá hversu hátt hlutfall þeirra sem veikjast munu bíða af því varanlegt tjón. Það sem við vitum er eftirfarandi:

  • Þegar þetta er skrifað eru 2682 dánir úr kórónuveiki í Svíþjóð
  • 1900 manns hafa legið á gjörgæslu frá upphafi
  • 2125 eru á spítala og 530 eru á gjörgæslu sem stendur – það fólk getur varla talist með væg einkenni
  • Veiran veldur lungnabólgu sem getur verið mjög þjáningafull
  • Grunur leikur á um að sjúkdómurinn hafi í för með sér fleiri einkenni en fyrst var talið t.d. kuldabólgur og sár á fótum
  • Komið er í ljós að allt að 40% þeirra sem veikjast fá blóðtappa sem geta svo aftur valdið skaða á meltingakerfi, hjarta, æðakerfi, lifur, nýrum, lungum og heila.
  • Veiran virðist geta valdið sjalgæfum en banvænum hliðarverkunum hjá börnum.
  • Vísbendingar eru um að fólk kunni að veikjast aftur eftir að hafa náð sér.

Það sér það hver heilvita maður að það er ekki vægur sjúkdómur á pari við flensu heldur mjög alvarlegur sjúkdómur sem, enda þótt flestir lifi hann af, hefur í för með sér  hættu á varanlegu heilsutjóni. Það er full ástæða til að vera óttasleginn – nógu óttasleginn til að fara varlega.

Hvað dánarhlutfallið varðar þá er einfaldlega ekki vitað hversu hátt það er. Það sem við vitum er eftirfarandi:

  • Mörg Evrópuríki eru í verulegum vandræðum vegna þess að heilbrigðiskerfi þeirra ráða illa við þann mikla fjölda fólks sem hefur veikst alvarlega
  • Sum ríki hafa neyðst til að setja lík kórónusjúklinga í fjöldagrafir, ekki aðeins fátæk og stríðshrjáð ríki heldur hafa fjöldagrafir einnig verið teknar vegna kórónuveikinnar í New York. Fjöldagrafir hafa einnig verið teknar fyrir Múslímasamfélagið í London þar sem trúarsiðir Múslíma heimila ekki að lík séu geymd.

Það er við því að búast að þar sem heilbrigðiskerfið var í vanda fyrir deyi hærra hlutfall en við kjöraðstæður. En við vitum bara heldur ekki hvert hlutfallið er í ríkjum þar sem heilbrigðiskerfið er skilvirkt og öruggt og ræður vel við ástandið. Við vissum það kannski ef Svíþjóð hefði verið jafn öflug í smitrakningu og Færeyjar en svo er ekki, skimað hefur verið fyrir veirunni hjá innan við 120.000 manns eða 1,17% þýðisins. Á Íslandi hafa meira en 50.000 manns verið prófaðir eða um 13% þjóðarinnar.

Blessunarlega bendir margt til þess að ef fólk á annað borð fær fullkomna heilbrigðisþjónustu sé dánarhlutfallið mun lægra en það sem Alþjóðaheilbrigðisstofnunin gaf út í byrjun mars en á hvaða gögnum er talan 0,1% byggð? Það verður ekki betur séð en að hún sé algerlega úr lausu lofti gripin.

Þannig að nei Giesecke, kórónuveikin er ekki „vægur sjúkdómur á borð við flensu“, þvert á móti er hún mjög skæður sjúkdómur sem allt heilvita fólk ætti að reyna að forðast.

 

 

Share to Facebook