Skilaboð að handan

Ég trúi því að manneskjan geti haft áhrif á veruleikann með huga sínum. Ég kalla það galdur af því ég get ekki fært nein vísindaleg rök fyrir því. Ég trúi því að undarlegar tilviljanir séu ekki alltaf tilviljanir heldur séu fleiri lögmál en orsakalögmálið að verki í veröldinni. En ég held ekki að það sé neitt „yfirnáttúrlegt“ við það. Kannski „yfirskilvitlegt“ í þeirri merkingu að það er ofar skilningi okkar. Skilningarvit okkar duga ekki til að skýra það hversvegna besta vinkonan hringir alltaf þegar maður þarf á henni að halda. Hversvegna maður vaknar af undarlegum draumi og veit allt í einu lausnina á vandamáli sem hefur þjakað mann. Hversvegna einmitt það sem mann vantaði kemur til manns úr óvæntri átt. Ég held að þetta eigi sér allt skýringar sem við erum bara ekki búin að finna.

En ég trúi ekki á framhaldslíf. Þá sjaldan að ég hef orðið vör við eitthvað sem mér hefur þótt benda í þá veru, hef ég fundið rökréttar skýringar, í hvert einasta sinn. Það hefur komið fyrir að ég hef skynjað eitthvað sem gerðist ekki í veruleikanum. Séð manneskju bregða fyrir eða heyrt skóhljóð. Aldrei raddir samt. En ég hef líka séð lifandi fólki bregða fyrir og er helst á því að þetta gerist þegar ég hef dottað án þess að átta mig á því eða horft á tölvuskjá svo stíft og lengi að það hefur valdið andartaks sjóntruflun. Fótatak reyndist einhverju sinni vera marr í snjó sem rann rólega fram af húsþaki skömmu síðar.

En já, ég trúi á galdur, nota hann og kalla mig norn. Margir halda að þar með kaupi ég hvaða þvælu sem er. Fáir hafa reynt að selja mér snákaolíu en ég hef fengið ógrynni tilboða um ókeypis fjarheilun, árulestur og skyggnilýsingar.

„Haukur er á lífi“

Þegar fréttir bárust af því fyrir rúmum tveim árum, að Haukur sonur minn hefði fallið í stríðsátökum í Sýrlandi, hafði velviljað fólk sem telur sig hafa skyggnigáfu fljótlega samband við mig. Einn sérfræðnginn hafði dreymt fyrir því að ég myndi finna hann á lífi ef ég réði einkaspæjara. Ekki gat draumkonan útskýrt hvernig ég ætti að fara að því að fjármagna þjónustu einkaspæjara sem væri tilbúinn til að fara ólöglega inn á átakasvæði í höndum Islamska ríkisins. Flestir sögðust þó bara hafa „náð sambandi“ og Haukur væri á lífi. Ekkert meira, að minnsta kosti ekki neitt sem hefði mögulega getað gagnast til að finna hann.

Ég er nokkuð viss um að þetta var vel meint en þegar fólk er í mikilli geðshræringu og djúpri sorg getur velvild af þessu tagi haft öfug áhrif. Á þessum tíma óttaðist ég ekkert meira en að hann væri á lífi, í höndum fanta Erdogans. Ekki dró það úr áhyggjum mínum að eftir að Afrín var hernumin voru það fyrrum liðsmenn Islamska ríkisins sem fóru með völdin í Afrín í umboði Tyrklands. Ég hafði afar litla von um að hann slyppi lifandi og því síður að hann slyppi heill á sál og líkama.

„Nú er hann látinn“

Ég frábað mér þjónustu miðla en eftir nokkra mánuði, þegar enginn trúði því lengur að hann væri á lífi, fékk ég skilaboðin „ég sé augu hans fjara út, nú er hann látinn“. Hvað ég átti svo að gera við þau skilaboð er mér óskiljanlegt.

Skömmu síðar fóru mér að berast skilaboð að handan. Og hvað ætli sonur minn hafi svo að segja við mömmu sína, sem hann vissi vel að trúir ekki á framhaldslíf? Jú, skilaboðin eru öll í þá veru að hann sé „á góðum stað“ að ég eigi ekki að hafa áhyggjur af honum og að við munum hittast aftur.

Heldur einhver hugsandi manneskja í alvöru að ef Haukur væri staddur í einhverskonar framhaldstilveru og fær um að hafa samband, þá hefði hann ekkert merkilegra að segja?

Ef hann gæti nú bara haft samband

Ef Haukur gæti haft samband við mig myndi hann í fyrsta lagi ekki leita til ókunnugra hálfvita. Hann myndi nota lyklaborð og sennilega tölvupóst, enda er það miðill sem ég trúi á.

En gott og vel, kannski er ekkert netsamband „hinumegin“. Og eingöngu asnar sem eru færir um að ná sambandi við báða heima. Hvað myndi hann þá gera?

Hvað myndi allt venjulegt fólk gera ef það þyrfti að gera sínum nánustu grein fyrir sér í gegnum þriðja aðila? Væri ekki eðlilegast að segja eitthvað sem hefur merkingu fyrir viðtakandann? Nefna eitthvað sem aðrir vita ekki. Rifja upp samtal eða atvik, vísa í kvikmynd, ljóð, höggmynd sem hefur einhverja merkingu fyrir viðtakandann ef hann er listhneigður, tölvuleik eða íþróttaviðburð ef það eru sameiginleg áhugasvið.

Haukur hafði alveg sérstakan húmor, við áttum samtöl sem enginn varð vitni að, hann orti ljóð sem ekki hafa birst opinberlega og hann skrifaði mér bréf sem aðrir hafa ekki séð. Ef einhver miðillinn hefði nefnt lykilorð sem hann notaði á gögnum sem ég hafði aðgang að eða farið með ljóðlínu sem hefur merkingu fyrir mig, þá hefði ég hugsanlega hlustað. Ef skilaboðin hefðu verið „má bjóða þér gorp með þessu“, þá hefði ég sennilega spurt nánar. „Öskjuhlíð – lykill“ hefði nægt til að vekja áhuga minn. „Heiðmörk – völubein“ og mér hefði brugðið. Og svo margt, svo ótal margt hefði komið til greina sem enginn vissi og sem skiptir mig máli.

Látið fólk bara í friði – í alvöru

Meira en tveim árum síðar er þetta enn að gerast. Að ókunnugt fólk hafi samband að eigin frumkvæði með skilaboð að handan. Nú síðast um helgina. Það hefur ekki gerst í meira en 8 mánuði en nú komu „skilaboð“. Eftir allan þennan tíma. Skilaboðin voru þessi: „Við munum sigra á endanum takk ekki spurning mamma ok.“

Svona óumbeðin vitleysa truflar mig ekki að ráði en kæru miðlar; það er til fólk sem þolir þetta verr. Þeir sem trúa því að hægt sé að ná sambandi við framliðna bera sig örgglega eftir því sjálfir. Ef þið fáið ekki merkilegri skilaboð en „allt í fína“ frá þeim draugum sem þið teljið ykkur vera í sambandi við, látið þá syrgjendur bara í friði. Þeir koma áreiðanlega sjálfir ef þeir hafa áhuga.

Share to Facebook