Í tilefni af ummælum Hólmsteins um drengsmálið

Í morgun birtir Hannes Hólmsteinn Gissurarson þessa mynd og ummæli á Facebook:

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég sé prófessorinn reyna að réttlæta framgöngu yfirvalda í drengsmálinu svokallaða.

Við skulum hafa eitt á hreinu: Nathan Friedmann var 14 ára barn. Munaðarlaust barn. Hann var tekinn með vopnavaldi, frá því fólki sem hafði sýnt honum ást og umhyggju, fangelsaður og sendur nauðugur úr landi, án þess að nokkrar mildari aðgerðir hefðu verið reyndar.

Nathan litli Friedmann hafði verið vegalaus í Moskvu þar sem Ólafur Friðriksson, ritstjóri Alþýðublaðsins, tók hann að sér og flutti hann með sér heim. Drengurinn reyndist vera með smitandi augnsjúkdóm. Viðbrögð heilbrigðisyfirvalda við þeirri stöðu voru ekki þau að reyna að lækna barnið heldur að reka það úr landi. Áhugavert er að áhyggjur yfirvalda af smithættu ristu ekki dýpra en svo að drengurinn var ekki settur í sóttkví, hvað þá fósturfjölskylda hans, og ekki fer sögum af því að nokkur fyrirmæli hafi verið gefin um sóttvarnir.

Ólafur Friðriksson hélt því fram undirrót þeirrar fúlmannlegu ákvörðunar væri pólitík en ekki heilbrigðssjónarmið. Hann neitaði að afhenda yfirvöldum barnið en á sjöunda tug borgara (svokallað varalið lögreglunnar) komu lögreglunni til aðstoðar, brutu sér leið inn í húsið og tóku drenginn, grátandi, frá fósturforeldrum sínum. Ekki nóg með það heldur var fjöldi manns handtekinn og Ólafur og annar maður dæmdir í fimm ára fangelsi fyrir að veita lögreglu mótspyrnu. Þeir voru að vísu náðaðir síðar en þegar maður skoðar framgöngu stjórnvalda og dómstóla í drengsmálinu, í ljósi pólitískra átaka þess tíma, virðist ótrúlegt að málið hafi eingöngu snúist um sóttvarnir.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem ég sé Hannes Hólmstein tjá sig um drengsmálið eins og það sé ágætt dæmi um beitingu meðalhófsreglu og að skúrkarnir þar hafi verið Ólafur og aðrir vinstri menn sem studdu hann. Sannleikurinn er annar og það er með ólíkindum að nokkur skuli verja það ódæði sem framið var í Reykjavík þann 18. nóvember 1921, gagnvart saklausu, veiku, munaðarlausu barni. Oft hefur Hannes Hólmsteinn lagst lágt í vörn sinni fyrir ógeðfelldar gjörðir hægri manna en ég held að nú sé botninum náð.

Share to Facebook