Hvað hefði Jesús gert?

Kristnir menn reyna iðulega að slá einkaeign sinni á almennar hugmyndir um manngæsku. Hugmyndir sem eru sennilega jafngamlar mannkyninu. Það fer stundum í taugarnar á mér þegar þær eru kallaðar „kristileg gildi“.

Kannski er það óþarfa viðkvæmni. Þessi gildi sem öll trúarbrögð og siðfræðikerfi, þ.m.t. kristnar kirkjur boða (óháð því hvað stendur svo raunverulega í Biblíunni og óháð því hvort þeir sem kalla sig kristna fara eftir boðskapnum eður ei) eru nefnilega prýðisgóð. Gildi eins og mannúð, miskunnsemi, hógværð, hófsemi, jöfnuður og heiðarleiki. Mér er eiginlega sama þótt þau séu kölluð kristileg gildi; ef einhver stjórnmálaflokkur vill í alvöru nýta þau við lagasetningu þá gæti m.a.s. verið að ég kysi þann flokk.

 

Af þeim sögum að dæma sem sagðar eru af Jesúsi var hann aukinheldur andsnúinn valdníðslu og átti það sjálfur til að sýna borgaralega óhlýðni og átti a.m.k einu sinni upptök að beinum aðgerðum. Því má ætla að flokkur sem vill hafa líf Krists og boðun að leiðarljósi sýni anarkistum og öðrum aðgerðasinnum sérstakan skilning. Auk þess gekk lífsstíll Jesúsar þvert gegn samfélagslegum normum; hann kvæntist ekki og virðist ekki hafa verið í fastri vinnu. Það er því viðbúið að jaðarmenning muni þrífast vel í skjóli slíks stjórnmálaflokks. Rómafólk hefur t.d. víða átt erfitt uppdráttar en ætla má að ríkisstjórn með kristileg gildi legði sig fram um að gera Rómafólki fært að varðveita menningu sína.

Spilling er ókristileg
Ég mæli með þessari ágætu predikun Davíðs Þórs Jónssonar þar sem hann leggur út af sögunni af því þegar Jesús hreinsaði út úr musterinu og mótmælti þar með spillingu, okri og einokun. Þá má einnig líta til orða Jóhannesar skírara um spillinu. Við tollheimtumenn sagði hann: „Heimtið ekki meira en fyrir yður er lagt.“ og við hermenn: „Hafið ekki fé af neinum, hvorki með ofríki né svikum. Látið yður nægja mála yðar”  (LÚK 3:12-3:14). Það hefði nú kannski bara verið ágætt ef stjórnmálaflokkar með þessi viðhorf hefðu verið við völd á árunum fyrir hrun.

Velferðarkerfi er hinsvegar kristilegt
Davíð Þór hefur bent á að kristileg skattastefna myndi létta byrðum af fátækum. Bæta má við því sem Jóhannes skírari kenndi mannfjöldanum: „Sá sem á tvo kyrtla, gefi þeim, er engan á, og eins gjöri sá er matföng hefur“ (LUK 3:11). Jesús bakkaði aldeilis upp þessa hugmynd frænda síns um að ríkir ættu að gefa fátækum og reyndar er miskunnsemi við lítilmagnann rauður þráður í hans boðskap. Ég sé því ekki betur en að gott velferðarkerfi, sem hinir ríku bera kostnaðinn af, sé allt hið kristilegasta.

Kristileg stefna í málum atvinnulausra
Einnig má benda á söguna af daglaunamönnunum atvinnulausu (Matt 20:1-20:16) sem fengu loksins vinnu í víngarði hluta úr degi og var lofað „sanngjörnum launum“. Í lok dagsins fengu þeir full laun og þeir sem höfðu unnið allan daginn urðu þá ósáttir. Eigandi vínekrunnar benti þeim á að hann hefði virt samninginn við þá og sagði þeim (afar kurteislega þó) að fokka sér. Athyglisvert er að daglaunamennirnir atvinnulausu höfðu gefist upp en húsbóndinn leitaði þá uppi og bauð þeim starf að fyrra bragði og taldi „sanngjarnt“ að þeir fengju það sama og hinir. Gott yrði að sjá stjórnmálaflokk sem vildi framfylgja þessari stefnu í málum atvinnulausra.

 

Mannúð gagnvart lítilmagnanum er kristileg
Fólk sem vill hafa kristileg gildi að leiðarljósi við lagasetningu ætti ennfremur að taka mið af eftirfarandi ritningargrein:

Þá munu þeir réttlátu segja: Herra, hvenær sáum vér þig hungraðan og gáfum þér að eta eða þyrstan og gáfum þér að drekka? Hvenær sáum vér þig gestkominn og hýstum þig, nakinn og klæddum þig? Og hvenær sáum vér þig sjúkan eða í fangelsi og komum til þín? Konungurinn mun þá svara þeim: Sannlega segi ég yður, það allt, sem þér gjörðuð einum minna minnstu bræðra, það hafið þér gjört mér. (Mat 25:35-25:40)

Hér kemur fram að tryggja skuli fátækum lifibrauð og sjúkum og föngum sálgæslu og félagsskap en hér er einnig talað um að mönnum beri að hýsa gesti. Á þessum viðhorfum mætti byggja lög um útlendinga. Flóttamönnum skal veita hæli.

 

Mannúðleg útlendingastefna er kristileg
Enn ein Biblíusaga sem kristilegir pólitíkusar hljóta að hafa í huga er sagan af miskunnsama Samverjanum (LUK 10:29-10:35). Þar segir frá Gyðingi sem verður fyrir árás ræningja á ferðalagi. Sá sem kemur honum til hjálpar er Samverji. Á þessum tíma ríkti gagnkvæm óvild milli Samverja og Gyðinga en þótt bæði presturinn og Levítinn létu manninn liggja í blóði sínu var það hinn ólíklegasti ferðalanganna sem miskunnaði sig yfir hinn ofsótta mann, hjálpaði honum og greiddi auk þess fyrir aðhlynningu hans á gistihúsi eftir að hann þurfti frá að hverfa.

Hvaða boðskap lesa kristilegir stjórnmálamenn út úr þessari sögu? Hvað hefði Jesús gert ef hann hefði verið innanríkisráðherra og frétt af því að útlendingastofnun ætlaði að úthýsa fólki sem hefur flúið ofsóknir, stríð eða örbirgð?

 

Hvernig samræmist þjóðernisstefna þessum gildum?
Það er auðvitað ýmislegt í kristindómnum sem gæti orðið til vandræða við lagasetningu. Ætti að lögfesta undirgefni kvenna við eiginmenn sína?  Hvað með réttindi samkynhneigðra? Hvað með trúboð í skólum? Þessi atriði gætu vafist fyrir mönnum en heildarmyndin er skýr; Jesús var mannúðarsinnaður sósíalisti og það eru kristileg gildi, hvort sem okkur líkar betur eða verr. Það eru þau kristilegu gildi sem prestar hafa undanfarið vakið athygli á og það er í anda hinnar borgaralegu óhlýðni sem Jesús ástundaði sjálfur, að bjóða flóttamönnum skjól í kirkjunni. Það skýtur því dálítið skökku við að þeir stjórnmálamenn sem helst tala um kristileg gildi virðast fyrst og fremst ætla sér að beita trúnni í þágu þjóðernisstefnu og ekki síst gegn vegalausu fólki frá Mið-Austurlöndum. En það er svosem ekkert nýtt, það sat enginn miskunnsamur Samverji í ríkisstjórn Hermanns Jónassonar þegar Íslendingar sendu Gyðinga, börn jafnt sem fullorðna, beina leið í klærnar á nazistum, og gerðu það einmitt með þeim rökum að Íslendingum stæði nær að hjálpa sínum eigin vesalingum. Áhugavert væri að heyra rök þeirra, sem telja prestana í Laugarneskirkju hafa gert rangt með stuðningi sínum við flóttamenn, fyrir því hvernig það samræmist kristnum gildum að neita flóttafólki um aðstoð.

Share to Facebook