Hjartarsalt í minningu Sævars Ciesielksi

Undir stéttinni í bakgarðinum mínum býr maurasamfélag. Stundum sé ég kvikindin hreinlega streyma upp úr glufu milli hellnanna, hundruðum saman og marsera upp á þröskuldinn. Ég strái dátlitlu hjartarsalti á þröskuldinn og í kverkarnar, þeir forðast það og halda sig mest úti í garði. Þetta eru skaðlaus grey, jafnvel dálítið krúttleg hvert um sig um en verða ógeðþekk þegar þau koma saman í þúsundatali. Mér er sama um þá í hæfilegri fjarlægð en vil síður hafa þá iðandi á eldhússborðinu mínu.

Fyrir um 35 árum fékk rannsóknarlögreglan í Reykjavík barnunga stúlku til að staðfesta óhugnanlega sögu; uppspuna um að hún hefði séð kærastann sinn og vini hans vera að brasa með lík í stofunni heima hjá sér. Aðferðin sem lögreglan notaði til að knýja þessa játningu fram var vægast sagt svívirðileg, stúlkunni var hótað því að hún yrði svipt litla barninu sínu ef hún ekki sýndi fulla samvinnu.

Þessi saga, soðin upp af löngun löggunnar til að taka nokkra unga afbrotamenn úr umferð, dró á eftir sér stærri dilk en nokkurn grunaði á þeirri stundu. Menn voru ákærðir og dæmdir fyrir tvö morð án þess að nokkrar áþreifanlegar sannanir lægju fyrir eða yfirhöfuð nokkrar vísbendingar, fyrir utan játningar og vitnisburði sem lögregla og fangaverðir knúðu fram með vinnubrögðum sem voru á skjön við stjórnarskrána, alþjóðlega mannréttindasáttmála og alla góða starfshætti þeirra ríkja sem Íslendingar bera sig saman við.

Til eru þeir sem hugsa sem svo að glæpon sé glæpon og að yfirvöldum sé heimiilt að beita hvaða ráðum sem er til að losa samfélagið við ógæfufólk. Þeir sem hugsa á þennan hátt eru t.d. ofstækisfullir islamistar sem leggja að jöfnu skírlífisbrot og morð. Ennfremur grunnhyggnir, sjálfhverfir Íslendingar sem halda að þeir sjálfir og vinir þeirra séu of fullkomnir til að eiga það á hættu að verða fyrir barðinu á réttarkerfinu.

Við hin eigum flest dóttur, systur, unga frænku eða vinkonu sem gæti hugsanlega fallið fyrir vandræðamanni, tekið þátt í fjársvikum, reykt stolið tóbak og kórónað allt saman með því að staðfesta einhverja lygasögu í örvæntingafullum ótta um að missa barnið sitt.

Við hin berum umhyggju fyrir einhverjum ungum manni sem gæti misnotað fíkniefni, orðið háður þeim og fjármagnað neysluna með afbrotum.

Við hin þekkjum einhvern vammlausan mann sem gæti orðið fyrir því að ráðvilltir unglingar staðfestu aðkomu hans að glæpamáli að ósekju í von um að losna sjálfir við margra ára frelsissviptingu fyrir engar sakir.

Við hin vitum að við erum nógu ófullkomin til að láta leiða okkur í yfirheyslum og brotna undan langvarandi einangrun, niðurlægingum og líkamsmeiðingum.

Við sem erum ófullkomin og eigum ófullkomna ástvini, sýnum manni sem í dag verður borinn til grafar samhygð okkar með því að undirrita þessa áskorun. (Notið helst ekki gmail netföng, nöfn þeirra sem nota þau koma oft ekki fram)

Þið hin sem álítið að þjófnaður, fíkniefnabrot og óstaðfestar sögusagnir um eitthvað meira, gefi yfirvöldum leyfi til að einangra mann í 25 mánuði (þar af ár án þess að útvega honum skriffæri og rúmfatnað) halda fyrir honum vöku, kaffæra hann í vatni, hafa hann í fótjárnum 6 vikur samfleytt, neita honum um réttargæslumann og samtal við fangaprest, þvinga hann til að taka lyf, niðurlægja hann með bæði orðum og barsmíðum og dæma hann og fleira fólk svo fyrir morð á grundvelli játninga sem fengnar voru með þessum aðferðum; þið sem vitið að þið eruð svo ósnertanleg að þið getið aldrei lent í sporum Einars Bollasonar sem eftir langvarandi einangrun var sjálfur farinn að efast um sakleysi sitt og hefur aldrei jafnað sig að því marki að geta fyrirgefið systur sinni og mági, þið sem teljið útilokað að lögregla og dómstólar geri mistök, þið skuluð bara loka augunum áfram og láta sem ykkur komi þetta ekki við.

Við sem ætlum að taka við baráttu Sævars fyrir endurupptöku Guðmundar- og Geirfinnsmála erum nefnilega hvert um sig áhrifameiri en 100 heiladauð múgmenni. Við vitum að það er hvort sem er lítið gagn í fólki sem ekki lætur sig varða um brot yfirvalda gegn borgurunum og að fæst ykkar hafa döngun í sér til að þvælast fyrir okkur heldur. Þið múgmenni sem réttlætið meðferð lögreglu og dómstóla á Sævari Ciesielski og öðrum sakborningum í Guðmundar- og Geirfinnsmálunum, ég lít ykkur sömu augum og mauramorið sem býr undir stéttinni bak við heimili mitt í Bovrup. Þið eruð að vísu hvimleið kvikindi sem mig langar ekki að hafa í eldhúsinu mínu en ekki svo hættuleg að ég sjái ástæðu til að eitra fyrir ykkur.

Share to Facebook