Flottur pabbi! Svona á að gera þetta!

Í gær birti DV frétt (að sjálfsögðu án þess að geta heimilda) af manni í Texas sem barði barnaníðing til bana.

Og þá varð kátt í höllinni. Hvílíkur fögnuður yfir manndrápi. Svona á að gera þetta! það er tónninn hjá mörgum, sennilega flestum þeirra sem tjá sig um málið á umræðukerfi DV. Aukaatriði að barnið horfði upp á föður sinn bana manni og þótt fram komi að faðirinn líti hreint ekki á þetta sem glæsilega framgöngu, heldur sé miður sín yfir því að svona hafi farið, virðast margir telja að þarna hafi verið um að ræða yfirvegaða ákvörðun, byggða á „eðlilegri“ réttlætiskennd. Það stendur heldur ekki á fólki að fullyrða að það sjálft myndi bregðast eins við, enda þótt dæmin sanni, sem betur fer, að flestir foreldrar ná nú stjórn á bræði sinni áður en þeir verða manni að bana. Þetta er svona álíka kjánalegt og þegar ungar stúlkur sem aldrei hafa upplifað ógn, fullyrða að það sé ekki hægt að nauðga þeim „af því að ég yrði bara svo brjálæðislega reið að ég myndi klóra úr honum augun.“

Ég setti inn eftirfarandi ummæli:

Eins skiljanlegt og það er að fólk missi stjórn á sér þegar einhver gerir börnunum þess mein, þá er óhugnanlegt að sjá öll þessi ummæli um að það sé gott mál að berja mann til dauða. Það er kannski ekki við því að búast að mannréttindi nái fótfestu í þriðja heiminum á meðan almenningur í þingræðisríki vill helst halda uppi miðaldasiðferði.

Og það er eins og við manninn mælt; hverjum lesandanum á fætur öðrum tekst að túlka mín orð þannig að ég skilji ekki reiði föðurins, að ég reikni með því að fólk sem stendur barnaníðing að verki setjist niður og hugsi málið í rólegheitum, að ég sé að verja barnaníðing eða krefjast refsingar yfir föðurnum. Einn kýs jafnvel að ásaka mig um að líta á það sem mannréttindi að nauðga börnum. Þessar fráleitu túlkanir halda menn svo fast í þrátt fyrir að ég margítreki að ég sé ekki að ráðast á pabbann heldur að gagnrýna þá umræðu að það sé frábær lausn að drepa glæpamenn og það án dóms og laga.

Þetta gerist alltaf þegar mál barnaníðinga og annarra hættulegra manna eru rædd. Fólk sem allajafna er nokkurnveginn með báða fætur á jörðinni virðist missa bæði siðferði sitt og dómgreind, bara við það að heyra af svona málum, það þarf ekki einu sinni að standa frammi fyrir þeim sjálft. Það er einmitt vegna þessara stökkbreytinga á dómgreind og mannúð sem réttarkerfi er nauðsynlegt (og þá á ég ekki við að vestrænt réttarkerfi sé hafið yfir gagnrýni eða að það þarfnist ekki endurskoðunar.) Ég spyr allavega ekkert um afleiðingarnar ef fólk sem sýnir af sér svo einbeittan vilja til að mistúlka texta sem það hefur færi á að lesa yfir margsinnis, á meðan það situr í rólegheitum heima við tölvuna sína, ætti að skera úr um sekt eða sakleysi án þess að sjá nein rannsóknargögn og ákvarða mönnum refsingar í samræmi við sínar eigin tilfinningar. Mannssálin hefur nefnilega afskaplega lítið breyst síðan á miðöldum og sennilega myndu pyntingar og opinberar aftökur gleðja þessar illa hugsandi smásálir alveg jafn mikið og skrílinn á 16. öld.

Share to Facebook

19 thoughts on “Flottur pabbi! Svona á að gera þetta!

  1. Almennt virðist sem við viljum áköf réttlæta ódæði með öðru minna ódæði — nema þegar það bitnar á okkur og okkar.

  2. Já, það er heilmikið til í því að hægt sé að fyrirgefa allt svo fremi sem það bitnar ekki á manni sjálfum. Það er nú einmitt góð ástæða til að reka réttarkerfi því tilfinningar þeirra sem brotið er gegn eru ekki áreiðanlegur mælikvarði á alvarleika brots. Ég er reyndar ekki tilbúin til að kalla manndráp minna ódæði en kynferðisglæp þótt ég skilji reiði þeirra foreldra sem standa ofbeldismenn að verki. Það er nefnilega mögulegt að jafna sig af afleiðingum kynferðisofbeldis en það hefur enn ekki heyrst að menn hafi jafnað sig af lífláti.

  3. Ég hjó sömuleiðis eftir því í sömu frétt (hafði mig ekki í að lesa athugasemdakerfið) að það kemur hvergi fram hvað níðingurinn gerði við barnið. Án þess að vilja gera lítið úr hvers kyns barnaníð, þá er augljóslega mikill munur á því hvort níðingur sýni barni á sér typpið eða nauðgi því. Það er skiljanlegt að faðirinn reiðist svo mikið við hinu síðarnefnda að hann hreinlega drepi manninn, en það eru kannski full yfirdrifin viðbrögð við hinu fyrrnefnda. Bæði telst þó til barnaníðs.

  4. Samkvæmt erlendum heimildum heyrðist barnið hljóða og þegar faðirinn kom að var hún nærbuxnalaus. Faðirinn hefur ekki verið handtekinn og löggan segist ekki hafa neina ástæðu til að efast um sögu hans. Enginn veit hver níðingurinn er þannig að engum hefur verið tilkynnt um andlát hans. Telpan var færð á sjúkrahús til skoðunar en ég hef engar fréttir fundið af því hvað kom út úr þeirri skoðun. Hvað ef? Hvað ef maðurinn var að hjálpa barninu að pissa og hún hljóðaði af því að hún sá pöddu sem hún var hrædd við? Hlutirnir eru venjulega nákvæmlega eins og þeir líta út fyrir að vera en bara venjulega, alls ekki alltaf.

  5. Ef menn skrúfa aðeins niður í tilfinningunum og hugsa rökrétt þá snýst atburðurinn einnig um mann sem hefur verið líflátinn án dóms og laga.
    Nú er það bara svo (hvort sem mönnum líka illa eða vel í þessu tilfelli), að allir eiga rétt á að verja sig fyrir dómstólum hvort sem þeir eru meintir þjófar eða barnaníðingar.
    Þessi réttur er einn af hornsteinum í því siðferði sem við flest viljum tengja okkur og gerir okkur mannleg.

  6. Nei ég meina einmitt Eva að minna ódæðið er talið löggilding fyrir að hefna með öðru stærra ódæði — nema það hitti „okkur“. Þannig þótti sjálfsagt að svipta öryggisvörð á Hlemmi lífsframfæri sínu og atvinnu án þess svo mikið að kanna hver raunverulegur aðdragandi og orsök var fyrir því að hann löðrungaði annan mann og sparkaði í rassinn á honum og henti honum út. Öllum þótti sjálfsagt að missa sjálfir stjórn á sér við að sjá þetta og heimta einum kór tafarlausa hefnd — brottresktur úr vinnu — fyrir að maðurinn missti stjórn á sér — án þess að kannað væri hvort unnt væri að leysa vanda hans með örum hætti.

    Nei morð er stærsti glæpurinn — aðeins mjög sérstakar aðstæður geta gengisfellt það.

  7. Hef lesið fréttir af skilgreiningum á barnaníði í sumum ríkjum USA sem gera það að verkum að starfaði ég þar á dagheimili myndi ég kalla til annan starfsmann sem vitni, bæði barn mig að losa buxnatölu fyrir sig. Annars gæti ég lent í fangelsi þegar barnið kæmi heim og segði frá þessari hjálp minni, eða verið barinn til bana.

  8. Ég heyri menn oft segja sem svo, „Ef einhver misnotaði barnið mitt, þá myndi ég ekki hika við að drep’ann.“ Þetta er undarlegt fyrirbæri. Menn vilja gjarnan trúa því að þeir séu færir um að drepa fyrir börnin sín. Hvaðan kemur þetta? Þetta er einhver hugmynd um takmarkalausa ást og algera fórnfýsi, en er sennilega meira einfaldlega hefnd fyrir ofbeldið gegn sjálfu foreldrinu og fjölskyldunni. Eða hvað?

  9. Sæl Eva

    Þetta voru gildar og málefnarlegar athugasemdir. Það er bara gersamlega vonlaust að eiga málefnalegar umræður í spjallkerfi DV. Þetta eru bara hróp og köll og útursnúningar og ég hreinlega held að stór hluti lesenda DV sé bara ekki fær um annað. Ég trúi heldur ekki að þetta fólk sé áskrifendur að DV, þetta er fólk sem eyðir óþarflega miklum tíma í tilgangslaust nethangs og er hátt því að hneyklast yfir e-h daglega.

    Þú heldur út frábærum pistli og ekki hætta að skrifa, þú ert ógnandi við rétttrúnað götunar og öfgar af hverju tagi og mér finnst frábært að þú nennir að taka upp slaginn við dagsins öfgar í t.d. jafnréttismálum og skrifar fyrir jafnrétti allra.

    Það eru gríðarlega margir sem njóta skrifa þinna en þetta er fólk sem er ekki eins viljugt til að taka þátt í níðskrifum og ruglinu eins á t.d. DV.

    Takk fyrir enn og aftur að vera rödd skynseminar og þora að skrifa.

    Simon

  10. Sá sem ekki telur gott mál að menn séu teknir af lífi án dóms og laga er vitanlega „talsmaður nauðgara“. Rétt eins og sá sem mótmælir meðferð fanga í pyndingabúðunum við Guatanamo flóa er „talsmaður hryðjuverkamanna“. Það er ekki ofsögum sagt að fyrirbærið heimska á sér engin takmörk.

  11. Enginn að tala um að taka menn af lífi án dóms og laga.

    Hinsvegar hef ég verið að lesa pistla þína undanfarið um þennan málaflokk og ég get ekki annað en sett spurningamerki við sumt sem þar kemur fram. Þótt vissulega hafir þú rétt fyrir þér í öðru.

    Fyrri athugasemd mín var nú meira sett fram sem grín, en grín skilar sér illa í gegnum ritað mál þannig að ekki er skrítið að þú hafir tekið því öðruvísi.

    En leiðinlegt er að sjá að þú telur mig heimskan, fyrir það að hafa aðra skoðun á þessum málum en þú. En látum það liggja milli hluta.

    Takk annars fyrir skemmtilega bloggsíðu.

  12. Ef ég má bæta við.

    Hefur þú kynnt þér fjölda kynferðisbrota og nauðgana sem tilkynntar eru til Stígamóta á hverju ári og síðan fjölda þeirra mála sem komast fyrir dómstóla. Tala nú ekki um þeir sem eru dæmdir.

    Finnst þér eðlilegt að af hundruðum nauðgana á x margra ára tímabili enda aðeins 2-3% með dómi.

    Áttu þá þessi kynferðisbrot ekki sér stað eða voru öll þessi fórnarlömb að ljúga?

    Kerfið er gallað. Og þá er ég ekki að segja að það eigi að snúa sönnunarbyrðinni við eða að dæma menn án dóms og laga, en þú hlýtur að geta tekið undir það með mér að pottur er brotinn í þessu kerfi.

  13. Já ég hef kynnt mér ársskýrslur Stígamóta. Þar er ýmislegt athugavert eins og ég hef reyndar skrifað um áður. Í ljósi þess að Stígamót og þeirra skjólstæðingar skilgreina nauðgun á allt annan hátt en löggjafinn, finnst mér mjög eðlilegt að lítill hluti þeirra fari fyrir dómstóla og í ljósi þess að sönnunarfærsla í kynferðisbrotamálum er oft mjög erfið, finnst mér eðilegt að fáir séu sakfelldir. Í réttarríki er það nefnilega sakborningur sem nýtur vafans og þannig á það að vera. Það er ósanngjarnt fyrir raunveruleg fórnarlömb en samt skömminni skárra en að taka áhættu á því að saklausum sé refsað.

  14. Og jájá, pottur er brotinn en ég hef ekki séð neinar tillögur um það hvernig hægt væri að bæta það án þess að brjóta gegn mannréttindum þeirra sem ásakaðir eru.

  15. „Í ljósi þess að Stígamót og þeirra skjólstæðingar skilgreina nauðgun á allt annan hátt en löggjafinn, finnst mér mjög eðlilegt að lítill hluti þeirra fari fyrir dómstóla og í ljósi þess að sönnunarfærsla í kynferðisbrotamálum er oft mjög erfið, finnst mér eðilegt að fáir séu sakfelldir.“

    Hvernig skilgreina Stígamót og skjólstæðingar þeirra nauðgun og kynferðisbrot öðruvísi en löggjafinn? Nú spyr ég bara afþví að ég hef ekki heyrt af þessu.

    Og síðari athugasemd þín með að hvernig hægt sé að bæta kerfið án þess að brjóta á mannréttindum þeirra sem ásakaðir eru, að þá er það vissulega flókið mál og erfitt. En það hlýtur að vera hægt að finna lausnir.
    Hvað ætli séu margar nauðganir sem aldrei komast upp, vegna þess að fórnarlömbin treysta sér ekki til að kæra vegna þess hvernig kerfið er.

    En ef ég má spyrja þig Eva. Telur þú vera mikið um falskar ákærur í kynferðisbrotamálum?

  16. Starfsmenn Stígamóta hafa gefið það út opinberlega að það sé þolandans að skilgreina hvort brotið hafi verið gegn sér en ekki löggjafans, semsagt nauðgun hefur átt sér stað ef konu finnst eins og henni hafi verið nauðgað, óháð því hvort hún gerði einhverja tilraun til að koma því til skila eða áttaði sig bara á því eftir á að hún var eitthvað ósátt. Í frumvarpi sem hefur þrisvar sinnum verið lagt fyrir Alþingi en sem betur fer ekki verið samþykkt ennþá er lagt til að nauðgun verði skilgreind út frá upplifun þolandans en ekki út frá verknaði og umræða Stígamóta hefur verið mjög á þeim nótum. Ég held að það hafi verið í mars sem birtist, líklega á stöð tvö, viðtal við stúlku sem hafði áttað sig á því, með aðstoð Stígamóta, að í raun hafði hún verið í kynferðisofbeldissambandi í fjögur ár, án þess að gera sér grein fyrir því og þá er nú skilgreiningin orðin ansi frjálsleg. Ég hef fjallað um þessi mál margsinnis og þú getur eflaust fundið einhverja pistla sem skýra þetta betur með því að slá inn leitarorð á borð við Stígamót, kynferðisofbeldi, nauðgun o.s.frv.

    Það er örugglega töluvert um að nauðganir komist ekki upp. Hvort kerfinu er um að kenna er svo annað mál, hvernig í fjáranum ætlar þú að fara að því að sanna hvað hefur gerst á milli tveggja einstaklinga þegar orð stendur gegn orði? Er til eitthvert sanngjarnt kerfi sem tæklar það?

    Ég get ekki sagt til um hversu algengar falskar kærur í kynferðisbrotamálum eru. Það er eðli hlutarins samkvæmt erfitt að rannsaka það en vönduðustu rannsóknir sýna að ekki færri en 6% kæra eru sannanlega falskar. Hversu margar konur hafa kært menn að ósekju án þess að það hafi nokkurntíma komist upp, það vitum við ekkert um, ekki frekar en við vitum hversu margar raunverulegar nauðganir komast aldrei upp. Vandinn við sönnunarfærsluna virkar nefnilega á báða bóga; það er erfitt að sanna nauðgun og sennilega ennþá erfiðara að sanna rangar sakargiftir. Bara möguleikinn á því að maður sé hafður fyrir rangri sök ætti að duga til þess að ríkar sönnunarkröfur séu gerðar og mér finnst umræðan um að því þurfi að breyta verulega óhugnanleg.

  17. Er það ,,grín“ að saka talsmann mannréttinda um að tala fyrir nauðgunum?
    Nei.
    Það er óhróður.
    Illmælgi.
    Rógur.

Lokað er á athugasemdir.