Engar reglur?

Nei það er ekki í lagi að taka þvagsýni með valdi.

Í greininni í Blaðinu kemur fram að þegar hafi verið búið að taka blóðsýni úr konunni og að áfengismagn hafi mælst 1,48 prómill. Ekki kemur fram hversvegna var þá nauðsynlegt að taka þvagsýni líka.

Ég efast ekki um að konan hefur verið erfið og leiðinleg en finnst þó að það þurfi betri rök fyrir þessum vinnubrögðum en þau að það séu engar reglur til um hvernig standa eigi að töku sýna. Lögreglan á ekki að geta skýlt sér bak við skort á reglum og þegar allt kemur til alls má efast um hæfni ríkissaksóknara til að skera úr um það hvort og hvenær skuli rannsaka málið þegar lögregla er sökuð um ofbeldi. Allavega er ríkissaksóknari með þessu búinn að gefa grænt ljós á fremur ógeðfellda valdbeitingu. Spurning hvort megi túlka þetta á þann veg að það sem er ekki beinlínis bannað sé þar með leyfilegt.

 

Share to Facebook

1 thought on “Engar reglur?

 1. Já, allt sem hinu opinbera er ekki beinlínis bannað er þeim leyfilegt, og allt sem okkur er ekki beinlínis leyft er bannað.

  Fögnum því að teljast til frjálsra þjóða!

  Posted by: Elías | 21.08.2007 | 16:13:24

  ———————————————————-

  heh, vel að orði komist, Elías!

  Posted by: hildigunnur | 21.08.2007 | 18:17:17

  ———————————————————-

  Já en svo eru yfirleitt tvær hliðar á öllum málum. Konan var greinilega alveg brjáluð, réðst á lögreglumennina og sjúkraflutningamennina og hótaði þeim lífláti og börnunum þeirra sömuleiðis. það er ekki hægt að sleppa fólki við þær rannsóknir sem þarf að gera bara af því að það neitar og er í æðiskasti. Mér skilst að þvarprufu þurfi til að sanna m.a. hvort fíkniefni hafi verið notuð. Ég held ég fari rétt með að það finnist ekki í blóði einungis í þvagi.
  Hinsvegar á lögreglan ekki undir neinum kringumstæðum að gera þetta sjálf. Það á að fara með fólk beint á sjúkrahús þegar þörf er á slíku. Mér finnst þessi harkalega aðgerð á lögreglustöðinni mjög ógeðfelld.

  Posted by: Ragna | 21.08.2007 | 20:57:35

  ———————————————————-

  Samkvæmt vefsíðu Rannsóknarstofu Háskóla Íslands í lyfja- og eiturefnafræði er „Hægt að magngreina öll fíkniefnin (nema kannabinóíða) í blóði og sermi.“ http://64.233.183.104/search?q=cache:x32DyjNhbSAJ:www.hi.is/pub/liflyfjafr/Thjonusta/avana_og_fikn.htm+m%C3%A6list+amfetam%C3%ADn+%C3%AD+bl%C3%B3%C3%B0i&hl=is&ct=clnk&cd=7&gl=is og hegðun konunnar benti sannarlega ekki til hassneyslu.

  Auðvitað á fólk ekkert að sleppa vegna slæmrar hegðunar. Það sem ég er að velta fyrir mér er hinsvegar hvort þetta var nauðsynleg rannsókn eða hvort þetta var refsiaðgerð af hálfu lögreglunnar. Nægt áfengismagn hafði þegar fundist í blóði.

  Hvað varðar hótanir konunnar þá tel ég að flestir starfsmenn geðdeilda hefðu látið þær sem vind um eyrun þjóta. Það er sjaldnast mikil innistæða fyrir þeim óhroða sem truflað fólk í annarlegu ástandi lætur út úr sér við þá sem (jafnvel með fullum rétti) beita það valdi. Ef fjölskyldum lögreglumannanna stafar raunveruleg hætta af konunni þá hefur sú hætta ekki minnkað við þessar aðfarir.

  Posted by: Eva | 22.08.2007 | 8:52:18

  ———————————————————-

  Í fyrsta lagi þá virðist sem fólk sé að taka afstöðu eftir frásögn þess sem kærir málið. Í annan stað þá þekki ég ekki lögin að því að varðar mál af þessu tagi. Ef viðkomandi neitar að blása í blöðru eða láta taka blóðsýni þá ímynda ég mér að það þurfi að koma til heimild frá dómara til að afla þessara gagna án vilja viðkomandi.

  Posted by: Guðjón Viðar | 22.08.2007 | 11:29:21

  ———————————————————-

  Er nokkuð óeðlilegt við að taka afstöðu út frá frásögn kærandans þegar sú saga hefur ekkert verið rengd?

  Posted by: Eva | 22.08.2007 | 12:27:01

  ———————————————————-

  Hafa skal það sem betur hljómar ? Það kom mér reyndar á óvart en samkvæmt 47 gr. umferðalaga þá þarf engan dómsúrskurð. Hins vegar er skylt að læknir og hjúkrunarfræðingur sé á staðnum eins og var í þessu tilfelli.

  Posted by: Guðjón Viðar | 22.08.2007 | 13:05:27

  ———————————————————-

  Mér finnst þetta ekki vera spurning um hvort þessi aðgerð standist lög, ef út í það er farið eru nánast öll lögreglulög með klausunni „ef nauðsyn reynist“, heldur líka hvort þetta var yfirhöfuð eitthvað nauðsynlegt.

  Það er engin hefð fyrir því að svona sé staðið að málum.

  Posted by: Eva | 22.08.2007 | 17:01:15

  ———————————————————-

  Nú er komið fram að þessi aðgerð var algerlega óþörf http://www.mbl.is/mm/frettir/innlent/frett.html?nid=1286897 Samt sem áður er kærunni vísað frá.

  Hver gætir gæslumannanna?

  Posted by: Eva | 23.08.2007 | 8:32:50

Lokað er á athugasemdir.