Ingó

Ef þú fengir fimm ár í viðbót við fulla heilsu, hvernig myndirðu nota þau? spurði ég. Ingó yppti öxlum. Ég myndi bara gera það sama og hingað til, sagði hann. Vera meira með fjölskyldunni. Taka myndir. Spila. Keyra mótorhjól. Vinna öll þessi verkefni sem ég hef talað um með þér og fleiri vinum. Og ferðast, ég væri virkilega til í að fá tækifæri til að ferðast meira. Já einmitt, bara meira af því sama. Þetta er gott líf.

Ingó lifði ekkert fullkomnu lífi en þetta var hans afstaða; lífið er gott. Hann ætlaðist ekki til þess að það væri fullkomið heldur naut þess sem hann átti kost á. Það var sjaldan dauð stund í lífi hans og þá sjaldan að hann tók sér nokkurra mínútna pásu í einrúmi las hann. Hann var hraðlæs og fannst flest lesefni áhugavert. Hann átti ekki langa ævi en ég held að hann hafi verið sáttur við það hvernig hann nýtti tímann sinn.

Ég á eingöngu góðar minningar um Ingó. Það var svo gaman að umgangast hann. Hann var glaður að eðlisfari, hafði ríka kímnigáfu og hafði óskaplega gaman af því sem hann var að fást við hverju sinni. Hann tók nýjum hugmyndum af fordómaleysi og gat jafnvel orðið spenntur fyrir mjög vondum hugmyndum áður en hann afskrifaði þær. Áhugi hans og léttlyndi smitaði út frá sér og þegar hann komst í flæði voru afköst hans með ólíkindum. Hann vann best á næturnar, kannski spilaði það inn í að hann taldi sig sjaldan svo upptekinn að hann gæti ekki svarað símanum og haldið uppi netspjalli við tvo eða þrjá félaga á meðan hann vann. Upp úr miðnætti hægðist um og þá vann hann með ævintýralegum hraða.

Ingó var jafnan með mörg járn í eldinum og vann vel undir álagi. Einu sinni fór ég með honum þegar hann ætlaði rétt að skjótast niður á Austurvöll og taka eina mynd. Ferðin tók rúma tvo tíma því hann þurfti aðeins að sinna erindum á tveimur stöðum. Eftir það þurfti hann aðeins að koma stelpunum sínum á milli staða og að lokum þurfti hann aðeins að koma við í bílskúrnum og skipta um bremsuborða. Auk þessa stoppaði hann tvisvar til að reykja eina sígarettu með kunningjum sem við hittum af tilviljun á leiðinni. Eftir ferðina var hann svo ánægður með að hafa komið nokkrum smámálum frá að hann vann þrisvar sinnum hraðar en vænta mátti og lenti alls ekki í því tímahraki sem ég þóttist hafa séð fyrir enda þótt ég hefði gert ráð fyrir að erindið tæki í mesta lagi hálftíma.

Eitt var dálítið truflandi við að vinna með Ingó. Á skrifstofuna hans lá stöðugur straumur af fólki sem ýmist var bara að heilsa upp á hann eða þurfti að láta “redda” einhverju en Ingó var með fádæmum greiðvikinn. Altaf fús til þess að gera fólki greiða og oft bauð hann fram aðstoð sína ef hann vissi af einhverjum vanda sem hann gat leyst. Iðulega lofaði hann upp í báðar ermarnar og hálsmálið í þokkabót og þegar hann var undir miklu álagi átti hann það til að ofmeta eigin afkastagetu, sem var þó töluverð fyrir. Það er hægt að fá einhvern annan til að setja upp skjal en það er ekki hægt að láta einhvern annan sjá um að sofa fyrir þig. Dettur þér aldrei í hug að segja; nei því miður, ég hef ekki tíma núna? sagði ég þegar hann hafði boðað mig á staðinn til að hjálpa mér við uppsetningu á skjali og kom í ljós að hann hefði verið að vinna alla nóttina áður. Jújú, mér dettur það alveg í hug en mig langar að vinna með þér og þú verður svo stutt á landinu, sagði hann. Hann féllst á að láta einhvern annan um verkið en þegar hann hafði samband við mig seinni partinn var hann enn ekki farinn að sofa. Hann var í tímahraki og hafði ekkert verið á leiðinni í rúmið heldur ætlað að gera mér greiða og halda svo áfram.

Þannig var Ingó. Hann langaði að gera allt fyrir vini sína og hann átti engan smáræðis helling af vinum. Hann var skemmtilegur og raungóður og þessvegna vinsæll en hann lagði sig líka eftir vináttu. Skömmu eftir að ég kynntist Einari fékk hann tölvupóst frá Ingó. Einar varð hissa, því þeir höfðu aðeins einu sinni talað saman. Ég var hinsvegar ekkert hissa. Ingó líkaði almennt vel við fólk og þegar hann hafði einu sinni átt skemmtilega stund með einhverjum leit hann á hann sem vin. Það skipti hann miklu máli að eiga ánægjuleg samskipti og þessvegna forðaðist hann deilur. Hann benti mér stundum á ummæli á netinu með þeim orðum að sér yrði illt í sálinni af því að verða vitni að öðru eins. Hann svaraði samt ekki þótt gengi fram af honum því hann var hræddur um að særa fólk og hafði ekki tíma til að standa í þrasi.

Ingó reiddist ekki oft en einu sinni varð hann samt þokkalega brjálaður og fólkið sem hann reiddist við var forhert. Hann vissi ekki hvernig hann ætti að bregðast við og ég, sem hef mikla reynslu af því að vera reið og gera eitthvað í því, gat að sjálfsögðu gefið honum góð ráð. Ef þú æsir þig við fólk sem kann ekki að skammast sín þá sér það ekki sína eigin skömm heldur bara geðshræringuna í þér. Sýndu þeim frekar fyrirlitningu, sagði ég. Þetta þótti Ingó snjallræði en hann gat bara ekki sýnt neinum fyrirlitningu. Ég held í alvöru að hann hafi aldrei litið niður á neinn, hann gat fordæmt hegðunina en ekki manneskjuna svo hann fór ekki eftir þessum ráðum mínum frekar en öðrum. Ingó tókst oft á við sárindi og árekstra með því að spyrja fólk ráða og sjá fyrir sér frábæra útkomu en ekki veit ég neitt dæmi þess að hann hafi farið eftir þeim ráðum sem hann bað um. Það var eins og tilhugsunin um uppgjör dygði honum alveg.

Þegar Ingó furðaði sig fyrst á sárum sem virtust bara ekkert ætla að gróa taldi ég að hann væri með exem eða annan húðsjúkdóm sem oftast er hægt að halda nógu vel niðri til þess að maður geti lifað eðlilegu lífi. Það hvarflaði ekki að mér að setja sárin í samband við lasleikann sem einnig fór að gera vart við sig. Mér fannst ekkert dularfullt þótt maður sem var undir stöðugu álagi, svaf lítið og óreglulega og notaði þær frístundir sem hann þó átti til þess að spila pönk, berjast við Einherja og þeysa um á mótorhjóli, væri þreyttur. Þetta eru ekki beinlínis afslappandi áhugamál og jafnvel þegar hann skar út gripi og las bækur gerði hann það í nokkurra mínútna lotum á milli verkefna. Banvænn sjúkdómur er það síðasta sem mér hefði dottið í hug.

Ingó tók fréttunum af stöku æðruleysi. Nei, ég er ekki hræddur eða reiður, sagði hann þegar sjúkdómurinn greindist og það endurtók hann þegar hann sagði mér að síðasta chemomeðferðin hefði ekki borið árangur. Hann sagðist líta sjúkdóminn sömu augum og eldgos. Ef ég kemst í gegnum þetta þá er það frábært, ef ekki þá finnst mér það leitt barnanna vegna en það þjónar engum tilgangi að vera ósáttur við það sem maður ræður ekki við.

Það var skrýtið fyrir Ingó að liggja á sjúkrahúsi og hafa ekkert fyrir stafni. Hann sagði að internetið hefði margsinnis bjargað geðheilsu sinni og hann bjó vel að vinsældum sínum því hann fékk margar heimsóknir. Hann mat það mikils að fá félagsskap á meðan hann lá inni og hann var mjög hrærður yfir þeim stuðningi sem hann fékk. Innilega þakklátur fyrir  greiðasemi annarra við sig og fjölskylduna og fjárhagsstuðninginn sem þau þurftu sárlega á að halda. Þótt það skipti hann miklu máli að hafa internetið hvarf hann stundum af spjallinu í tvo eða þrjá daga. Fyrst hélt ég að ástæðan væri geðlægðir en þegar ég kom til Íslands og hitti hann rétt fyrir jól sagðist hann vilja komast hjá því að ræða ástand sitt þegar hann hafði eingöngu vondar fréttir. Mig langar ekki að missa mig í væl eða taka pirringinn út á öðrum, sagði hann. Ég held að hann hafi aldrei orðið beinlínis þunglyndur og kannski hjálpaði það honum að forðast að tala mikið um erfiðleikana.

Þrátt fyrir banvænan sjúkdóm og erfiðar meðferðir fann Ingó jákvæðar hliðar á veikindum sínum. Þegar við Einar heimsóttum hann á spítalann í fyrsta sinn var hann að koma úr myndatöku. Hann var svo slappur að hann gat varla talað, en hann svipti ofan af sér sænginni til þess að sýna okkur með mikilli ánægju hvað hann hefði grennst mikið. Talaði svo um að þegar hann næði heilsu ætlaði hann að fara í líkamsrækt. Og þá get ég sagt “Darri feiti” þegar ég hitti þig næst, sagði hann síðar við Darra son minn sem er álíka gildvaxinn og spaghetty. Ingó þótti svolítið erfitt að missa hárið en hann gat líka grínast með það. Sumarið áður hafði hann sagt mér af mikilli sannfæringu að hann ætlaði ekki að láta klippa það stutt aftur, að minnsta kosti ekki á meðan hann héldi rauða litnum. Nú tók hann þann pól í hæðina að það yrði bara spennandi að sjá hvernig hárið yrði þegar það yxi aftur. Honum fannst fyndin hugmynd að fá kannski ljósar krullur því hann hafði líka misst allt líkamshár og sagðist bara vanta ljósan hrokkinkoll til þess að verða alveg eins og englabarn.

Hann komst aldrei að því. Hvort hárið hans hefði orðið hrokkið, liðað eða slétt á ég við. Það var bara rétt byrjað að vaxa þegar hann dó. Því Ingó dó eins og hann lifði;  aðeins hraðar en maður áttar sig á. Ég hafði satt að segja verið vongóð um að hann myndi lifa út árið og taldi jafnvel hugsanlegt að hann myndi læknast. Hann bar sig svo vel. Þann 1. mars spilaði hann á tónleikum. Um miðjan mars hafði hann farið á bardagaæfingu. Að vísu ekki barist en hann fór í víkingabúning og sat og spjallaði við félaga sína. Hann var svo ánægður eftir þann dag.  Og laugardagskvöldið, rúmum sólarhring áður en hann dó, fór hann með vinum sínum á kaffihús. Allir vissu að hann var dauðvona en andlát hans var samt óvænt, að minnsta kosti fyrir okkur sem fylgdumst aðallega með honum í gegnum netið síðustu vikurnar.

Þeir eru margir sem munu sakna þess að umgangast Ingó og þau eru allt of mörg verkefnin sem hann náði ekki að ljúka. Eitt af því sem hann langaði að gera var að koma upp minningavefsetri, netsvæði þar sem fólk gæti safnað saman myndum, tónlist og öðru efni sem tengist látnum ástvinum, skrifað  minningargreinar og sent samúðarkveðjur. Mér þykir miður að þessi hugmynd skuli ekki hafa komist í framkvæmd því þeir eru svo margir sem eiga skemmtilegar og fallegar sögur af Ingó. Mér finnst gott að lesa þær og að sjá myndböndin sem Lára Hanna hefur sett inn á youtube. Það væri gaman að geta séð þetta efni, ljósmyndir og fleira á einum stað.

Ingó var hæfileikaríkur, skemmtilegur, atorkusamur, hjálpsamur, æðrulaus og alveg sérstakt ljúfmenni. Ég er hnuggin yfir andláti hans og ég verð mjög sorgmædd þegar ég hugsa til Monicu og litlu telpnanna þeirra; Hrafnhildar og Söru, systkina Ingólfs og annarra sem voru honum nánir. Ef til vill er það nokkur huggun að sjá myndirnar sem Ásgeir Ásgeirsson tók af honum síðasta laugardagskvöldið í lífi hans, myndir sem sýna glaðan mann í góðra vina hópi. Hann dó alltof ungur en hann var þó allavega fótafær fram í dauðann og hann tapaði aldrei gleðinni. Ég kann engin almennileg huggunarorð en fjölskyldu hans og öðrum ástvinum sendi ég mínar innilegustu samúðarkveðjur.

—–

Að lokum leyfi ég mér að birta þessa tilkynningu sem ég sá á facebook. Ég veit ekki hver tók myndina en hún er með betri myndum sem ég hef séð af Ingó. Svona, einmitt svona sá ég hann.

Útför Ingólfs Júlíussonar fer fram í Silfurbergi í tónlistarhúsinu Hörpu laugardaginn 4. maí. Þann dag hefði Ingólfur orðið 43 ára. Athöfnin verður auglýst í fjölmiðlum á næstu dögum. Blóm og kransar verða vinsamlegast afþökkuð en þeim sem vildu minnast Ingólfs er bent á menntunarsjóð dætra hans, Hrafnhildar og Söru: 0301-18-988356 – kt 030901-2820

Deila færslunni

Share to Facebook