Galdrafólk á Ovino markaðnum

Owino markaðurinn er Kampala útgáfan af Kolaportinu.  Þetta er gríðarstór markaður og gerólíkur túristamörkuðum. Walter fór með okkur þangað. Hann varaði okkur við þjófum og þar sem við vorum bara með símamyndavél sem auðvelt er að hrifsa í mannþrönginni tókum við engar myndir. Myndirnar sem ég birti hér fann ég á netinu.

Mér líður ekki vel í mannþröng og hefði ekki langað að verja mjög löngum tíma á Owino markaðnum en mér fannst gaman að sjá hann. Þremur dögum eftir að við fórum þangað með Walter  brann hluti af markaðnum og talið er víst að eldurinn hafi verið af mannavöldum. Fólk hefur áður borið eld að markaðnum, síðast 2011. Tilgangur brennuvargana virðist vera sá að leggja viðskipti samkeppnisaðila í rúst.

 

Stemningin á markaðnum

Á markaðnum ægir öllu saman. Opnir sekkir með mjöli, baunum og krydd standa á götunum. Kjötstykki liggja óvarin á söluborðum við hliðina á básum með notuðum fatnaði, notuðum rafbúnaði, bíldekkjum, búsáhöldum og öðru dóti sem Vesturlandabúar hafa losað sig við. Allskonar framandlegan þef leggur á móti okkur og sumstaðar eru göturnar milli sölubása svo mjóar að við þurfum að ganga í halarófu.

Eftir því að dæma sem ég hef séð á götum Kampala þessa fáu daga sem ég hef verið hér er það talið kvennaverk í Úganda að bera byrðar en hér sjáum við líka karla með byrðar á höfðinu. Stóra stafla af vefnaði og kolasekki sem eru minnst metra háir og umfangsmeiri en þeir sjálfir. Nokkrar konur liggja sofandi ofan á háum stöflum af einhverju sem líkist helst hálmknippum. Liturinn er þó mun brúnni en hálmur. Þetta reynist vera tóbak.

Okkur hafði verið sagt að við gætum reiknað með fjandsamlegri framkomu á markaðnum. Hér versla heimamenn, vestrænir túristar þykja víst engir aufúsugestir og mér skilst að það þyki allt í lagi að hreyta í þá ónotum. Sennilega eru fáir þeirra góðir viðskiptavinir og ég er svosem ekkert hissa á því, ekki langar mig að versla hér, svo mikið er víst. Við verðum þó ekki fyrir neinum leiðindum, kannski er ástæðan sú að við erum með Walter og félögum.

 

Rætur

Walter hefur lofað að kynna mig fyrir töfralækni svo við höldum áfram. Við göngum fram á norn með stóra körfu fulla af rótum. Hún virðist ekkert sérstaklega glöð að sjá okkur en Walter stöðvar hana og kaupir nokkrar rætur. Þetta eru langar, mjóar, nokkuð beinar greinar, ljósar að lit með þunnum berki. Walter réttir okkur hverju sína rót og bítur sjálfur í eina þeirra. Segir að þetta sé “náttúrulegt tyggigúmi” og hvetur okkur til að prófa. Eynar fæst ekki til að láta neitt ofan í sig sem ekki er soðið og sótthreinsað en forvitnin er sýklaótta mínum yfirsterkari.

Rótin er mjúk undir tönn, mjólkurhvít undir berkinum og bragðdauf, eilítið sæt. Hún hentar ekki sem tyggjó en rótarát mitt vekur almenna kæti viðstaddra sem stara á mig í forundran. Nokkrir flssa. Þarna plataði ég þig, segir Walter kátur eins og krakki, þessi rót er notuð til að auka karlmennsku, hún er ekki ætluð konum, svo nú eru allir að hlæja að þér. Reyndar mér líka því það er frekar bjánalegt að láta aðra sjá sig með svona rót, segir hann og skellihlær að eigin sniðugheitum.

Af viðbrögðum nærstaddra að ráða velkist enginn í vafa um tilgang rótarinnar og ég spyr Walter hvort þetta sé vinsælt töfralyf. Hann staðfestir það. Af því að hún virkar stundum, segir hann. Eða kannski ekki mjög oft en stundum samt,bætir hann svo við hálf hikandi. Eða svo er sagt. Hvað veit ég, ég nota þetta ekki nema til að stríða túristum.

Þessi rót er á máli heimamanna kölluð Omulondo en ég hef ekki fundið enska þýðingu á því orði. Hún er mjög vinsæl í Úganda, ekki aðeins talin auka kyngetu heldur er hún einnig notuð til að meðhöndla krabbamein í blöðruhálskirtli. Úr henni er framleiddur líkjör sem að sögn framleiðandans læknar allt frá höfuðverk að krabbameini.

Töfralæknirinn

Töfralæknirinn reynist vera strákur um þrítugt, klæddur gallabuxum og bol og hreint ekki galdramannslegur í útliti. Þegar ég spyr hvort hann sé “witch doctor” leiðréttir hann hálf- hikandi, segist vera “traditional healer”. Það litla sem ég hef lesið um afrískan galdur varpar litlu ljósi á muninn á þessu tvennu. Sú skoðun virðist vera að ryðja sér til rúms að “traditional healing” sé allt annað en galdur þar sem hefðbundnar lækningar feli ekki í sér fórnarathafnir eða beint samband við andana og sumir fræðimenn gera greinarmun á “traditional medicine” og “orthodox medicine”. Í landi þar semau fólk bíður í kílómetra löngum röðum eftir því að komast að hjá lækni væri ekki skynsamlegt að reyna að úthýsa öllum náttúrulegum aðferðum til þess að meðhöndla vægar sýkingar og lina verki. Það er því ekki undarlegt að innan alþjóðastofnana ríki ákveðinn vilji til þess að vinna að heilbrigðismálum í sátt við græðara.

Skýr aðgreining á græðara og töfralækni kemur þó ekki heim og saman við veruleikann, ekki frekar en fræðilegar skilgreiningar á galdri og trú sem ólíkum fyrirbærum. Hátt hlutfall almennings trúir því að illir andar séu ábyrgir fyrir geðsjúkdómum, flogaveiki og ýmiskonar ógæfu og starf græðara byggist á sömu trúarhugmyndum og starf töfralækna. Á  markaðnum eru alls kyns kraftaverkalyf sem reynast fullkomið feik og hér má sjá dálítið um það sem suður-afrískir græðarar segja sjálfir að þeir séu færir um. T.d.

Using our powers,we can send the ancestors/spirits to fetch you diamond,gold,and any precious items from anywhere in the world and have it delivered to your place within 30minutes.

Þetta fólk kallar sig ekki “witch doctors” heldur “traditional healers”. Mér sýnist í fljótu bragði að í Uganda séu mörkin álíka óljós og það að fólk kalli sig græðara fremur en töfralækna sé engin trygging fyrir því að aðferðir þess séu viðunandi. Það er ekki nema rúmt ár síðan leiðtogi meintra “græðara” varð uppvís að því að misnota aðstöðu sína til þess að hafa land af viðskiptavinum svo ég tek þessum merkimiðum með fyrirvara.

Græðarinn eða hvað sem maður kallar hann, selur heimatilbúin lyf (í krukkum sem líta ekki út fyrir að hafa verið sótthreinsaðar) og áhöld til að nota við helgiathafnir. kuðungaknippi, grímur, bjöllur og ílát gerð úr þurrkuðum “butter squash” graskerjum. Vöruúrvalið er frekar fátæklegt. Sölubásinn er minni en þessi á myndinni en alveg í þessum anda.

Langsokkur negrakóngur segist þurfa galdraráð til að losna við bumbuna. Töfralæknirinn á reyndar engin bumbuminnkunarlyf í augnablikinu en hann býður fram mixtúru sem á gera hvern mann að hinu mesta kyntrölli. Langsokkur segist nú ekkert hafa með slíkt að gera fyrr en hann finni konu. Helst úgandíska, að minnsta kosti svarta. Hún á að vera góð og falleg og algert skilyrði að hún sé góður kokkur segir Langsokkur. Töfralæknirinn sér fram á að með því að útvega honum slíka konu geti hann tryggt sér langtíma viðskipti ef hann komi sér upp stórum lager af bumbuminnkurnarmeðali. Hann dregur því fram apatað en það ku hentugt að brenna það til þess að seiða til sín konu. Ekki verður þó af kaupum í þetta sinn.

Við spyrjum töfralækninn út í trúarbrögð sín. Hann yppir öxlum. Þegar ég fer í jakkaföt er ég kristinn, segir hann en virðist ekki sérlega áfjáður í að ræða samband sitt við andana.

Í Úganda tíðkast mannfórnir, einkum barnsfórnir enn í dag og ég velti því fyrir mér hvort þessi ungi töfralæknir sem ég stend augliti til auglitis við hafi tekið þátt í mannfórn eða tekið við blóðgjöfum fyrir hönd andanna. Hann kallar sig “traditional healer” og virðist bara vera venjulegur sölumaður en hvað veit maður svosem? Ég efast um að gaurinn hér á myndinni líti neitt skelfilega út þegar hann er farinn úr vinnugallanum.

Deila færslunni

Share to Facebook