Ferð til Milton Keynes

Eynar þurfti að fara í fjögurra daga vinnuferð til í Milton Keynes sem er í svona hálftíma lestarferð frá London. Ég fór með þótt ég ætti svosem ekki annað erindi en að vera nálægt honum.

Við fengum okkur smá kaffi þegar við lentum í Luton

Við höfum ekki oft borðað á breskum veitingahúsum því nóg er af ítölskum, spænskum og indverskum veitingahúsum í Glasgow, svo er fjölmenningunni fyrir að þakka. En nú erum við búin að lifa á breskum mat alla vikuna og ég hlakka svo til að borða mat sem ég hef eldað sjálf að ég hef bara átt í vandræðum með að halda mig frá eldhúsinu í dag.

Ég vissi að Bretar hafa ævintýralega hæfileika til að eyðileggja gott hráefni en ég gerði mér ekki grein fyrir því fyrr en í þessari ferð að það væri hægt að gera hrærð egg algerlega bragðlaus. Við fengum hrærð egg í morgunmat fyrsta daginn og mér dettur helst í hug að annarri hverri rauðu hafi verið hent og restin hrærð út í vatni. Við pöntuðum þau ekki aftur.

Á einu veitingahúsi sem við borðuðum á voru nýru í sósu á matseðlinum og ekki nóg með það heldur sá ég fólk panta sér þau og borða með bestu lyst. Ég eldaði stöku sinnum nýru þegar strákarnir voru litlir en bara vegna þess að ég var fátæk. Fátæklingar taka slátur og innmaturinn fylgdi slátrinu og ekki vill maður fara til Helvítis fyrir að henda mat. Ég hakkaði innmatinn og bjó til bollur úr honum. Það er hægt að fela hlandbragðið af nýrunum næstum alveg með miklu kryddi. Þetta var alveg ætt en ég myndi aldrei biðja um nýru, hvað þá á veitingastað. Reyndar ekki hrútspunga eða súran bringukoll heldur.

Hótelið okkar var annars mjög huggulegt. Við gleymum alltaf að taka myndir en ég fann þessa á netinu.

Þessi notalegi sveitapöpp „Ye Olde Swan“ er alveg rétt hjá hótelinu. Ég fékk mér hamborgara þar. Hef einu sinni áður fengið mér hamborgara á breskum matsölustað. Í bæði skiptin fékk ég kjötbollu í hamborgarabrauði en í þetta sinn fylgdi reyndar matskeið af sósu með í dollu til hliðar og ein tómatsneið og örræma af salati var inni í brauðinu. Bragðaðist ágætlega en ég vil frekar hafa hamborgarabuff flöt.

Einu myndirnar sem við tókum voru af þessum smekklegu lömpum í arinstofu hótelsins. Ætti maður að fá sér breskan innanhússarkítekt?

Deila færslunni

Share to Facebook