Hvunndagsblogg

Hér á ég heima. Við búum á 8. hæð og þetta er útsýnið út um stofugluggann. Beint á móti er skipasmíðastöð og ég sé nú ekki alveg fegurðina í henni en Eynari finnst hún æðisleg. Þetta er fullkomið, við sitjum bara þannig að hann sjái skipasmíðastöðina en ég þennan huggulega hluta sem sést á myndinni. Hún er tekin síðasta sumar og nú eru trén nakin. Engu að síður er dásamlegt að horfa yfir ána á meðan maður drekkur morgunkaffið. Eynar er búinn að koma mér upp á almennilegt cappuccino og ég hef ekki drukkið skyndikaffi síðan í nóvember.

Ég átti von á að veðurfarið væri hundleiðinlegt á þessum árstíma en þessar rúmu tvær vikur sem ég hef verið hér hefur alltaf utan einu sinni verið blankalogn einhvern hluta dagsins og yfirleitt hlýtt. Við búum við göngugötu sem liggur meðfram ánni og verðum aldrei vör við bílaumferð. (Sjá mynd hér til hliðar.) Sjö mínútna gangur í lestarstöð og bæjarkjarna með helstu verslunum og þjónustu. Sjö mínútna ferð með lestinni í miðbæinn.

Ef marka má bæjarkjarnann næst hverfinu okkar eru borgarbúar að jafnaði veikir, í fjárhagsvandræðum og gífurlega uppteknir af hárinu á sér. Allavega er allt fullt af apótekum, veðlánurum, nytjamörkuðum og hárgreiðslustofum. Stutt í söfn, ég er þegar búin að skoða tvö söfn og svo er pöbb sem var einu sinni kirkja í göngufæri og einnig skrúðgarður. Við fórum þangað daginn eftir að ég kom út og það er allt fullt af útsprungnum blómum.

 

     

Íbúðin er fín. Stór, opin, björt, snyrtileg, öll tæki fullkomin. Gestaherbergi og við erum meira að segja með baðkar.

Húsgögnin eru reyndar heldur stílhrein til að teljast heimilisleg, við erum sammála um það eins og flest annað sem máli skiptir og eigendurnar hafa hörmulegan smekk hvað varðar myndlist og skrautmuni. Ef við ákveðum að vera hér til frambúðar sækjum við væntanlega eitthvað af búslóðinni minni til Danmerkur og finnum eitthvað huggulegra á veggina. En þetta er fínt í bili. Eiginlega bara sultufínt.

Deila færslunni

Share to Facebook