Fyrstu vikuna í júní greindu fjölmiðlar frá óhugnanlegu sakamáli. Karlmaður í Egyptalandi er grunaður um að hafa blekkt dætur sínar þrjár til að undirgangast kynfærabrottnám. Hann mun hafa fengið þær undir hnífinn með því að segja þeim að þær væru að fara í bólusetningu gegn kórónuveirunni. Stúlkunum var svo gefið deyfilyf i æð og aðgerðir framdar á þeim án þess að þær fengju nokkuð um það að segja eða neinar upplýsingar um það fyrr en eftir á. Upp komst um málið þegar móðir stúlknanna gerði lögreglu aðvart eftir að stúlkurnar sögðu henni frá því hvað faðir þeirra hefði gert þeim, en þau eru skilin.

Kynfærabrottnám var gert refsivert í Egyptalandi árið 2016 en hafði þá verið bannað án viðurlaga í átta ár. Læknar sem fremja slíkar aðgerðir eiga nú yfir höfði sér allt að 7 ára fangelsi og refsiramminn fyrir að fara fram á slíka aðgerð er þrjú ár. Enginn hefur þó ennþá verið sakfelldur á grundvelli laganna og kvenréttindasamtök í Egyptalandi segja að illa gangi að framfylgja banninu.

Samkvæmt rannsókn sem gerð var árið 2016 hafði kynfærabrottnám þá verið framið á 87% egypskra kvenna á aldrinum 15-49 ára. Jafnt kristnir menn sem múslímar í Egyptalandi halda í þesssa hefð. Haft er eftir talsmönnum kvenfrelsishreyfinga að viðbrögð yfirvalda við máli systranna veki von um að viðhorfin séu að breytast. (Sjá t.d. umfjöllun Al Jazeera)

Einnig í Evrópu

Í dag eru 200 milljónir stúlkna og kvenna í heiminum fórnarlömb kynfærabrottnáms. Langflestar eru skornar fyrir 15 ára aldur og algengt er að aðgerðin sé framin áður en barnið nær grunnskólaaldri. Um allan heim berjast konur gegn umskurði og kynfærabrottnámi kvenna en vandinn felst ekki síst í því að stór hluti fórnarlambanna eru einnig ábyrg fyrir þessum viðbjóðslega glæp gagnvart dætrum sínum, frænkum og börnum nágranna.

Og það er ekki aðeins í ríkjum þar sem kynfærabrottnám er talið sjálfsagt sem það viðgengst. Samkvæmt nýútkominni skýrslu hefur konum sem hafa verið beittar þessu ofbeldi fjölgað um 44% í Þýskalandi frá árinu 2017. Ástæðan fyrir þessari aukingu er einkum fjölgun innflytjenda frá svæðum þar sem kynfærabrottnám tíðkast. Um 68 þúsund fórnarlömb þessarar villimannslegu venju búa nú í Þýskalandi. (Sjá t.d. hér)

Það merkir ekki að 68 þúsund slíkar aðgerðir hafi verið framdar í Þýskalandi. Vitaskuld koma margar konur til Evrópu eftir að þær eru skornar. Engu að síður er töluvert um að stúlkur sem hafa alist upp í Evrópu séu sendar til Miðausturlanda eða Afríku og snúi til baka skornar. Einnig eru dæmi um að þessi svívirða fari fram í heimahúsum í Evrópu. Í Þýskalandi einu saman er talið er að nær 15 þúsund stúlkna séu í hættu.

Rasísk réttlæting

Fréttir sem þessar eru vatn á myllu rasista sem vilja hindra aðgang fólks frá hinum fátækari svæðum jarðar að vestrænum ríkjum. Ein rökin fyrir mannfjandsamlegri innflytjendastefnu eru þessi: „Við viljum ekki innleiða þessa menningu hér“. Þeir hinir sömu hafa auðvitað engar áhyggjur af því að áhrifavald innflytjenda sé slíkt að hætta sé á að Þjóðverjar, Bretar og Svíar taki upp á því að skera undan dætrum sínum. Við, þessi siðmenntuðu, viljum bara ekki að glæpir sem þessir séu framdir innan okkar lögsögu – þeir sem vilja misþyrma dætrum sínum geta gert það heima hjá sér.

Mynd: REUTERS/James Akena (UGANDA)

Augljóslega á stúlka sem elst upp í Vestur Evrópu meiri möguleika á að sleppa en sú sem elst upp í Sómalíu eða Indónesíu. Kynfærabrottnám og aðrir glæpir sprottnir úr menningu þar sem almenn upplýsing er á steinaldarstigi eru mun frekar rök með því að taka á móti innflytjendum en á móti. Frelsi til að flytjast milli heimshluta felur vitaskuld ekki i sér afslátt af skyldu til að hlíta landslögum og það er enginn rasismi í því fólginn að skikka innflytjendur til að læra dálitið um menningarmun og landslög – það er öllu heldur sjálfsagður þáttur í því að bjóða fólk velkomið inn í nýtt samfélag að sjá því fyrir slíkri fræðslu. Rétt viðbrögð við glæpsamlegum hefðum eru ekki þau að loka á fólk sem líklegt er til að viðhalda þeim og verða fyrir þeim, heldur eigum við að sýna sömu viðbrögð og við öðrum glæpum: Gera það sem hægt er til að fyrirbyggja þá og sækja þá til saka sem eiga þátt í þeim.

Rökin „við viljum ekki svona fólk nálægt okkur“ byggja ekki á andúð á glæpum eða samúð með börnum sem sæta ofbeldi. Ef það væri velferð barna sem fólk sem notar þessa réttlætingu hefði í huga, þá væri rökréttara að segja „við viljum endilega hafa þetta fólk nálægt okkur svo við getum fylgst með því og gripið inn í áður en það fremur voðaverk.“ Hugsunin virðist fremur vera sú að fólk sem er líklegt til að skaða börnin sín sé vestrænu samfélagi óboðlegt. Hryllingurinn sem bíður stúlkubarna í löndum þar sem þessar aðgerðir viðgangast refsilaust virðist algert aukaatriði. Við erum þannig ekki bara of góð fyrir þá sem beita ofbeldi og kúgun, heldur erum við líka of merkileg fyrir þá sem verða fyrir því.

Prófum að segja það upphátt

Stöldrum aðeins við og reynum að átta okkur á þessu til fulls. Prófum svo að segja það upphátt:

Stúlkubarn frá Súdan eða Sómalíu verðskuldar ekki vernd gegn menningu þar sem kynfærabrottnám viðgengst – af því að siðferðilegir yfirburðir okkar eru svo stórkostlegir að við eigum ekki að þurfa að þola glæpi innan okkar lögsögu.

Þessu tengt: