Þegar ég var lítil fannst mér Öxar- við ána furðulegt kvæði og alls óviðeigandi að lúðrasveitin flytti það á jafn hátíðlegum degi og 17. júní. Þótt hugrenningar mínar um samhengið væru þokukenndar og merkingin skýrðist smám saman er fyrsta vitræna túlkunin sem ég man eftir á þessa leið:

Ég hélt að öxar væru uxar og sá fyrir mér uxahjörð að svala þorsta sínum í á, snemma að morgni. Rís þá ekki skyndilega upp þjóðlið og skipast í sveit. „Lið“ var í mínum huga hópur óknyttaunglinga. Þetta þjóðlið var greinilega morgunsvæft að eðlisfari en þó hafði einhver tekið að sér að rífa það upp á rassgatinu og skipa því að drífa sig út í sveit. Sumarfríið náttúrulega löngu byrjað og ekki seinna vænna að koma liðinu í sveitina. Með beinni skipun, ekki dugðu vinsamleg tilmæli.

Nema hvað, þegar liðið loksins er komið í sveitina, þá fer það ekki að binda heybagga eða sinna uxunum við ána, heldur fer það í byssuleik með pappaflöggunum sínum. – Skjótum með fána. – Augljóst var að liðið hefði langað meira að vera í bænum á 17. júní og veifa fánum.

Jæja, upp með blístrurnar, skært lúðrar hljóma, ég heyrði reyndar ekki fyrir mér lag heldur lagleysu, ærandi hávaða frá 15 hávaðabelgjum sem kunna ekki á hljóðfærin og er alveg sama.

Því næst skunda öll þessi reykvísku vandræðabörn úr sveitinni og austur á Þingvöll. Þar sem ég vissi að það að treysta heit sín merkti að standa við loforð sín, (gott ef ég spurði ekki sérstaklega um það þegar ég var að velta kvæðinu fyrir mér) hlaut það að þýða að þetta þjóðlið, götukrakkarnir úr bænum, hefðu lofað bót og betrun og ætluðu nú að fara á lappir á morgnana, hætta að reykja og yfirhöfuð að hegða sér eins og siðað fólk.

Unglingagengið lofar þessu hátíðlega; fram fram aldrei að svíkja. Það tekst þó ekki betur til en svo að liðið er ekki fyrr komið á Þingvöll en að það slær hring (tökum saman höndum) um aðra gesti á Þingvöllum, þjóðina sjálfa, efnir til einhverskonar keppni, og vinnur svo keppnina með því óþokkabragði að stríða keppinautunum.

Nokkrum árum síðar, þegar meginhluti merkingarinnar var kominn til skila, fannst mér skáldið hafa klikkað illa á ástkæra, ylhýra í síðustu línunni, stríðum, vinnum vorri þjóð. Stríðum vorri þjóð virtist rökrétt en svo kom þetta vinnum. Stríðum, vinnum vora þjóð, átti það auðvitað að vera.

Líklega var þetta svona „skáldaleyfi“, svipað og stóð ég úti í tunglsljósi, stóð ég úti í skóg. Ég vissi auðvitað að það átti að vera skógi, það sagði hún móðir mín og ekki laug hún. En skáld máttu allskonar, bæði af því að textinn þurfti að falla að laginu og það gat verið vesen að finna rímorð og svo líka af því að þannig er það bara í skáldskap, sagði amma. Ég treysti reyndar minni eigin dómgreind betur þegar hún hélt því fram að býð ég öllum úr sveitinni/langömmu heillinni slyppi þar sem heillin og öllum væri nokkurskonar rím. Það var hægt að umbera undarlegar beygingar, og það var undarleg hugmynd að bjóða langömmu heitinni í partý, en rímleysur komu ekki til greina, þarna var einfaldlega á ferðinni vont skáld.

Annars fyrirgaf ég skáldum málvillur öðrum fremur, þótt ég væri hinn mesti málfarsfasisti frá unga aldri, því eitthvað var guðdómlegt við skáldskapinn, í það minnsta voru vegir hans órannsakanlegir. Sú fyrirgefning var þó háð því skilyrði að kvæðið væri að öðru leyti áheyrilegt. Mér fannst Öxar- við ána ekki skána að ráði þótt það rynni á endanum upp fyrir mér að vinnum vorri þjóð var málfræðilega í góðu lagi eftir allt saman.

Þessu tengt: