Þessvegna er sænska leiðin röng – Giesecke svarað 1. þáttur

Johan Giesecke, ráðgjafi sænskra stjórnvalda um viðbrögð við kórónuveikinni, telur að ráðgjöf hans hafi verið til fyrirmyndar. Hér er viðtal við hann og stutt samantekt á helstu röksemdum.

Við þær er margt að athuga. Við skulum skoða viðtalið – hvern punkt fyrir sig. Hér er sá fyrsti:

Sú stefna Bretlands og fleiri Evrópuríkja að beita lokunum og samkomutakmörkunum er ekki byggð á vísindum

Var yfirhöfuð hægt að byggja á vísindum?

Giesecke er ekki eini vísindamaðurinn sem hefur bent á að ákvarðanir um lokanir og samkomubann voru ekki teknar á grundvelli gagna. Ég nefndi John P.A. Ioannidis,  einn boðbera hjarðónæmisstefnunna í þessum pistli en hann tekur einmitt í sama streng. Ákvarðanir um umgengnistakmarkanir voru ekki teknar á grundvelli gagna, einfaldlega vegna þess að það liggja ekki fyrir nein gögn sem hægt var að styðjast við.

En það merkir ekki að ákvarðanir hafi verið teknar út í loftið. Einhver þekking er til sem gerir mögulegt að spá því að tilteknar aðgerðir muni hafa einhver áhrif, þótt ekki sé nákvæmlega vitað hversu mikil. Þessir virtu sérfræðingar virðast líka horfa fram hjá þáttum eins og almennri skynsemi og siðferði.

Er sænska leiðin byggð á betri gögnum?

Þegar Johan Giesecke ráðlagði sænskum stjórnvöldum að reyna ekki að hefta útbreiðslu veirunnar heldur hlífa bara þeim gömlu og veiku, vissi hvorki hann né neinn annar hvaða ógn var á ferðinni. Hann vissi ekki hvort dánarhlutfallið yrði sáralítið eða mjög hátt, einu tölurnar sem tiltækar voru bentu til þess að það gæti verið yfir 3%. Við vitum reyndar sáralítið enn. Vísindamenn vissu að hjarðónæmi myndast þegar sjúkdómur breiðist út. En vissu Svíar eitthvað meira um það en aðrir hver fórnarkostnaðurinn yrði? Vissi Giesecke hversu margir myndu deyja, hversu margir missa heilsuna? Nei. Hann vissi það ekki.

Hvað gerir þú ef þú telur ógn steðja að en hefur ekki sannanir fyrir því að varúðarráðstafanir hafi tilætluð áhrif? Myndir þú nota öryggisbúnað sem hefur ekki verið prófaður frekar en engan eða þarftu sannanir til reyna allavega að vernda líf og limi? Ef þú sérð barn setja upp í sig einhvern smáhlut sem gæti verið sælgætismoli, smámynt eða batterí, ætlarðu þá að íþyngja barninu – kannski að óþörfu – með því að vaða upp í það og fjarlægja hlutinn áður en það kyngir? Eða ætlarðu að bíða og sjá til af því að sennilega var þetta bara nammi?

Siðlega leiðin

Auðvitað erum við að tala um afdrifaríkari ákvarðanir en þessar. Meira en helmingur jarðarbúa býr nú við einhverskonar samkomutakmarkanir og margir við útgöngubann. Það er ekki sambærilegt við það að nota öryggisbelti sem gæti verið ónýtt. En hugsunin að baki er sambærileg – þegar mikið er í húfi þá reynum við að fyrirbyggja skaða. Þá gerum við ráð fyrir því að það versta gæti gerst og notum þær varúðarráðstafnir sem þó eru tiltækar. Kannski duga þær ekki en við reyndum þó.

Tilmæli WHO (Alþjóðaheilbrigðismálastofnunarinnar) um aðgerðir til að hefta útbreiðslu veirunnar eru ekki byggðar á umgangsmiklum gögnum. Þau eru byggð á rökstuddum grun um að svo mikill fjöldi fólks gæti veikst að það yrði heilbrigðiskerfum mjög margra landa ofviða. Sem aftur myndi leiða til þess að margir létu lífið sem hægt væri að bjarga.

Í þessu tilviki hlustuðu forsvarsmenn WHO ekki á Giesecke, ráðgjafa framkvæmdastjórans, heldur á samvisku sína og almenna skynsemi. Ef í ljós kemur að sænska leiðin leiði af sér minni hörmungar þá er það fínt fyrir Svía. En ákvörðun um að láta óþekkta veiru grassera – bara af því að við höfum ekki pottþéttar sannanir um áhrif þess að reyna að halda henni í skefjum – sú ákvörðun er jafn ósiðleg, hver sem útkoman verður.