Ég man nú ekki hvernig það kom til en í gær fór ég að velta því fyrir mér hvort væri hægt að klæmast á sænsku eða hvort það yrði alltaf frekar hallærislegt. Enn hefur enginn klæmst við mig á Norðurlandamálum en norrænar klámmyndir heita „Hopsasa på sengekanten“ eða eitthvað í þá veru. Það er mjög erfitt að taka slíkt alvarlega.

Eynar fullyrti að sænskan færi ljómandi vel við hvers kyns fallerí en ekki gaf hann mér þó neitt dæmi því til stuðnings. Ég gekk heldur ekki eftir því. Eynar bjó í Svíþjóð í 15 ár og er með mjög vafasamar hugmyndir um notagildi tungumálsins eftir þá reynslu. Ég er ekki viss um að mig langi að heyra hann klæmast á sænsku. Mig langar hinsvegar að komast að því hvort hann hefur rétt fyrir sér svo ég bar vandamálið undir þjóðarsálina á facebook.

Nú er ég ekki sleip í sænsku og alls ekkert inni í klámi, hvað þá sænsku klámi, en af því sem netverjar lögðu til umræðunnar reiknast mér að það sem telst gjaldgengt dónatal í ríki Svía sé eitthvað á borð við: Jag är kåt, så jag vill knulla din glittrande fitta med min stora kuk.

Ég tengi nú kátínu ekki beinlínis við losta en ef maður er fyrir „hopsasa på sengekanten“ er viðeigandi að leika á als oddi. Þeir eru miklir gleðipinnar, þessir Skandínavar. „Glittrande fitta“ er alveg í stíl. Hljómar eins og daman hafi hellt glimmer yfir dýrðina á sér og vantar bara nokkur lauflétt jólalög til að fullkomna stemninguna. Það hlýtur að vera til sænsk útgáfa af Jingle Bells. „Knulla“ hljómar líka frekar frekar hýrlega – áramóta knall er það fyrsta sem mér dettur í hug. Mætti kannski syngja Knulla mig í stað Jingle Bells. Kátínan er þó ekki það eina sem stendur í þjóðarsálinni. Sumum netverja finnst „kuk“ vera fráhrindandi af allt annarri ástæðu en þeirri að jólaballsstemningin sé yfirþyrmandi.

Google translate ræður ekki við almennilegt klám á borð við: Lof mér að brynna fola mínum í ölkeldu þinni. Það er mikill skaði því auk þess að ráða yfir fögrum hljómi og myndmáli var Bósi greinilega búinn að læra fáðu-já-regluna, sem verður að teljast alger nauðsyn í gjaldgengu dónatali þessi árin. Orðið „foli“ er álíka heppilegt í þessu samhengi því þótt það hafi kannski vísað til graðhests á tímum Bósa vekur orðið öllu krúttlegri hugrenningartengsl á okkar tímum. En þegar Gúggull vinur minn bregst þá reynir maður bara sjálfur. Ef maður kann ekki baun í sænsku og markmiðið er að forðast knöll og kátínu, glitrandi fíttur og kuk verður útkoman þessi; Jag er lustfyllda, så var nu så snälla att tillåta mig att vatna min kära lilla pony i din ölkälla.

Hversu sexý er það?