Þegar Glitnir auglýsti námsmannaþjónustu sína með því að ráðleggja ungu fólki að taka yfirdráttarlán til þess að eiga bæði fyrir bjór og bakkelsi gekk fram af mér. Þann 9. september 2006 sendi ég Glitni, því skítafyrirtæki svohljóðandi bréf:

Allsstaðar nema á Íslandi er sparnaður sjálfsagður hluti af lífinu. Fólk kemur sér upp sínum eigin lífeyrissjóði, sparar fyrir háskólanámi barnanna sinna, safnar fyrir sumarfríinu.

Á Íslandi er þetta öfugt. Hér byrjar fólk að setja sig í skuldir áður en það verður fjárráða. Bankarnir bregðast glaðir við og auglýsa yfirdrátt, tölvukaupalán, jafnvel bílakaupalán án ábyrgðarmanna, fyrir námsmenn.

Í stað þess að halda uppi forvörnum gegn landlægum hálfvitahætti á sviði fjármála, þá leyfum við Íslendingar fjármálastofnunum að ginna ungmenni til að taka neyslulán.

Ég tilkynni hér með óskir mínar um að þið drulluháleistar, sem eruð ábyrgir fyrir námsmannaauglýsingum Glitnis, fáið tannpínu, flatlús og þvagleka og að börnin ykkar kaupi fokdýra bíla á 100% lánum og aki þeim á einhverja helvítis marmaragarðstyttu eða eitthvað annað óbætanlegt sem ykkur þykir vænt um.

Bestu kveðjur
Eva Hauksdóttir

Uppfært: Ég fann ekki þessar auglýsingar frá 2006 á netinu en þessi hér að neðan felur í sér svipaða fjármálamálakennslu