Öndvegissúlur Ingólfs rak á land í Reykjavík og þar með hófst landnám Íslands. Frelsisþráin rak göfugustu menn Noregs til þess að sigla til eyjarinnar bláu í norðrinu og nema þar land. Þræla höfðu þeir vitaskuld og þá helst írska, en þeir fengu nú fljótt frelsi, í það minnsta fer litlum sögum af þrælahaldi nema hjá fyrstu kynslóð í landinu. Og höfðingjarnir stofnuðu Alþingi og fóru í víking og ortu drápur á milli þess sem þeir dunduðu sér við að höggva nágranna sína í herðar niður, ekki síst að undirlagi kvenskörunga, skráðu sögur og fræði á kálfskinn og urðu þjóð.

Eða var þetta kannski ekki alveg svona?

Fornleifafundir benda til þess að á Íslandi hafi menn haft fasta búsetu nokkru áður en Ingólfur og félagar settust þar að en við vitum ekki nákvæmlega hvenær þeir fyrstu námu land á Íslandi. Hvað fólk var eiginlega að vilja til Íslands er ekki síður ráðgáta. En kannski er það að skýrast. Bergsveinn Birgisson, hefur eftir meira en 20 ára rannsóknir á sögu landnámsmannsins Geirmundar heljarskinns, komist að þeirri niðurstöðu að fyrstu landnámsmenn á Íslandi hafi verið rostungaveiðimenn, fremur en bændur, kaupmenn fremur en hermenn, kapítalistar fremur en frelsishetjur.

Hver var þessi Geirmundur heljarskinn? Við þekkjum nafnið en fæst okkar vita neitt um hann. Samt er saga hans er áhugaverðari en saga flestra annarra víkinga.

Geirmundur og tvíburabróðir hans, Hámundur heljarskinn, voru konungssynir, fæddir í Rogalandi í Noregi. Móðir þeirra, Ljúfvina drottning, var af asískum uppruna en faðir þeirra, Hjör konungur hafði tekið hana sér að eiginkonu til þess að treysta viðskiptasambönd sín við veiðimenn á Norðurslóðum. Þegar Ljúfvina sá drengina óttaðist hún að konungi myndi ekki líka útlit þeirra, svo hún skipti við hvíta ambátt sína, fékk henni drengina til fósturs en ól sjálf upp hvítan son ambáttar sinnar sem sinn eigin.

Þannig hófst líf svarta víkingsins. Drengs af mongólskum uppruna sem síðar var tekinn inn í konungsfjölskylduna, dvaldi um tíma meðal frumbyggja á Bjarmalandi og lærði þar rostungaveiðar og fór löngu síðar fyrir fyrsta leiðangri rostungsveiðimanna til Íslands.

Ótrúleg saga? Já, hún er ótrúleg. En eftir að hafa lesið bók Bergsveins Birgissonar um leit hans að svarta víkingnum, finnst mér það hreint ekki ótrúlegra en að norskir höfðingjar hafi, af einskærri frelsisþrá, dembt börnum sínum og búsmala upp í opin tréskip og yfirgefið jarðir sínar í Noregi, til þess að gerast bændur á þessu óbyggilega grjótskeri. Það hlýtur að hafa verið eitthvað meira en vonin um sjálfstæði sem togaði í þá og reyndar ótrúlegt að þeir hefðu komið stórum bústofni fyrir á skipunum. Kannski var það gróðavonin, ásókn í dýrmæta auðlind, sem rak þá af stað.  Kannski voru landnemarnir norskir útrásarvíkingar, sem rétt eins og auðmenn nútímans voru frumkvöðlar sem byggðu veldi sitt á útsjónarsemi og þekkingu sem aðeins fáir höfðu yfir að ráða, en um leið á pólitískum tengslum, misneytingu valds og gegndarlausri rányrkju.

Myndskeið sem notað var til kynningar á sýningu um sögu Geirmundar sem sett var upp á Ögvaldsnesi í Rogalandi eftir útkomu bókarinnar í Noregi.

Leitin að svarta víkingnum er komin í búðir. Bókin er afrakstur áratuga rannsókna, ekki aðeins á sviði fornbókmennta og sagnfræði heldur styðst höfundur einnig við rannsóknir á sviði fornleifa, erfðafræði og málfræði svo nokkuð sé nefnt. Við fáum innsýn í hugarheim dróttskáldsins, smíði víkingaskipa, uppeldi höfðingjasona á víkingaöld, líf frumbyggja á Norðurslóðum, pólitísk átök í kringum þrælasöluna í Dyflinni, lýsisgerð, rostungaveiði og ekki síst – mun áhugaverðari kenningu um landnám Íslands en þá sem enn er kennd í grunnskólum landsins. Þetta er einstök bók, sem brúar bilið milli fræðirits og skáldsögu, fræðibók sem er svo létt og skemmtilega framsett að hún hentar leikmönnum sem yndislestur. Leitin að svarta víkingnum hefur farið sigurför um Noreg og er nú loksins komin út í íslenskri þýðingu.