Ég er búsett erlendis en þarf helst að hafa bankareikning á Íslandi.

Í dag þegar ég fór í banka til að stofna reikning var mér sagt að þar sem ég væri útlendingur mætti ég ekki opna bankareikning á Íslandi nema sanna fyrst að ég væri ekki að því til að stunda peningaþvætti. Til þess að sanna það þarf ég að sýna fram á búsetu mína. Bretar eru ekki með þjóðskrá eða kennitölur en mér var sagt að ég gæti fært sönnur á heimilisfang mitt með því að sýna leigusamning eða rafmagnsreikning með nafninu mínu.

Ég er óskaplega þakklát fyrir að hafa þetta öfluga fjármálaeftirlit sem gengur út frá því að maður sé glæpamaður þar til annað kemur í ljós og hefur svona pottþéttar aðferðir til þess að ganga úr skugga um sakleysi manns. Ef ég hefði nú í alvöru í hyggju að stunda peningaþvætti þá yrði ég bara að hætta við, þar sem útilokað er fyrir glæpóna að verða sér úti um rafmagnsreikning í Bretlandi.

Nú eru mínar aðstæður þannig að ég borga ekki leigu eða húsnæðislán, rafmagn eða hita í Bretlandi. Það er maðurinn minn sem sér um það. Við höfum hingað til talið okkur fær um að vera góð við hvort annað án bjúrókrasíu, og höfum því ekki óskað eftir blessun yfirvaldsins hvorki hins geistlega né hins veraldlega. Þetta fyrirkomulag, að fólk búi saman án þess að gera yfirvöldum aðvart, virðist vera með öllu óþekkt á Íslandinu góða og þessvegna ekki nóg að framvísa rafmagnsreikningi með nafni míns heittelskaða. Því verður ekki annað séð en þetta merki að íslenskir ríkisborgarar, búsettir erlendis, sem eru á framfæri maka síns (eða einhvers annars) án þess að framfærsluskylda sé innsigluð af yfirvaldinu, séu þar með búnir að fyrirgera sér rétti sínum til bankaþjónustu á Íslandi.

Nú bíð ég eftir svari um það hvort fjármálaeftirlitið líti á pappíra frá bresku heilbrigðisþjónustunni sem staðfestingu á því að ég búi þar. Það kemur ekki til greina af minni hálfu að leyfa yfirvaldinu að skilgreina rétt minn og skyldur gagnvart manninum mínum svo ef það dugar mér ekki að hafa farið til læknis í Bretlandi (sem er engin sönnun um búsetu því ég hef aldrei verið krafin um neitt því til sönnunar að ég búi þar) þá sé ég eftirfarandi möguleika í stöðunni:

  1. Ég sem við fólkið á neðri hæðinni um að skrá rafmagnið þeirra á mig í tvo mánuði og framvísa rafmagnsreikningi í bankanum.
  2. Ég geri formlegan leigusamning við manninn minn og framvísa honum sem vottorði um að ég sé ekki í peningaþvætti.

Þar sem tekjur mínar duga mér ekki til framfærslu gæti orðið erfitt að útskýra það fyrir skattinum hvernig ég geti borgað leigu eða rafmagn. Nú veit ég hreinlega ekki hvort ég gæti sagt mig til sveitar í Bretlandi, en það er annar möguleiki í stöðunni: Maðurinn minn gæti gert við mig formlegan samning um hreingerningarþjónustu, matreiðsluþjónustu og kynlífsþjónustu og borgað mér laun, sem nema þeirri upphæð sem ég myndi borga honum í leigu. Þetta hljómar eins og brilljant lausn því þar með gæti ég opnað bankareikning á Íslandi.

Það er bara eitt sem veldur mér áhyggjum. Nú hefur bandarískur kynjafræðiprófessor upplýst að hamingja karla í hjónabandi velti á því að þessi þjónusta sé ókeypis. Fyrir nokkrum vikum lifði ég í þeirri sælu blekkingu að hann Eynar minn væri svona hamingjusamur með mér af því að hann elskaði mig svo mikið og þætti ég svo skemmtileg. En nú er sannleikurinn semsagt kominn í ljós. Hann er svona glaður af því að hann þarf ekki að borga. Það segir bandarískur kynjafræðiprófessor svo það hlýtur að vera rétt. Þannig að ef ég krefst þóknunar, til þess að geta greitt manninum mínum leigu, til þess að geta sannað að ég stundi ekki peningaþvætti, til þess að geta opnað bankareikning á Íslandi, til þess að geta fengið laun sem reyndar nægja mér ekki til framfærslu; þá er hætt við að sambandið fari út um þúfur.

Raunhæfasta lausnin á þessum vanda virðist því vera sú að ég láti leggja þá smáaura sem mér áskotnast inn á reikning mannsins míns enda getur hann sýnt rafmagnsreikning til sönnunar því að hann sé enginn bófi.