Malín Brand sagði frá reynslu sinni af söfnuði Votta Jehóva í DV fyrir rúmu ári. Í viðtalinu lýsir hún því hvernig söfnuðurinn stuðlar að félagslegri einangrun. Hún segir einnig frá bannfæringunni sem hún varð fyrir þegar hún fór að skoða trúna með gagnrýnum augum, en bannfæringin fellur fullkomlega að skilgreiningum flestra skóla og vinnustaða á einelti.

Þann 9. apríl síðastliðinn birti svo Valdís Rán Samúelsdóttir grein á Speglinum þar sem hún lýsir reynslu sinni af trúfélagi. Hún nefnir ekki söfnuðinn en samkvæmt öðrum fréttum af trúarleiðtoga sem predikar að menn skuli ekki bjóða syndinni í kaffi, mun Valdís Rán hafa verið virkur meðlimur í Krossinum. Greinin fór fram hjá mér þegar hún birtist en mér var bent á hana í morgun og hún er ekki síður sláandi en sú reynsla sem Malín lýsir. Kvennakúgun, refsihyggja, hræðsluáróður, miðaldaheimsmynd, forheimskun, valdníðsla og almennt mannhatur eru meðal þeirra orða sem komu upp í huga minn við lesturinn.

En sú sem vakti athygli mína á grein Valdísar Ránar benti líka á annað sem ég hef ekki leitt hugann að lengi; því að trúfélög fá framlög úr ríkissjóði. Þetta er venjulega kynnt á þann veg að ríkið taki að sér að innheimta sóknargjöld en reyndin er auðvitað sú að framlögin koma frá öllum skattgreiðendum, hvort sem þeir tilheyra trú- eða lífsskoðunarfélögum eður ei.

Þetta þýðir að ríkið styrkir starfsemi félaga sem ala á ótta við andaverur og ráða meðlimum sínum (fólki sem óttast andaverur) frá því að leita sér geðlækninga. Félaga sem ástunda grímulaust einelti. Félaga sem úthýsa samkynhneigðum og ástunda alvöru kvennakúgun. Við erum ekki að tala um veggspjald með mynd af kyssilegum munni eða ósmekklegan brandara, heldur kerfisbundna kúgun með ströngum reglum um hegðun og klæðaburð ásamt yfirlýstri stefnu um að konur skuli vera körlum undirgefnar.

Umræðan um Snorra í Betel leiddi í ljós að mikill fjöldi manns telur eðlilegt að kennari sé rekinn úr starfi fyrir að tjá fullkomlega löglegar skoðanir á blogginu sínu. Það stenst auðvitað ekki lög og ég hef áður lýst þeirri skoðun að Akueyrarbær hafi orðið sér til skammar með tiltækinu. En af hverju umber sama samfélag það að skattgreiðendur séu látnir greiða styrki til þeirra sem láta sér ekki nægja að lýsa klikkuðum skoðunum, heldur fylgja þeim eftir með andlegu ofbeldi gagnvart kornungu fólki og jafnvel fólki á barnsaldri?

Einhverjir munu mótmæla því að hér sé um ríkisstyrki að ræða, þetta séu aðeins félagsgjöld. Gott og vel, við getum kallað það félagsgjöld en er það virkilega sæmandi að ríkið hafi milligöngu um að innheimta félagsgjöld fyrir djöflafræðinga?

Uppfært: Samkvæmt upplýsingum frá fjármálaráðherra innheimtir ríkissjóður ekki lengur sóknargjöld. Framlög til trúfélaga eru einfaldlega styrktarfé.