Gagnrýni mín á feminisma í Silfri Egils síðasta sunnudag hefur vakið miklu meiri athygli en ég átti von á. Ég hef aðallega fengið góð viðbrögð en einnig dálitla gagnrýni. Gagnrýnina má draga saman í eftirfarandi staðhæfingar:

Þetta var drottningarviðtal þar sem viðmælandi fékk enga gagnrýni eða mótrök.
Þetta er alveg rétt en einstaklingsviðtölum í umræddum þætti er ekki ætlað að vera neitt annað en drottningarviðtöl og það er athyglisvert að fyrst nú skuli það vera álitið vandamál. Ég hef hinsvegar boðið þeim sem hafa þessa afstöðu að spyrja mig nánar út úr og gagnrýna en það verður eitthvað fátt um svör. Einn blaðamaður (sem ég hef aldrei vitað til að spyrji nokkurn mann um rök fyrir því sem hann segir) nefndi að hann hefði viljað sjá fleiri spurningar sem tengjast flóttamannamálum. Ég hef boðið honum öll þau gögn sem í mínu valdi stendur að útvega ef hann vill fjalla um þau nánar.

Þetta var allt of langt
Það er rétt að þetta var óvenjulega langt viðtal en virðist ekki hafa verið leiðinlegra en svo að ég hef aldrei fengið jafn mikil og góð viðbrögð við neinni fjölmiðlaumfjöllun og feministahluti viðtalsins hefur fengið yfir 1900 flettingar á youtube.

Það kom ekkert fram í þessu viðtali sem Eva hefur ekki skrifað um á blogginu sínu áður
Þetta er líka rétt en af hverju er það vandamál? Var Össur að segja eitthvað sem aldrei hefur heyrst áður? Reyndar eru þeir fleiri sem fylgjast með Silfri Egils en þeir sem lúslesa bloggið mitt og ég veit um þó nokkuð marga sem hafa ekki heyrt þessa gagnrýni mína áður.

Eva talar máli þeirra sem styðja þrælahald og ofbeldi.
Þetta er reyndar ekki svaravert en sérdeilis athyglsverð fullyrðing í ljósi þess að fyrri hluti viðtalsins fjallaði einmitt um þrælahald og ég efast um að nokkur Íslendingur hafi skrifað meira um málefni þræla en einmitt ég.

Önnur gagnrýni er aðallega órökstuddar fullyrðingar um að ég viti ekki hvað ég sé að tala um að ég sé ómálefnaleg eða að sú skoðun mín að vændi eigi að vera löglegt feli í sér upphafningu á kynlífsgeiranum og afneitun á skuggahliðum hans. Þeir sem hafa fylgst með skrifum mínum vita að sjálfsögðu betur. Einnig ber á útúrsnúningum, t.d. heldur María Lilja því fram að ég hafi líkt kaffibaunum við þurftafreka karlmenn en það þarf verulega góðan vilja til að leggja þá merkingu í orð mín.

Anna Bentína Hermannssen á innlegg á Smugunni sem mér finnst ástæða til að svara sérstaklega í næsta pistli.