Ég vona að þessi pistill veki umræðu, hugsaði ég um leið og ég klikkaði á publish. Það gekk eftir.

Það hefur áður komið fyrir að pistlarnir mínir fái viðbrögð, jafnvel hörð viðbrögð en það gerist aðallega ef ég hef sett fram óvinsælar skoðanir. Í þetta sinn var ég gagnrýnd enda þótt langflestir væru mér sammála um megininntak greinarinnar, þ.e.a.s. þá skoðun að jafnvel þótt kynferðisofbeldi sé hryllingur sem eðlilega veki reiði og örvæntingu, þá sé afar mikilvægt að gefa engan afslátt af sönnunarkröfum í kynferðisbrotamálum.

Hversvegna vekja vangaveltur svona mikla hneykslun, þegar flestir eru í raun sammála mér? Ég skoðaði svörin sem ég fékk, hér, á DV og á fb og það sem gengur fram af fólki er ekki það að ég sé mótfallin öfugri sönnunarbyrði, heldur það að mér skuli yfirhöfuð detta í hug að impra á möguleikanum á annarri eins vitleysu og þeirri að það sé ástæða til að hafa áhyggjur af þessu. Ástæðurnar fyrir því að þetta er ekkert vandamál og algerlega fráleitt að velta þessu fyrir sér, eru að sögn þeirra sem gagnrýna mig eftirfarandi:

  1. Það hefur ENGINN talað fyrir öfugri sönnunarbyrði í kynferðisbrotamálum.
  2. Þær sem hafa viðrað þá hugmynd opinberlega, meina ekki það sem ég tel þær augljóslega vera að segja, heldur eitthvað allt annað.
  3. Það er engin hætta á að sönnunarbyrðinni verði hnikað yfir á sakborning, af því að hvergi í hinum vestræna heimi gilda lög sem viðurkenna öfuga sönnunarbyrði.
  4. Það er bara vitleysa að Bretar séu búnir að snúa sönnunarbyrðinni við.
  5. Það er engin hætta á að sönnunarbyrðin lendi á herðum sakbornings, af því að ekkert mál er aðeins dæmt út frá framburði þolanda, heldur fleiri sönnunargögnum, svo sem vottorði um áfallastreituröskun.
  6. Með því að krefjast sannana er verið að gera lítið úr framburði fórnarlambsins og fæla konur frá því að kæra kynferðisofbeldi.
  7. Það er óþarft að hafa áhyggjur af þessu af því að það falla nánast aldrei sektardómar í kynferðisbrotamálum.
  8. Jafnvel þótt slakað væri á sönnunarkröfum, þurfum við ekki að hafa neinar áhyggjur, vegna þess að hlutfall rangra sakargifta er svo lágt að það tekur því ekki að tala um það.
  9. Það er óþarft að hafa áhyggjur af þessu af því að það eru svo miklu fleiri nauðgarar sem ganga lausir en þeir sem eru dæmdir.
  10. Við þurfum ekki að hafa áhyggjur af þessu af því að aðeins ein af hverjum tíu nauðgunum er kærð.
  11. Þess eru engin dæmi á Íslandi að maður hafi verið dæmdur fyrir rangar sakir.
  12. Þegar máli er vísað frá dómi er það konan sem er dæmd en flestir trúa karlinum.

Auk þessara punkta fékk ég að sjálfsögðu nokkur komment þess efnis að fyrst ég hefði ekki sjálf lent í því að kæra mann og málinu verið vísað frá, hefði ég þar með engan rétt til að tjá mig um þetta. Ég hirði ekki um að svara þeirri skoðun en allt hitt er að mínu mati áhugavert innlegg í umræðuna. Ég reikna með að dunda mér við að reifa þessar hugmyndir á næstu dögum.