Magnús Sveinn Helgason veltir fyrir sér þeirri orðræðu og heift sem viðgengst þegar rætt er um og við feminista og ég get svosem tekið undir margt af því sem hann segir. Skítkastið gengur stundum fram af manni.

Ég er hinsvegar ekki eins undrandi á þessu og Magnús Sveinn. Aðrir hópar aðgerðasinna hafa svosem ekki farið varhluta af skítkasti, allt sem víkur frá norminu kallar fram sterk viðbrögð. Feministar hafa þó sennilega orðið fyrir snarpari persónuárásum en nokkur annar hópur hugsjónafólks. Það á sér skýringar, ekki réttlætingar en skýringar samt.

Ég held að skýringarnar á þessari heift í garð feminista séu annarsvegar þær að í samfélagi ríkir alltaf tilhneiging „minna þroskaðra manna“ til þess að taka því að ákveðnir hópar eða einstaklingar sæti gagnrýni, sem formlegu leyfi til þess að leggja þá í einelti. Það er „seif“ að vera á móti þeim sem meirihlutinn hnussar yfir. Hinsvegar sú að feministar hafa látið alveg sérdeilis heimskulega og ljóta hluti frá sér fara og eiga það til að beita sálfræðihernaði fremur en rökum. Það er í sjálfu sér ekkert undarlegt þótt skrif sem bera keim af fordómum og fórnarlambshugsun kalli fram andúð og reiði.

Magnús Sveinn segir: ,,Svo er líka áhugavert að spyrja sig: Eru femínistar verri en annað hugsjónafólk? Eða femínískir aktívistar verri en aðrir aktívistar?“

Svarið er nei. Feministar eru ekkert verri en annað fólk og kannski bara ögn skárri á sumum sviðum. EN fólk sem ásakar þá sem eru ekki sammála því í einu og öllu um kynferðislega brenglun og illmennsku þarf ekki að undrast þótt því sé sagt að halda kjafti. Þeir sem gera engan sérstakan greinarmun á karlmanni og nauðgara geta reiknað með að vera álitnir karlhatarar og aktivistahópur sem tekur sér heiti sem vísar í fasisma og gervi sem vísar í ku klux klan, gengst upp í yfirvaldssinnuðum aktivisma og móðgast svo alveg ægilega yfir því að vera kenndur við fasisma, ætti kannski að leita orsakanna hjá sjálfum sér.

Við skulum líka hafa í huga að upphaflega var „feminazi“ notað um þá sem aðhylltust frjálsar fóstureyðingar, af fólki sem leit á fóstureyðingar sem manndráp. Það hefur líklega verið andúð á þeim verknaði fremur en persónulegt hatur sem kallaði fram þessa nafngift. Það var í sjálfu sér ekkert ómálefnalegt við það þótt þeir sem líta á fóstur sem manneskjur sjái baráttu fyrir frelsi kvenna til að láta eyða eins mörgum fóstrum og þeim sýnist, sem hliðstæðu helfararinnar, en í dag er vísunin gleymd og það þykir hentugt og kúl að nota orð sem stinga, fremur en að sérstök hugsun búi að baki.

Svörin við skrifum feminista einkennast af nöldri, háði og persónulegu skítkasti. Það er stundum vandgreint á milli gagnrýni og hatursáróðurs og það er ósköp dapurlegt. En að reyna að sporna gegn skítaþeytingi með því að biðja þá sem setja fram réttmæta og rökstudda gagnrýni, (gagnrýni sem feministar kjósa fremur að væla yfir en að taka til athugunar), virðingarfyllst að halda skoðunum sínum út af fyrir sig, svona til að espa ekki skrílinn, það er hmprmphh… verulega vond hugmynd.