Ísland 2010. Hún svífur upp að altarinu í hvítum kjól, sem táknar meydóm hennar og sakleysi ungmeyjarinnar. Faðir hennar við hlið henni, horfir ábúðarfullur á báða bóga. Brúðguminn bíður hennar við altarið ásamt föður sínum. Á æfingunni daginn áður sagði  presturinn föður brúðarinnar að hér væri viðeigandi að horfa rannsakandi á brúðgumann og föður hans, rétt eins og að honum hefðu læðst andartaks efasemdir um að þeir væru þess verðugir að tryggja velferð dóttur hans.

Hver fjandinn er eiginlega í gangi þarna? Við köllum svona uppákomu brúðkaup, rétt eins og nýr eigandi sé að taka við fasteign. Kaup hafa farið fram. Samt hafa hjónaleysin búið saman í 7 ár og tvö afkvæmi vekja grun um að mærin sé ekki alveg óspjölluð enn enda komin hátt á fertugsaldur. Einhvernveginn grunar okkur líka að það síðasta sem hafi hvarflað að henni þegar hún játaðist manninum hafi verið að spyrja föður sinn álits. Reyndar er fremur ólíklegt að brúðguminn hafi lagst á hnén í skjálfandi von um að hún tæki bónorði hans. Líklegra er að í gegnum árin hafi sú hugmynd að láta pússa sig saman í kirkju, af og til komið upp í samræðum þeirra, jafnvel án þess að ljóst sé hvort þeirra átti upptökin.

Ég er nokkuð viss um að ef Sóley Tómasdóttir eða María Lilja Þrastardóttir hefðu skrifað þennan pistil, væru einhverjir þegar komnir í varnarstöðu, og jafnvel farnir að æpa „öfgar og ofstopi, á nú að fara að banna brúðkaup?“

Af hverju ætli það sé? Af hverju stökkva ýmsir upp á nef sér um leið og feministi andar orði gegn viðteknum gildum? Af hverju leyfist mér að spyrja spurninga sem yrðu þegar í stað skotnar í kaf og afgreiddar sem öfgar og ofstæki ef þær kæmu frá einhverjum af talskonum feministahreyfingarinnar? Er ekki allt í lagi að bera fram spurningar um það hversvegna við gerum hlutina svona en ekki hinsegin?

Það er allt í lagi að spyrja og nú spyr ég;

  • Hversvegna við höldum í brúðkaupssiði sem endurspegla úrelt þjóðskipulag?
  • Hversvegna er grænn kall í umferðaljósinu en ekki lítil stelpa eða gömul kona?
  • Af hverju telja fæðingarstofnanir það vera í sínum verkahring að merkja ungbörn félagslegu hlutverki eftir kyni?
  • Af hverju finnst ísframleiðanda góð hugmynd að gefa börnum þau skilaboð að smekkur fari eftir kyni og/eða félagslegu hlutverki?
  • Hversvegna eru svo margar konur nógu uppteknar af útliti sínu til að undirgangast áhættusamar aðgerðir?
  • Af hverju er í tísku að fjarlægja kynhár?
  • Af hverju er tenging við kynlíf og kynþokka svona áberandi stef í markaðssetningu á aðskiljanlegustu hlutum?
  • Hvað fær konu til að vilja ganga með barn sem hún ætlar ekki að ala upp?
  • Hversvegna er karlmaður tilbúinn til að borga fyrir kynlíf þegar hann getur fengið það frítt heima hjá sér?

Það er ekki bara í lagi að kalla eftir umræðu um þessa hluti, það er beinlínis hollt hverju samfélagi að velta þeim fyrir sér. Öfgarnar felast ekki í því að varpa þessum spurningum fram. Öfgarnar felast í því að nálgast allt sem gæti verið gagnrýnivert í samfélagi okkar með fyrirframgefnu svari. Svari sem í öllum þessum tilvikum og ýmsum öðrum er hið sama; af því að karlar vilja kúga konur.

Menning okkar er full af minjum um veröld sem var.  Brúðkaupssiðir eru eitt dæmi um það hvernig ummerki löngu liðins feðraveldis endurspeglast í menningunni. Hefur það einhverja merkingu í dag eða höldum við í brúðkaup til þess að hafa átyllu til að halda veislu og gefa konunni færi á að vera prinsessa einn dag? Og ef svo er, hversvegna hefur kona þörf fyrir að leika prinsessu? Það er allt í lagi að spyrja. Það sem er ekki í lagi er að afskrifa allar skýringar aðrar en þær að allt sem við gerum í hugsunarleysi sé merki um, eða stuðli að, kúgun kvenna.

Ég held að stóra ástæðan fyrir því að þeir sem halda merkjum feminista á lofti mæta oft hörðum viðbrögðum við ágætum spurningum, sé einmitt sú að fólk er farið að reikna með því að tilgangurinn sé ekki sá að opna umræðu, heldur þvert á móti að loka henni. Horfa á heiminn út frá þeirri feminisku forsendu að allar mannnanna gjörðir snúist um að halda konum í skefjum og tryggja körlum völd.

Það er í meira lagi írónískt að einmitt það fólk sem mestar áhyggjur hefur af kvennakúgun, skuli með öllum ráðum berjast gegn rétti kvenna til að stjórna sínu eigin lífi. Nú er það staðgöngumæðrun sem á víst að vera sérstakt kúgunartæki. Þeirri skoðun til stuðnings benda menn á fátækar konur á Indlandi. Ekki er miðað við Bretland og Bandaríkin þar sem staðgöngumæðrun hefur verið praktíseruð án teljandi vandræða. Ekki bent á þá staðreynd að Íslendingar hafa gefið blóð, beinmerg og nýru, án þess að það hafi leitt til líffærasölu. Ekki á rannsóknir undangenginna áratuga sem benda ekki á nokkurn hátt til þess að staðgöngumæður á Vestulöndum séu kúgaðar. Ekki vísað til þeirra landa sem við berum okkur venjulega saman við, heldur til Indlands.

Það er þetta sem er að málflutningi margra sem kenna sig við feminisma, markmiðið er ekki að opna umræðu heldur að loka henni, með því að ætla þeim kvenfyrirlitningu og afturhaldssemi sem hafa aðrar skýringar á veruleikanum. Og hafi einhver önnur sjónarmið, fær viðkomandi fremur lítil viðbrögð, nema þá helst rakalausan skæting, í skársta falli tilmæli um að halda kjafti og virða einkarétt svokallaðra feminista á umræðu um jafnréttismál.

Það er þessvegna, ágætu feministar, sem málflutningur ykkar þykir ómálefnalegur, ekki vegna þess að það sé í sjálfu sér öfgafullt að spyrja um staðalmyndir, útlitsdýrkun eða klámvæðingu, heldur af því að svarið eina sanna, demoniserar helming mannkynsins og gerir hinn að fórnarlömbum. Sú ímynd kemur ekki heim og saman við reynslu okkar flestra sem lifum í vestrænu samfélagi.