Ég er ósammála Friðriki Smára, yfirmanni rannsóknarlögreglunnar, um að almennir borgarar eigi ekki að taka lögin í sínar hendur. Þvert á móti finnst mér það bara gott mál. Þ.e.a.s. að almennir borgarar sinni þeirri rannsóknarvinnu sem löggan vanrækir.

Ég vil helst ekki sjá almenna borgara taka að sér að dæma og refsa þótt vissulega megi deila um hæfni réttarkerfisins en að leggja sitt af mörkum til að koma í veg fyrir ofbeldi er hinsvegar sjálfsagt, jafn sjálfsagt og að koma náunga sínum til hjálpar í vanda. Það er samfélagsleg ábyrgð sem ætti að efla ef eitthvað er. Hvort lög sem skilgreina vændiskaup sem kynferðisglæp eiga rétt á sér, það er hinsvegar allt annað mál.

Að vera stóra systir

Ég ólst upp sem stóra systir. Ung að árum vissi ég flesta hluti betur en aðrir á heimilinu og þá einkum hvað systkinum mínum væri fyrir bestu og hvaða uppeldsisaðferðir væru líklegastar til að skila árangri. Ég elskaði þau út af lífinu, varði þau, barði og ráðskaðist með þau fram á fullorðinsár, í þeirri heilögu sannfæringu að mér bæri að hafa vit fyrir þeim. Enn í dag kemur það fyrir að mér finnst í raun og sannleika að æskilegast væri ef þau leyfðu mér að stjórna lífi sínu enda veit ég iðulega betur en þau. Það sem hefur breyst síðan ég var fjórtán ára er að í dag geri ég mér grein fyrir því að þessi umhyggja mín kallast á mannamáli frekja og stjórnsemi og þegar hún grípur mig tek ég því sem merki um að eitthvað vanti upp á geðprýði mína, fremur en að eitthvað sé að þessu fullorðna fólki sem hvað eftir annað tekur einhverjar allt aðrar ákvarðanir en mér þykja bestar.

En sumar stórar systur vaxa aldrei upp úr hlutverkinu. Sumar þeirra líta alla tíð á annað fólk sem börn eða minnimáttarmanneskjur sem þær, þessar stóru og merkilegu, þurfi að gæta, snýta og ala upp. Þær halda áfram að ráðskast með annað fólk í gegnum stjórnkerfið. Þær fara í lögguleik þegar þær telja líkur á að þessi litlu og vitlausu séu að gera eitthvað af sér eða fara sér að voða og hóta svo að klaga í pabba og mömmu, já eða bara „segja öllum“ ef þau hlýði ekki.

Ólögleg aðgerð — en er það svo slæmt?

Margir hafa velt upp þeim spurningum hvort aðgerð kúklúxbúrkusystranna sé ólögleg og/eða ósiðleg. Svarið er að hún er ólögleg. Klárlega. Það er bannað að auglýsa vændi, þær brutu þau lög, það er bannað að hvetja aðra til lögbrots, þær brutu einnig þau lög, það er líka ólöglegt að taka upp símtöl án þess að viðmælandinn viti af því og slík gögn eru ógild fyrir dómi.

Ég býst við því að margir þeirra sem þekkja afstöðu mína til vændislaganna reikni með að ég hafi óbeit á þessari aðgerð en svo er reyndar ekki. Ég hef óbeit á vændislögunum en ég hef skilning á þessari frekjuaðgerð. Lög eru engin heilög kýr. Lög um persónuvernd eru ekki sett í þeim tilgangi að glæpamenn geti dundað við sína iðju óáreittir, heldur þeim tilgangi að vernda almenna borgara gegn yfirvaldinu eða sá ætti allavega að vera tilgangur þeirra. Hvað varðar lög um vændisauglýsingar þá er einfaldlega fáránlegt að banna auglýsingar á löglegri starfsemi og því jafn bjánalegt að hnýta í stóru systur fyrir það, eins og það er af stóru systur að pönkast á fjölmiðlum fyrir að birta þær. Mér finnst lögbrotið því í sjálfu sér ómerkilegt. Verri finnst mér hótun þeirra um birtingu persónuupplýsinga. Það er nefnilega þannig í réttarríki að maður skal teljast saklaus uns sekt er sönnuð og þrátt fyrir að stórasystir sé búin að vera í samfelldu frekjukasti í mörg ár, hefur sú regla enn ekki verið afnumin gagnvart kynferðisbrotum.

Þetta kúgaða og sjálfsvirðingarlausa fórnarlamb feðraveldisins hefur sætt vændi og þarf nú
sárlega á afmellunarmeðferð að halda til að átta sig á því að hún vill þetta í rauninni ekki.

 Með augum Stóru Systur

Áður en við fordæmum kúkluxbúrkufasysturnar fyrir tiltækið, skulum við skoða þetta aðeins frá þeirra sjónarhóli. Við skulum gera okkur grein fyrir því að systraveldið hefur dálítið sérstakar hugmyndir um veruleikann. Þessar konur líta á vændiskaup sem alvarlegt kynferðisafbrot. Ekki minniháttar misneytingu heldur gróft ofbeldi gagnvart varnarlausum þolanda. Þær trúa því í raun og sannleika að karlmenn séu stórkostlega varhugaverðar skepnur og konur fórnarlömb, alltaf og við allar aðstæður. Þær trúa því í alvöru að vændiskúnnar séu illa innrætt skrímsli með manngervingsviðhengi fast við óseðjandi tittlinginn og að allar hórur séu viljalaus verkfæri, geðsjúklingar eða einhverskonar börn sem þurfi á vernd og umvöndun stóru systur að halda.

Þær trúa því að þótt kona geti sjálfviljug borað fingrunum ofan í sveittar spikfellingar til að nudda stífa vöðva, hreinsað graftarvellandi sár, meðhöndlað klamidíusýktar píkur, fjarlægt kúkableiur og klippt inngrónar táneglur, „hlutgervist“ hún skyndilega um leið og hún kemst í snertingu við nokkuð jafn ógeðslegt og stífan karlmannslim án þess að vera tilbúin til að giftast honum og eignast með honum börn. Breytist í verkfæri, bæði í eigin huga og „gerandans“ sem liggur á bakinu í hamslausum losta sínum á meðan hún þvingar sig til að strjúka þetta viðbjóðslega líffæri, með æluna í hálsinum og tárin rennandi niður kinnarnar. Og gangi hlutgervingin svo langt að karlinn, af óhaminni og viðurstyggilegri hórugirnd sinni, tæli hana eða beiti hana annarskonar andlegu ofbeldi til að þvinga hana úr nærbuxunum, missir hún skyndilega sjálfsvirðinguna, gott ef „sjálfsmynd hennar skerðist“ ekki (hvað sem það nú merkir) um leið og hún gyrðir niður um sig. Á þessu stigi hefur hún ennþá möguleika á að staðnæmast á druslustiginu og leita sér hjálpar hjá stóru systur til að endurheimta sjálfsvirðingu sína en ef peningar eða dýr gjöf hefur komið til tals er hún þegar orðin viljalaust fórnarlamb. Hún hefur „leiðst út í“ vændi. Hún „sætir“ vændi, sem hann „beitir“ hana, því eins og segir í Kynungabók:

Hugtakið kynbundið ofbeldi er notað um ofbeldi sem karlar beita konur svo sem nauðganir, mansal, vændi, ofbeldi í nánum samböndum, kynferðislega áreitni og klám.

Þetta er að vísu rangt en engu að síður sú hugmyndafræði sem nærbuxnafeministar vinna eftir.

Ef um aðra glæpi væri að ræða …

Þessi hugmynd um vændiskaup sem gróft kynferðisofbeldi er náttúrlega dálítið flippuð en í huga þessara kvenna er hún veruleiki og það sem meira er, þessi brenglaða mynd af veruleikanum hefur verið staðfest með lögum. Til þess að leggja mat á aðgerðina, verðum við því að máta aðra „glæpi“ inn í samskonar aðgerð. Ímyndum okkur t.d. að við vissum af dópmangara sem einbeitti sér að ólögráða börnum, löggan hefði engan áhuga á því og blöðin aðstoðuðu við markaðssetningu. Þætti okkur þá í lagi að þykjast vera væntanlegur kúnni og taka símtalið upp? Sennilega þætti flestum það réttlætanlegt því velferð barna er mikilvægari en bókstafur laganna.

Á myndinni má sjá konur sem eru ekki til því eins og segir í opnu bréfi samtaka um kvennaathvarf til þingfulltrúa 20. október 2003, þar sem skorað var á þá að taka lifibrauðið af vændiskonum:

Þær konur sem stunda vændi eru þar ekki af fúsum og frjálsum vilja heldur út af neyð, engin kona velur sér meðvitað það hlutskipti að gerast vændiskona.

Best gæti ég trúað að enn fleira fólk liti aðgerðina mildum augum ef það setti barnasölu inn sem breytu. Nú er í rauninni ekkert til sem heitir barnavændi. Að hafa mök við barn heitir barnamisnotkun og er jafn ólöglegt hvort sem peningar skipta um hendur eða ekki. Flestum okkar býður við slíkri hegðun og ég hef heyrt nokkur dæmi þess að fólki þyki stórasysturaðgerðin í lagi gagnvart manninum sem ætlaði sér að hitta 15 ára telpu gegn greiðslu en ekki gagnvart þeim sem ætluðu að hitta fullorðnar konur. Við skulum hinsvegar athuga að búrkusystur sjá engan sérstakan mun á vandræðaunglingum sem hitta menn á einkamal.is til að hala inn pening fyrir næsta skammti og fullorðnum druslum á sama vettvangi. Konur sem hegða sér ekki eins og þær vilja eru í þeirra huga börn, litlu systur sem þarf að passa. Í því ljósi er aðgerðin rökrétt og er rökhugsun þó ekki sterkasta hlið nærbuxnafeminista.

Að tækla Stóru Systur

Nú eru fasysturnar búnar að skamma óþekku bræðurna og næsta skref stóru systur hlýtur að vera að stoppa litlu systur í því að fara sér að voða. Við getum reiknað með að næst þykist þær vera þokkalega múraðir vændiskúnnar og mæti í búrkunum sínum á hóruhúsin til að bjóða fórnarlömbum feðraveldisins upp á afmellunarmeðferð. Og ef það dugar ekki til, má líklega reikna með að þær klagi í foreldra þeirra eða ef þær eru útlendingar að þær birti myndir af þeim í blöðunum svo við getum öll hjálpast að við að passa upp á að þær haldi nærbuxunum upp um sig.

Stóra systir kemur ekki til með að draga úr eftirspurn eftir vændi. Kúklúxbúrkurnar hafa hugsanlega gert einhverjum vesalingum hverft við svo þeir læra hér með að fara varlegar en lengra ná áhrif þeirra ekki. Lagalega hefur aðgerðin ekkert gildi. Samkvæmt íslenskum lögum er maður saklaus uns sekt hans er sönnuð og enn a.m.k. þarf dómsúrskurð fyrir forvirkum rannsóknarheimildum. Upplýsingarnar sem fasysturnar gáfu löggunni skipta því nákvæmlega engu máli fyrir hugsanlega rannsókn. Hinsvegar væri hægt að draga bjargvættirnar fyrir dóm ef einhver hórkarlinn hefði kjark til þess að kæra þær. Ég efast þó um að nokkur muni leggja í það, það er nefnilega svo ljótt að vera svona tittlingsskrímsli sem er m.a.s. til í að borga fyrir það sem ekki er í boði hjá stóru systur.

Svo hvernig er þá hægt að tækla stórusystur í frekjukasti? Jafnvel þótt við leiðréttum lögin, svo vitlaus sem þau nú eru, skiptir það litlu máli, það er eftir sem áður hægt að dunda sér við að elta fólk uppi og afhjúpa einkalíf þess. Það þarf að breyta lögunum en það dugir ekki til. Líklega væri besta leiðin gegn fasystraaðgerðum sú að hætta að líta á vændi og vændiskaup sem feimnismál. Viðurkenna veruleikann sem við blasir, líta á kynlífsþjónustu sem hverja aðra starfsgrein. Svara svo stóru systur á sama hátt í þessu tilviki eins og fullorðið fólk gerir allajafna þegar stóru systur þess fá frekjukast; tilkynna þeim af hinu mesta æðruleysi að þeim komi þetta að vísu ekki við en þær geti svosem ólmast eins og þær vilja, í búrku eða án. Segja þeim að þær geti birt nöfn og kennitölur ef þeim sýnist því þeir sem vinni við kynlífsþjónustu og noti hana, líti ekki á það sem neitt skammarlegt.

Þessi svívirtu fórnarlömb kynlífskaupenda vita ekkert hvað þær eru að tala um.
Þær þurfa stóru systur til að hafa vit fyrir sér.